Stefna ASÍ í vinnuverndarmálum

Réttindi launafólks á íslenskum vinnumarkaði eru óðum að verða sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu. Það helgast af baráttu verkalýðs­hreyf­ing­ar­innar, nánu norrænu samstarfi, samningnum um EES og alþjóðlegum mann­rétt­inda­sáttmálum. Aðild Íslands að EES og þær skyldur stjórnvalda sem henni fylgja hafa frá gildistöku samningsins fært íslensku launafólki talsverðar réttarbætur. Þess sér bæði stað í kjarasamningum og í löggjöf. Réttindi íslenskrar verkalýðshreyfingar lúta svipuðum lögmálum og annars staðar gerist en þó virðist sem samhliða auknum einstaklingsbundnum réttindum launafólks sé harðar sótt að sjálfstæðum réttindum verkalýðs­hreyfingarinnar. Gegn því verður að hamla.

 

Áherslur ASÍ:

 • Öryggi, góðar vinnuaðstæður, líkamleg og andleg vellíðan á vinnustað eru meðal mikilvægustu hagsmunamála launafólks.
 • Heilsuvernd starfsmanna á að felast í fyrirbyggjandi aðgerðum og miðlun upplýsinga til starfsmanna og stjórnenda.
 • Ný tækni og búnaður eiga að uppfylla kröfur um vinnuvernd, auðvelda störf og bæta vinnuaðstæður.
 • Taka verður tillit til hagsmuna starfsmanna og vinnuverndarsjónarmiða við skipulag vinnunnar.
 • Virða verður lög og samningsbundnar reglur um vinnu- og hvíldartíma.
 • ASÍ vinni að því í samvinnu við stjórnvöld og forystu sjómannasamtakanna að endurskoða reglur um aðbúnað og hollustuhætti um borð í fiskiskipum.
 • Efla verður rannsóknir á vinnuvernd til að draga úr vinnuslysum og atvinnusjúkdómum.
 • Efla ber alþjóðlega upplýsingamiðlun og samstarf.
 • Ábyrgð á öryggi og vinnuaðstæðum er á herðum atvinnurekenda.
 • Stjórnvöldum ber að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og framfylgja settum lögum og reglum.
 • Mikilvægt er að starfsmenn afli sér þekkingar á vinnuverndarreglum og gangi eftir að þeim sé framfylgt.
 • Helstu verkefni ASÍ eru að:
 • Hvetja til og taka virkan þátt í umræðu um vinnuvernd og mikilvægi hennar í samfélaginu og úti á vinnustöðunum.
 • Vera vettvangur þar sem stefna verkalýðshreyfingarinnar í vinnuverndarmálum er mótuð og fylgja henni eftir gagnvart stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda.
 • Afla upplýsinga um stöðu og þróun vinnuverndarmála á alþjóðavettvangi í gegnum alþjóðahreyfingu launafólks og miðla þeim til aðildarfélaganna og almennings.
 • Að knýja á um að heilsuvernd starfsmanna verði komið á í samræmi við samþykkt stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.
 • Að beita sér fyrir auknu samstarfi við Vinnueftirlitið og samtök launafólks um vinnuvernd.
 • Að byggja upp sérfræðiþekkingu á sviði vinnuverndar og miðla henni til aðildarfélaganna og ráða til þess sérstakan starfsmann.

Var efnið hjálplegt?