Evrópa

Samvinna Evrópuríkja hefur tekið grundvallar breytingum á síðustu áratugum. Upphafið má rekja til stofnunar Evrópska stál- og kolabandalagsins í kjölfars Síðari heimstyrjaldarinnar, en það var stofnað árið 1952. Árið 1957 fylgdu síðan Efnahagsbandalag Evrópu (og Kjarnorkubandalagið, um friðsamlega nýtingu kjarnorku) í kjölfarið. Í dag mynda 25 ríki Evrópu Evrópusambandið, ESB, þar sem tekist hefur mjög víðtækt samstarf á sviði efnahags-, atvinnu-, félags-, öryggis- og innanríkismála og alþjóðamála. 1. maí 2004 bættust 10 ný ríki í Evrópusambandið, sem nú telur hátt í 500 milljónir íbúa.

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, voru stofnuð við upphaf 7. áratugarins sem ákveðið mótvægi við samstarf annarra Evrópuríkja. Ísland gerðist aðili að EFTA í lok áratugarins. Í dag eiga Ísland, Noregur, Sviss og Lichtenstein aðild að EFTA.

Með samningunum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, sem tók gildi í byrjun árs 1994 varð Ísland aðili að víðtæku samstarfi aðildarríkja Evrópusambandsins og EFTA ríkjanna, að Sviss undanskyldu sem gert hefur gagnkvæma samninga á ýmsum sviðum við ESB. EES samningurinn felur í sér sameiginlegan markað Evrópuríkjanna fyrir vörur, þjónustu og fjármagn, auk sameiginlegs vinnumarkaðar. Þá felur samningurinn í sér margháttaða samræmingu og samstarf á fjölmörgum sviðum öðrum s.s. í vinnumarkaðs- og félagsmálum, menntun, rannsóknum og þróun og á sviði neytendaverndar. Þá er það eðli EES samningsins að viðfangsefni hans eru í stöðugri þróun.

Samstarf Evrópuríkjanna hefur kallað á aukið samstarf samtaka launafólks og aðila vinnumarkaðarins í Evrópu. Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, er lang mikilvægasti vettvangurinn fyrir samstarf evrópskrar verkalýðshreyfingar. Aðild að ETUC eiga heildarsamtök launafólks í Evrópu og Evrópusamtök einstakra starfs- og atvinnugreina. ETUC er viðurkennt af Evrópusambandinu og öðrum Evrópustofnunum sem fulltrúi launafólks í Evrópu og tekur virkan þátt í umræðu, stefnumótun og ákvarðanatöku innan ESB. Þá rekur ETUC víðtæka rannsóknar- og ráðgjafarstarfsemi á sviði efnahags-, atvinnu- og vinnumarkaðsmála innan ETUI. ASÍ var einn að stofnaðilum ETUC og virkur þátttakandi í starfi sambandsins.

Ráðgjafarnefnd EFTA er vettvangur fyrir skoðanaskipti og samstarf heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda í EFTA ríkjunum. Eins og nafnið ber með sér er Ráðgjafarnefndinni ætlað að vera aðildarríkjum og sameiginlegum stofnunum EFTA til ráðgjafar um málefni er varða innra samstarf EFTA ríkjanna, samstarf þeirra við önnur ríki Evrópu, innan ESB, og við ríki utan Evrópu. Með EES samningnum var stofnað til samstarfs Ráðgjafarnefndar EFTA og Efnahags- og félagsmálanefndar ESB, EESC, í Ráðgjafarnefnd EES um sameiginleg málefni er varða Evrópska efnahagssvæðið og samskipti við aðila utan svæðisins. ASÍ er virkur þátttakandi í starfi beggja Ráðgjafarnefndanna.

 

Var efnið hjálplegt?