Skipulag

ASÍ er samband landssambanda og félaga með beina aðild. Æðsta vald í málefnum ASÍ er í höndum þinga sambandsins. Á tveggja ára fresti koma saman 290 kjörnir fulltrúar launafólks af öllu landinu, en hvert aðildarfélag á rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa óháð stærð. Á þinginu er stefna heildarsamtakanna mótuð og þeim valin forysta.

Formannafundir aðildarfélaga ASÍ eru vettvangur stefnumótunar ASÍ og samráðs aðildarfélaga ASÍ milli sambandsþinga. Þá skal kalla saman að hausti það ár sem sambandsþing eru ekki haldin og ákveður miðstjórn fundarstað og fundartíma.

Miðstjórn ASÍ er 15 manna og sér um daglega stjórn sambandsins milli ársfund og kemur saman tvisvar í mánuði, gjarnan 1. og 3. miðvikudag í mánuði. Forsetafundir eru haldnir alla mánudagsmorgna, þar sem forseti, varaforseti, framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri fara yfir helstu málefni sambandsins fyrir komandi viku. Á forsetafundum er dagskrá næsta miðstjórnarfundar skipulögð.

Til að fylgja stefnumótun sambandsþinga eftir hefur miðstjórn ASÍ sett á laggirnar málefnanefndir. Þær hafa frumkvæði að stefnumótun ASÍ hver á sínu sviði og fylgja eftir samþykktum miðstjórnar. Í þessum nefndum ASÍ starfa, auk fulltrúa miðstjórnar, fulltrúar frá landssamböndum innan ASÍ og félaga með beina aðild auk sérfræðings frá skrifstofu ASÍ – alls 8 fulltrúar. Fastanefndir ASÍ gefa góða mynda af því viðamikla starfi sem sambandið hefur með höndum og samráði aðildarsamtakanna. Fastanefndir ASÍ eru: Alþjóðanefnd, atvinnumálanefnd, jafnréttis- og fjölskyldunefnd, menntanefnd, kjara- og skattanefnd, skipulags- og starfsháttanefnd, velferðarnefnd, vinnuréttar- og vinnumálanefnd, og lífeyris- og trygginganefnd.

Auk þessa innra starfs á ASÍ viðamikið samstarf og samráð við bæði ríki og sveitarfélög um ýmis mál. Því skipar miðstjórn ASÍ fulltrúar ASÍ í ýmsum nefndum og ráðum.

Forseti ASÍ er Drífa Snædal
1. varaforseti ASÍ er Vilhjálmur Birgisson
2. varaforseti ASÍ er Kristján Þórður Snæbjarnarson