Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðavæðingin með auknum viðskiptum og samskiptum þjóða á öllum sviðum felur í sér að þekking og þátttaka í alþjóðastarfi verður stöðugt mikilvægari fyrir verkalýðshreyfinguna á alþjóðavettvangi og í þjóðríkjunum. Þá hefur alþjóðavæðingin aukið skilning á mikilvægi stuðnings samtaka launafólks við verkalýðshreyfingu og alla alþýðu í þróunarríkjunum.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, ITUC eru alþjóðasamtök launafólks sem stofnuð voru í byrjun nóvember 2006 með sameiningu tveggja alþjóðsambanda og svæðasambanda launafólks sem staðið höfðu utan alþjóðasamtakanna. ITUC nýtur almennrar og víðtækrar viðurkenningar í alþjóðasamfélaginu sem fulltrúi launafólks á alþjóðavettvangi. Megin verkefni samtakanna er að samræma afstöðu aðildarsamtakanna og koma fram fyrir þeirra hönd á alþjóðavísu og í ýmsum alþjóðastofnunum. Þunginn í starfi ITUC beinist að baráttunni fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á réttindum launafólks til að stofna og starfa í verkalýðsfélög og rétt þeirra til að gera kjarasamninga. Þá berjast þau fyrir grundvallarréttindum launafólks í starfi og almennum mannréttindum. Eðli málsins samkvæmt beinist starf ITUC að því að styðja verkalýðshreyfinguna og mannréttindabaráttu í þróunarríkjunum, innan alþjóðastofnana og í einstaka þróunarríkjum

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. ILO er vettvangur fyrir þríhliðasamstarf ríkisstjórna og samtaka launafólks og atvinnurekenda á alþjóðavettvangi og í aðildarríkjunum. Starf ILO beinist einkum að grundvallarréttindum samtaka á vinnumarkaði og launafólks í starfi. ILO hefur samþykkt mikinn fjölda samþykkta á framangreindum sviðum, auk þess að standa fyrir öflugu rannsóknastarfi á sviði vinnumarkaðsmála og sinna margháttuðu aðhalds-, og leiðbeiningar- og þróunarhlutverki. ASÍ hefur á undanförnum árum eflt til muna starf sitt á vettvangi ILO.

Ráðgjafarnefnd Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), TUAC, er vettvangur heildarsamtaka launafólks í 30 aðildarríkjum OECD. TUAC gegnir víðtæku ráðgjafarhlutverki um málefni er varða efnahags-, atvinnu- og félagsmál gagnvart OECD og iðnríkjunum 8, G8. TUAC hefur sterk tengsl við ETUC og ICFTU og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar innan ILO.

 

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, ITUC

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, ITUC, eru samtök heildarsamtaka  launafólks og svæðasambanda sem starfa um allan heim. ITUC er í dag einu viðurkenndu heildarsamtök launafólks á heimsvísu.

ITUC var stofnað 1. nóvember 2006 með sameiningu tveggja alþjóðasamtaka launafólks, Alþjóðasambands frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU) og Heimssamtaka verkafólks (WCL), auk nokkurra svæðisbundinna samtaka sem stóðu utan heildarsamtakanna.

1. nóvember áttu 168 milljónir launafólks í 304 aðildarsamtökum í 153 löndum og landssvæðum aðild að ITUC. ITUC starfar um allan heim. Í Evrópu á ITUC náið samstarf við ETUC, sem hefur innan sinna raða öll aðildarsamtök ITUC í Evrópu. Þá á ITUC náið samstarf við alþjóðasambönd einstakra starfs- og atvinnugreinanna.

Starf ITUC beinst einkum að því að bæta stöðu og auka réttindi verkafólks í þróunarríkjunum, auk þess að styðja almenna mannréttindabaráttu. Sem dæmi um málefni sem ITUC starfar að má nefna:

Að réttindi samtaka launafólks og lágmarksréttindi verkafólks séu viðurkennd og virt.

  • Barátta fyrir mannsæmandi vinnu til mannsæmandi lífskjara.
  • Barátta gegn barnaþrælkun.
  • Barátta fyrir jöfnum rétti til handa konum á vinnumarkaði.
  • Að byggja upp félagslega fræðslu fyrir virka félaga í verkalýðshreyfingunni um allan heim.
  • Að auka þátttöku ungs fólks í verkalýðshreyfingunni.
  • Úttektir og aðstoð við samtök launafólks sem eiga undir högg að sækja. 

ITUC á náðið samstarf við Alþjóðavinnumálastofnunina, ILO. Þá gegna samtökin ráðgjafarhlutverki gagnvart Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, og einstaka stofnana þeirra eins og UNESCO og FAO. ITUC á einnig samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), Alþjóðabankann og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO).

ASÍ á aðild að ITUC. Í framkvæmd er þátttaka ASÍ á starfi ITUC einkum í gegnum aðildina að Norræna verkalýðssambandinu (NFS)  og Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC).

Smelltu hér til að fara á heimasíðu ITUC

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, var sett á stofn árið 1919 og varð hluti Sameinuðu þjóðanna við stofnun þeirra. Hún er sérstök og sjálfstæð stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og er ætlað að vinna að auknu félagslegu réttlæti og standa vörð um réttindi launafólks um heim allan. Stofnunin byggir á þríhliða samstarfi fulltrúa stjórnvalda, launafólks og atvinnurekenda. Innan hennar fara stjórnvöld með tvö atkvæði á móti  einu atkvæði launafólks og einu atkvæði atvinnurekanda. Þetta fyrirkomulag við stjórnun alþjóðastofnunnar er einstætt í alþjóðasamskiptum. 

Á vettvangi ILO eru samþykktar alþjóðlegar reglur er varða m.a. réttindi og skyldur á vinnumarkaði, aðbúnað og hollustuhætti o.fl. Til þess að reglurnar fái gildi að alþjóðarétti, þarf hvert og eitt aðildarríki stofnunarinnar að staðfesta þær og til þess að þær öðlist gildi að landsrétti þarf að samþykkja þær með einum eða öðrum hætti inn í landsrétt viðkomandi ríkja. 

Ísland gerðist aðili að ILO árið 1945 og ber að leggja samþykktir ILO fyrir Alþingi til staðfestingar eða synjunar. Íslenskum stjórnvöldum ber, samkvæmt stofnskrá ILO, að senda stofnuninni skýrslu um aðgerðir sínar til að hrinda í framkvæmd þeim samþykktum sem það hefur fullgilt, þ.e. með því að fullgilda samþykktir ILO skuldbinda ríki sig til að haft sé alþjóðlegt eftirlit með framkvæmdunum.

ASÍ fer með atkvæði íslenskrar verkalýðshreyfingar á þingum ILO, en það gera stærstu heildarsamtök hverrar aðildarþjóðar. Áherslur ASÍ á starf í tengslum við stofnunina hafa farið vaxandi. Í upphafi ársins 2019 tók Magnús M. Norðdahl. lögfræðingur ASÍ, fyrstur Íslendinga sæti í stjórn ILO. Það gerði hann sem fulltrúi launafólks með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar á norðurlöndunum og með stuðningi ITUC - Alþjóðsambands verkalýðsfélaga.

ASÍ tekur virkan þátt í starfi þríhliða nefndar ILO hér innanlands og á árlegu þingi stofnunarinnar. Auk þess tekur ASÍ þátt í undirbúningsstarfi norrænu verkalýðshreyfingarinnar vegna málefna ILO. Á þeim vettvangi hafa samtökin sameinast um að gefa út sérstaka skýrslu um norræna ILO starfið og fullgildingu samþykkta ILO á norðurlöndunum. Þar er einnig að finna skýringar á því hvers vegna tilteknar samþykktir hafa ekki verið fullgiltar. Sjá:  Nordic ILO Report 2008, Nordic ILO Report 2017

Í tengslum við þing ILO er haldinn skóli fyrir félagsmenn í norrænu verkalýðshreyfingunni, Norræni Genfarskólinn.

Nánar er fjallað um ILO á vinnuréttarvef ASÍ, Alþjóðlegur vinnuréttur.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu ILO

 

Hér er hægt að nálgast skýrslur frá þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Skýrsla frá 108. þingi 2019

Skýrsla frá 107. þingi 2018

Skýrsla frá 106. þingi 2017

Skýrsla frá 105. þingi 2016

Skýrsla frá 104. þingi 2015

Skýrsla frá 103. þingi 2014

Skýrsla frá 102. þingi 2013

Skýrsla frá 101. þingi 2012 

Skýrsla frá 100. þingi 2011

Skýrsla frá 99. þingi 2010

Skýrsla frá 98. þingi 2009

Skýrsla frá 97. þingi 2008

Skýrsla frá 96. þingi 2007

Skýrsla frá 95. þingi 2006

Skýrsla frá 93. þingi 2005

Skýrsla frá 92. þingi 2004

Skýrsla frá 91. þingi 2003

Skýrsla frá 90. þingi 2002

Skýrsla frá 89. þingi 2001

Skýrsla frá 88. þingi 2000

Skýrsla frá 87. þingi 1999

 

Ráðgjafarnefnd efnahags-og framfarastofnunar Evrópu (OECD), TUAC

Ráðgjafarnefnd Efnahags og framfarastofnunar Evrópu (OECD), TUAC er vettvangur fyrir samráð og samvinnu verkalýðshreyfingarinnar innan aðildarríkja OECD.

TUAC var upphaflega sett á fót árið 1948 sem ráðgefandi aðili við framkvæmd Marshall áætlunarinnar. Þegar OECD var stofnað í núverandi mynd árið 1962 hélt TUAC áfram að koma fram sem fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar í aðildarríkjunum.

Aðild að TUAC eiga nú 56 heildarsamtök launafólks í 30 aðildarríkjum OECD sem til samans eru fulltrúar 70 milljóna launamanna.

TUAC hefur viðurkennda stöðu sem ráðgefandi aðili gagnvart OECD og hinum ýmsu nefndum þess.

Núverandi hlutverk TUAC er einkum fólgið í því að reyna að tryggja að alþjóðlegri markaðsvæðingu fylgi einnig félagslegar áherslur sem verndi rétt launafólks og tryggi almenn mannréttindi. Þá er TUAC ábyrgt fyrir því að setja fram skoðanir og afstöðu verkalýðshreyfingarinnar á árlegum fundum iðnríkjanna átta, G8.

Þar sem þorri aðildarsamtaka TUAC eru jafnframt aðilar að öðrum samtökum launafólks á Evrópu og heimsvísu á TUAC mikið og gott samstarf við þessi samtök. Það á meðal annars við um ETUC og ICFTU. Sama gildir um Alþjóðavinnumálastofnunina. Þá á TUAC einnig mikið samstarf við alþjóðasamtök starfs- og atvinnugreina.

ASÍ hefur ekki tekið virkan þátt í starfi TUAC.
Smelltu hér til að fara á heimasíðu TUAC

Var efnið hjálplegt?