Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðavæðingin með auknum viðskiptum og samskiptum þjóða á öllum sviðum felur í sér að þekking og þátttaka í alþjóðastarfi verður stöðugt mikilvægari fyrir verkalýðshreyfinguna á alþjóðavettvangi og í þjóðríkjunum. Þá hefur alþjóðavæðingin aukið skilning á mikilvægi stuðnings samtaka launafólks við verkalýðshreyfingu og alla alþýðu í þróunarríkjunum.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, ITUC eru alþjóðasamtök launafólks sem stofnuð voru í byrjun nóvember 2006 með sameiningu tveggja alþjóðsambanda og svæðasambanda launafólks sem staðið höfðu utan alþjóðasamtakanna. ITUC nýtur almennrar og víðtækrar viðurkenningar í alþjóðasamfélaginu sem fulltrúi launafólks á alþjóðavettvangi. Megin verkefni samtakanna er að samræma afstöðu aðildarsamtakanna og koma fram fyrir þeirra hönd á alþjóðavísu og í ýmsum alþjóðastofnunum. Þunginn í starfi ITUC beinist að baráttunni fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á réttindum launafólks til að stofna og starfa í verkalýðsfélög og rétt þeirra til að gera kjarasamninga. Þá berjast þau fyrir grundvallarréttindum launafólks í starfi og almennum mannréttindum. Eðli málsins samkvæmt beinist starf ITUC að því að styðja verkalýðshreyfinguna og mannréttindabaráttu í þróunarríkjunum, innan alþjóðastofnana og í einstaka þróunarríkjum

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. ILO er vettvangur fyrir þríhliðasamstarf ríkisstjórna og samtaka launafólks og atvinnurekenda á alþjóðavettvangi og í aðildarríkjunum. Starf ILO beinist einkum að grundvallarréttindum samtaka á vinnumarkaði og launafólks í starfi. ILO hefur samþykkt mikinn fjölda samþykkta á framangreindum sviðum, auk þess að standa fyrir öflugu rannsóknastarfi á sviði vinnumarkaðsmála og sinna margháttuðu aðhalds-, og leiðbeiningar- og þróunarhlutverki. ASÍ hefur á undanförnum árum eflt til muna starf sitt á vettvangi ILO.

Ráðgjafarnefnd Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), TUAC, er vettvangur heildarsamtaka launafólks í 30 aðildarríkjum OECD. TUAC gegnir víðtæku ráðgjafarhlutverki um málefni er varða efnahags-, atvinnu- og félagsmál gagnvart OECD og iðnríkjunum 8, G8. TUAC hefur sterk tengsl við ETUC og ICFTU og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar innan ILO.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, ITUC

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, ITUC, eru samtök heildarsamtaka  launafólks og svæðasambanda sem starfa um allan heim. ITUC er í dag einu viðurkenndu heildarsamtök launafólks á heimsvísu.

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO, var sett á stofn árið 1919 og varð hluti Sameinuðu þjóðanna við stofnun þeirra. Hún er sérstök og sjálfstæð stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og er ætlað að vinna að auknu félagslegu réttlæti og standa vörð um réttindi launafólks um heim allan. Stofnunin byggir á þríhliða samstarfi fulltrúa stjórnvalda, launafólks og atvinnurekenda. Innan hennar fara stjórnvöld með tvö atkvæði á móti  einu atkvæði launafólks og einu atkvæði atvinnurekanda. Þetta fyrirkomulag við stjórnun alþjóðastofnunnar er einstætt í alþjóðasamskiptum.

Skýrslur frá þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Hér geturðu sótt skýrslur frá þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1999–2019.

Ráðgjafarnefnd efnahags-og framfarastofnunar Evrópu (OECD), TUAC

Ráðgjafarnefnd Efnahags og framfarastofnunar Evrópu (OECD), TUAC er vettvangur fyrir samráð og samvinnu verkalýðshreyfingarinnar innan aðildarríkja OECD.

Var efnið hjálplegt?