Samfélagssáttmáli um félagslegan stöðugleika

Áskorun ASÍ til stjórnmálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninganna 2017

Heildarsamtök á vinnumarkaði hafa unnið að mótun nýs samningalíkans byggt á norrænni fyrirmynd, þar sem órjúfanlegt samhengi er á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika.

Alþýðusambandið vill samfélag jafnréttis og jafnra tækifæra þar sem öllum er tryggð mannsæmandi afkoma og réttur til heilbrigðisþjónustu, menntunar og velferðar. Launafólk verður að geta treyst því að stjórnvöld forgangsraði í þágu velferðar og tryggi í það fjármagn með réttlátu skattkerfi sem dreifir byrðunum. Um þetta þarf að ríkja breið sátt og skilningur milli stjórnmálanna og vinnumarkaðarins. Það er þetta sem við köllum félagslegan stöðugleika.

Áhersluatriði ASÍ í myndrænni framsetningu

Öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla

Nægilegt fjármagn þarf til reksturs grunnstoða opinbera heilbrigðiskerfisins. Sjúklingar greiða of mikið fyrir læknisþjónustu og of margir þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu og lyf. Öldruðum fjölgar hratt en öldrunarþjónustan situr eftir.

 • Draga þarf til mikilla muna úr kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni og vinna markvisst að því að bæta aðgengi að þjónustunni og stytta biðlista. Setja þarf mælanleg árangursmarkmið.
 • Móta þarf heildstæða og framsækna stefnu fyrir heilbrigðisþjónustuna. Grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar verði tryggt nægilegt rekstarfé og innviðir byggðir upp til að tryggja þjónustu í fremstu röð. Flýta þarf byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
 • Tryggt verði að enginn þurfi að neita séu um nauðsynleg lyf af fjárhagsástæðum.
 • Efla þarf öldrunarþjónustuna og gera raunhæfar áætlanir um fjármögnun og uppbyggingu búsetu- og þjónustuúrræða til framtíðar.

Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum:

Ungt fólk kemst ekki að heiman, tekjulág heimili hafa ekki húsnæðisöryggi og greiða allt of hátt hlutfall tekna sinna í húsnæði.

 • Byggja þarf upp traustan leigumarkað. Veita þarf stofnframlög til uppbyggingar á a.m.k. 1.000 nýjum íbúðum á ári í almennum leiguíbúðakerfinu á næstu árum.
 • Efla þarf vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfin, tryggja stöðugleika þeirra og jöfnunarhlutverk
 • Húsnæðisliður verði tekin út úr vísitölu neysluverðs
 • Húsnæðislánakerfið er óhagkvæmt og tryggir ekki almenningi lægstu mögulegu vexti. Gera þarf breytingar á húsnæðislánakerfinu að danskri fyrirmynd.

Ábyrgur vinnumarkaður

Undirboð á vinnumarkaði, svört atvinnustarfsemi og margvísleg önnur brotastarfsemi er alvarlegur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Þessi brotastarfsemi beinist einkum gegn útlendingum og ungu fólki. Þá veldur kennitöluflakk miklu samfélagslegu tjóni.

 • Stjórnvöld setji í forgang að berjast með öllum ráðum gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi.
 • Endurskoða þarf löggjöf á vinnumarkaði með það að markmiði að auka eftirlitsheimildir, herða viðurlög og auka heimildir til að stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði.
 • Lögleiða þarf keðjuábyrgð verkkaupa/aðalverktaka á verktakamarkaði og í ferðaþjónustu.
 • Herða þarf löggjöf og auka heimildir skattayfirvalda til að koma í veg fyrir kennitöluflakk.

Velferð á vinnumarkaði

Á síðustu árum hafa stjórnvöld grafið undan velferð á vinnumarkaði.  Sífellt fleiri feður taka ekki fæðingarorlof og fæðingartíðni hefur aldrei verið lægri. Atvinnuleysisbætur hafa dregist verulega aftur úr launaþróun og fólki sem veikist og slasast er beint í fátækragildru ef það endurhæfist.

 • Hækka þarf hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 600.000 nú þegar og lengja orlofið í 12 mánuði.
 • Hækka þarf atvinnuleysisbætur til samræmis við launaþróun á vinnumarkaði.
 • Tryggja þarf þeim sem veikjast og slasast raunveruleg tækifæri til starfsendurhæfingar og endurkomu á vinnumarkaðinn með endurskoðun á almannatryggingakerfinu og upptöku starfsgetumats.

Tekjuöflun með réttlátu skattkerfi

Til að treysta efnahagslegan stöðugleika og fjármagna félagslega velferð þarf réttlátt skattkerfi sem dreifir byrðunum með sanngjörnum hætti og tryggir öllum hlutdeild  í velsældinni.

 • Tekinn verði að nýju upp auðlegðarskattur.
 • Atvinnulífið greiði sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindunum.
 • Lagður verði alvöru hátekjuskattur á ofurlaun.
 • Persónuafsláttur fylgi launavísitölu.
 • Stutt verði betur við barnafólk.
 • Gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar og hert á aðgerðum gegn skattsvikum.

Var efnið hjálplegt?