Umhverfismál

Umhverfismál fjalla um áhrif athafna mannsins á umhverfi sitt; landið, loftið, vatnið og aðrar lífverur. Umhverfismál fjalla um nýtingu og verndum náttúruauðlinda og loftlagsbreytingar af mannavöldum en neikvæðar afleiðingar þeirra fyrir komandi kynslóðir eru uggvænlegar. Breytingar á umhverfi okkar hafa nú þegar víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf til framtíðar og á lífskjör almennings. Umhverfismál þarf að samþætta allri samfélagsumræðu og þekking er nauðsynleg í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Forsendur breytinga er þátttaka og samvinna en þar hefur verkalýðshreyfingin sem öflug fjöldahreyfing mikilvægu hlutverki að gegna.

Áherslur ASÍ

Nauðsynlegt er að byggja upp sjálfbært samfélag þar sem velferð okkar rýrir ekki velferð komandi kynslóða né rýrir kjör annarra þjóða eða dragi úr möguleikum þeirra til að bæta kjör þegna sinna.

  • ASÍ vill öflugt atvinnulíf á sjálfbærum grunni sem skapar verðmæt störf þar sem náttúruauður og mannauður er nýttur á sem fjölbreytilegastan hátt.
  • ASÍ leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda til lands og sjávar og á innlenda orkugjafa, þekkingariðnað og fulla nýtingu afurða.
  • Tryggja þarf að ekki sé gengið á náttúruauðlindir umfram raunverulegar þarfir.
  • ASÍ leggur áherslu á umhverfisvænar samgöngulausnir og notkun vistvænna og endurnýtanlegra orkugjafa í öllum samgöngum sem mikilvægan þátt í að draga úr loftslagsmengun.
  • ASÍ leggur áherslu á öfluga og markvissa fræðslu og kynningu á mikilvægi vistvæns lífsstíls s.s. í samgöngum og við innkaup.
  • ASÍ leggur áherslu á að efla umhverfis- og neytendafræðslu á öllum skólastigum og á vinnumarkaði.

Verkefni ASÍ

Þekking er lykillinn að almennri þátttöku fólks í að takast á við breyttar aðstæður þar sem sjálfbærni og umhverfisvitund er höfð að leiðarljósi.

  • ASÍ beiti sér fyrir vitundarvakningu í samvinnu við aðildarfélög sín um mikilvægi vistvæns lífsstíls. Með aukinni umhverfis- og neytendavitund er hægt að efla sjálfbærar neysluvenjur og vinna að markvissum fyrirbyggjandi aðgerðum í nærumhverfinu.
  • ASÍ vinni í samvinnu við MFA að því að efla umhverfisfræðslu fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga sambandsins.
  • ASÍ stuðli að því að öll aðildarfélög sambandsins setji sér umhverfismarkmið.

Samþykkt í miðstjórn ASÍ í september 2014.

Var efnið hjálplegt?