Þingið

44. þing ASÍ er með óvenjulegasta móti - haldið í tveimur hlutum með 11 mánaða hléi á milli vegna heimsfaraldursins. Í október 2020 var fyrri hluti þess haldinn í skugga COVID. Um var að ræða rafrænt þing þann 21. október þar sem kjarnaatriðin, samkvæmt lögum ASÍ, voru afgreidd en þinginu svo frestað fram á nýtt ár þegar fara átti í málefnavinnu. Ástæðan er alkunn, stífar samkomutakmarkanir og erfiðleikar við að tryggja sóttvarnir gerðu það ómögulegt að safnast saman á 300 manna þingi eins og venjan er. Á vormánuðum 2021 tók miðstjórn ASÍ ákvörðun um að málefnahluti þingsins færi fram 8. og 9. september enda sá þá fyrir endan á faraldrinum.

Æðsta vald í málefnum ASÍ er í höndum þinga Alþýðusambandsins sem haldin eru á tveggja ára fresti. Hvert aðildarfélag á rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins. Á þingin mæta þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu.

Þingið fer fram í upphafi hrinu breytinga vegna tækniþróunar og loftslagskrísunnar. Þær breytingar munu hafa gríðarleg áhrif á vinnumarkaði og tilfærslu úr neysluhagkerfi í hringrásarhagkerfi sem munu leiða til víðtækra breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum. Störf munu breytast, sum hverfa og ný verða til. Verkalýðshreyfingin þarf að leiða þessar breytingar í því skyni að tryggja meiri jöfnuð og afkomuöryggi fyrir alla.

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur þróað ramma utan um samfélagsbreytingar næstu ára undir yfirskriftinni réttlát umskipti. Markmiðið er að tryggja réttindi og lífsviðurværi fólks í gegnum breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum vegna loftslagsbreytinga, samhliða því að tekist er á við áhrif nýrrar tækni, gervigreindar og sjálfvirknivæðingar.

Grunnstefið í réttlátum umskiptum er að breytingarnar þurfi að vera réttlátar gagnvart launafólki, ekki síst í þeim atvinnugreinum sem munu gjörbreytast eða jafnvel hverfa í tengslum við tækniþróun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Hugmyndafræði réttlátra umskipta gerir ráð fyrir að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar séu leiðandi í að móta breytingar á samfélaginu með það að markmiði að tryggja víðtæka samstöðu um leiðir til að mæta áskorunum 21. aldarinnar. Í því felst meðal annars að greina áhrif aðgerða á mismunandi samfélagshópa og tryggja að þær komi ekki sérstaklega niður á ákveðnum hópum og verði ekki til þess að auka á ójöfnuð. Í þeim tilfellum þar sem hætta er á að ákveðnir hópar verða illa úti vegna breytinga sé gripið til mótvægisaðgerða.

Í þessu umræðuskjali er lagt til að réttlát umskipti verði leiðarstefið í nálgun ASÍ á þær breytingar sem framundan eru í íslensku samfélagi og á vinnumarkaði. Réttlát umskipti ganga sem rauður þráður í gegnum þessi drög að stefnumótun sem sett eru fram í fjórum liðum:

1) Öflugt atvinnulíf á sjálfbærum grunni 
2) Réttindi á vinnumarkaði og félagsleg vernd 
3) Menntun til framtíðar 
4) Réttlátt skattkerfi sem tryggir jöfnuð og fjármagnar velferð

Markmið til framtíðar er að byggja upp fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf þar sem allir geta fengið störf við hæfi. Til þess þarf vinnumarkaðurinn að byggja á traustum ráðningarsamböndum, skipulagðri verkalýðshreyfingu og kjarasamningum, auk þess að styðja gott samspil vinnu, fjölskyldulífs og frístunda. Jafnframt verði afkoma fólks tryggð óháð stöðu, grunnviðir samfélagsins stórefldir og grunnþjónusta sem lýtur að menntun, velferð og heilbrigði gerð gjaldfrjáls og öllum aðgengileg. Þannig býr Ísland sig undir tæknibreytingar og nýja atvinnu- og lifnaðarhætti.