Menntun til framtíðar

Breytingar í atvinnulífinu og á vinnumarkaði með nýrri tækni og breyttum atvinnuháttum kalla á nýjar áherslur og vinnubrögð. Þær fela í sér nýjar samfélagslegar áskoranir og tækifæri fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið allt. Nýsköpun í atvinnulífinu, örar tæknibreytingar og áhrif loftslagsbreytinga á vinnumarkaðinn, kalla á að einstaklingar endurnýi stöðugt þekkingu sína og færni.  Gefa verður öllum tækifæri til að efla færni sína, afla sér menntunar og bæta þar með stöðu sína á vinnumarkaði. Markmiðið er að allir á vinnumarkaði njóti góðs af áhrifum tæknibreytinga í atvinnulífinu. Verkalýðshreyfingin þarf að standa vörð um jafnt aðgengi allra að sí- og endurmenntun, óháð efnahag og búsetu. Til framtíðar þarf að styðja við og styrkja atvinnulíf sem byggir á heilbrigðum vinnumarkaði, réttlátum umskiptum, sjálfbærni, frumkvæði og nýsköpun.

 

Áherslur ASÍ

  • Menntakerfið[1] í heild sinni þarf að kortleggja með hliðsjón af skipulagi, námsframboði, fjármögnun, markhópum, lýðfræði og búsetu. Í kjölfar kortlagningar verði gerðar tillögur um framtíðarskipulag heildstæðs menntakerfis sem nær til bæði formlegrar og óformlegrar menntunar. Tryggja þarf aðgengi allra að námi óháð búsetu. Leggja þarf áherslu á að þekking og færni nýtist atvinnulífi og einstaklingum í framtíðinni og að nýsköpun og frumkvöðlahugsun verði helstu markmið menntakerfisins. 

  • Móta þarf hæfnistefnu fyrir Ísland og mikilvægt að þegar í stað verði skipaður starfshópur á vegum stjórnvalda sem verði falið það verkefni. Í hópnum eigi sæti aðilar vinnumarkaðar, menntakerfis og stjórnvalda. Markmið stefnunnar verði að tryggja að framboð af námi og fræðslu sé í samræmi við þarfir samfélagsins hverju sinni og hagsmuni vinnandi fólks. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, byggð á færnispám, um starfstækifæri í einstökum fögum og atvinnugreinum til nokkurra ára svo að hægt verði að móta heildræna stefnu í mennta-, vinnumarkaðs- og atvinnumálum.

  • Framboð símenntunar þarf að auka með þarfir einstaklinga, vinnumarkaðar og nútímasamfélags í huga. Tryggja þarf að einstaklingar hafi úrræði til að bæta færni sína og þróa nýja færni til að geta skipt um störf og starfsvettvang. Markmiðið er að allir á vinnumarkaði njóti góðs af þeim áhrifum sem tækni- og loftslagsbreytingar hafa á atvinnulífið og að sí- og endurmenntun styðji við þróun vinnumarkaðarins í átt að sjálfbæru hagkerfi. Færni og þekking þarf að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins, vinnumarkaðarins og lífsstíls auk þess að hlúa að menningarlegum margbreytileika og  kynjajafnrétti. 

  • Mikilvæg forsenda öflugs og skilvirks starfsnáms á framhaldsskólastigi er að samsetning og framboð sé í góðu samræmi við atvinnulífið á hverjum tíma og framtíðarhorfur. Leggja þarf aukna áherslu á starfsmenntun á öllum skólastigum, samhliða því að stuðla að gagnrýnni hugsun og nýsköpun. Tryggt verði nægilegt framboð á starfsnámi á framhaldsskólastigi og fjármagn aukið verulega til Vinnustaðanámssjóðs til að tryggja betri nýtingu sjóðsins og stöðu þeirra sem eru á námssamningum. Stjórnvöld þurfa að koma til móts við þá sem búa fjarri menntastofnunum og hafa takmarkað aðgengi að námi í sinni heimabyggð.

  • Komið verði á fagháskólastigi með formlegum hætti sem m.a. auðveldi aðgang starfsmenntaðra að háskólum. Markmið með þróun fagháskólanáms er að koma til móts við síbreytilegar og vaxandi þarfir atvinnulífsins fyrir fjölbreyttari menntun. Tryggja þarf að þeir sem innritast í verk- og iðnnám eigi möguleika á að klára námið í samfellu og að ekki myndist blindgötur.

  • Raunfærnimat verði aukið á öllum skólastigum og aðgengi einstaklinga að námi og þjálfun í framhaldi af raunfærnimati verði tryggt. Raunfærnimat er eitt öflugasta tækið sem þróað hefur verið til að meta færni fólks á vinnumarkaði og jafnframt hvetja til frekara náms.

Horfa skal sérstaklega til þarfa innflytjenda og annarra viðkvæmra hópa. Viðurkenna þarf þá þekkingu og menntun sem innflytjendur hafa og þau verðmæti sem þar liggja. Tryggja verður jöfn tækifæri fyrir alla og draga úr ójöfnuði og starfsháttum sem ala á mismunun. Gæta verður þess að full vinna og mannsæmandi störf verði í boði fyrir alla og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf.

[1] Hér er átt við allt menntakerfið, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og fullorðinsfræðslukerfið.