Opinn nefndarfundur um umhverfismál

Bárubúð ASÍ

OPINN NEFNDARFUNDUR 14. JANÚAR KL. 10:00-11:30 – BÁRUBÚÐ/ASÍ

Efnahags-, skatta- og atvinnumálanefnd og Umhverfis-og neytendanefnd ASÍ boða til opins nefndarfundar, þriðjudaginn 14. janúar n.k. kl. 10:00-11:30 í Bárubúð/ASÍ
– Fundinum verður streymt í gegnum fjarfundakerfið.
Á fundinum munu þau Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ og Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði við sama skóla fjalla um græna skatta og önnur hagræn stjórntæki sem notuð eru til að stýra nettólosun gróðurhúsalofttegunda og hvaða samfélagslegra áhrifa þau gætu haft. Eftir erindin gefst kostur á umræðum.

Umræðan um losun gróðurhúsalofttegunda og áhrif þeirra á hlýnun jarðar af mannavöldum hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu. Áhrifa gætir á atvinnuþróun, byggðaþróun og aðra innviði samfélagsins og munu að óbreyttu hafa afgerandi áhrif á afkomu launafólks, lífsgæði og tekjuskiptingu í heiminum á komandi árum.

Loftlagsvandinn er bæði bráðavandi og langtímaverkefni sem snerta mun grundvallarhlutverk verkalýðshreyfingarinnar við að verja réttindi og kjör launafólks og tryggja réttláta skiptingu gæðanna. Því er nauðsynlegt að forysta hreyfingarinnar hugi að leiðum til að tryggja að umskiptin verði gerð á forsendum launafólks með sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.