Úrræði vegna uppsagna og brottreksturs

Verði trúnaðarmaður fyrir því að vera rekinn úr starfi eða sagt upp starfi og brottreksturinn eða uppsögnin reynist síðan ólögmæt á hann einungis samkvæmt íslenskum réttarreglum rétt á greiðslum bóta, ásamt því að hægt er að krefjast þess að atvinnurekandi sé dæmdur til greiðslu sektar.

Krafa um að vera tekinn aftur í vinnu

Félagsdómur hefur mótað þá afdráttarlausu reglu að þótt trúnaðarmanni hafi verið sagt upp á ólögmætan hátt, þá eigi hann ekki rétt á því að vera endurráðinn. Sjá hér til dæmis dóm Félagsdóms 1/1965 (V:193). Þar var uppsögn trúnaðarmanns dæmd ólögmæt þar sem áminning hafði ekki verið gefin, og þess krafist að maðurinn fengi starf sitt aftur. Dómurinn sagði að eigi yrði talið að lög, meginreglur laga eða samningar skylduðu stefnda gegn vilja sínum til þess að taka manninn aftur í þjónustu sína, og var fyrirtækið því sýknað af þeirri kröfu stefnanda.

Sektir og skaðabætur

Þrátt fyrir heimild til að setja fram skaðabótakröfu í Félagsdómi samkvæmt 70. gr. laganna, hefur það einungis einu sinni verið gert í máli vegna trúnaðarmanns, í Félagsdómi 4/1966 (VI:38). Í samráði við dóminn var sakarefni skipt samkvæmt heimild í einkamálalögunum þannig að frestað var málflutningi um skaðabótakröfuna.

Þar sem trúnaðarmönnum hefur verið sagt upp með löglegum uppsagnarfresti, uppsagnarfrestur þeirra er sá sami og annarra starfsmanna, og skaðabætur við uppsögn taka mið aflaunum á uppsagnarfresti, hefur verið erfitt að sýna fram á fjárhagslegt tjón trúnaðarmanns, sem sagt hefur verið ólöglega upp. Trúnaðarmaðurinn hefur unnið út sinn uppsagnarfrest og notið launa þann tíma. Fjárhagslegt tjón hans hefur því ekki legið fyrir. Ljóst má vera að uppsögn trúnaðarmanns kann að valda manninum verulegs miska, sérstaklega þegar atvinnuleysi er í greininni. Málið liti öðru vísi út ef trúnaðarmaður sætti brottrekstri sem síðan yrði dæmdur ólögmætur. Sjá einnig 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Var efnið hjálplegt?