Verkefnaskortur

Nokkuð algengt er að trúnaðarmenn séu í hópi þeirra sem sagt er upp vegna verkefnaskorts. Trúnaðarmanni á ekki að segja upp störfum við fækkun starfsmanna, nema vinnuveitandinn sýni fram á ríkar ástæður til þeirrar ráðabreytni. Sé öllum starfsmönnum sagt upp tímabundið, á trúnaðarmaður að ganga fyrir um endurráðningu, þegar starfsemi hefst að nýju.

Í Félagsdómi 3/2016 var fjallað um uppsögn öryggistrúnaðarmanns. Ekki var ágreiningur um að hann nyti verndar. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandi hefði sýnt fram á að málefnaleg rök ( samdráttur, ráðning til sérstakra starfa, starfsaldur ) hefðu legið til þess að segja starfsmanninum upp. Minnihluti Félagsdóms taldi að fullnægjandi sönnur hefðu ekki verið færðar fram auk þess sem miða ætti að miða við fyrirtækið allt en ekki einungis eina deild þess. 

Í Félagsdómi 1/2003 voru málsatvik þau að trúnaðarmanni var ásamt öðrum starfsmönnum í sömu deild sagt upp störfum  vegna skipulagsbreytinga. Komu þessar uppsagnir til framkvæmda árið 2002. Tekið var fram að starfsmönnum myndi verða gefinn kostur á endurráðningu, að teknu tilliti til breyttra starfslýsinga og vinnufyrirkomulags og fækkunar stöðugilda. Umræddum trúnaðarmanni var hins vegar tilkynnt bréflega að ekki kæmi til endurráðningar og að ráðningarsambandinu myndi ljúka að loknum uppsagnarfresti. Staða hans var auglýst til umsóknar og sótti hann um stöðuna samkvæmt auglýsingunni ásamt tveimur öðrum umsækjendum. Af hálfu atvinnurekanda var því haldið fram að uppsögn trúnaðarmannsins og ákvörðun um að endurráða hann ekki hafi m.a. verið byggð á tilgreindum ávirðingum í starfi, auk greindra skipulagsbreytinga. Í málinu kom fram að trúnaðarmanni hafi áður verið sagt upp störfum í október 2000 vegna ávirðinga í starfi. Þeirri uppsögn hafi strax verið mótmælt af hálfu stéttarfélagsins, m.a. á þeim grundvelli að ekki hefði verið staðið rétt að henni með tilliti til andmælaréttar samkvæmt stjórnsýslulögum. Var og áréttað að umræddur starfsmaður væri trúnaðarmaður félagsins. Kom uppsögn þessi ekki til framkvæmda. Í niðurstöðu Félagsdóms segir að ef ástæða uppsagnar trúnaðarmanns árið 2002 og synjun um endurráðningu hafi verið skipulagsbreytingar en að auki hafi verið byggt á tilteknum ávirðingum, hafi atvinnurekandi borið vegna stöðu viðkomandi starfsmanns sem trúnaðarmanns, með réttindum og skyldum samkvæmt I. kafla laga nr. 80/1938, að tjá honum skýlaust að hann teldi starfshætti hans og framkomu með þeim hætti að varðað gæti uppsögn úr starfi, sbr. og lögmæltan andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það gerði atvinnurekandinn ekki og tiltók raunar ekki í bréfum til hans neinar ávirðingar sem uppsagnarástæðu. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af fordæmum Félagsdóms var uppsögnin og synjunin um endurráðningu metin sem brot á meginreglu 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938.

Í Félagsdómi 6/1993 (X:74) voru málsatvik þau að starfsmaður var skipaður trúnaðarmaður örfáum dögum áður en honum var sagt upp störfum vegna samdráttar í fyrirtæki. Meðal annars var deilt um það hvort hann hefði við uppsögn verið búinn að öðlast réttarstöðu trúnaðarmanns og hvert innihald verndar fyrir uppsögn væri. Í dómsniðurstöðu var á því byggt að nýskipaður trúnaðarmaður taki við starfi sínu þegar fyrirrennari hans hættir. Ennfremur var ítrekuð sú regla sem sett var fram í Félagsdómi 5/1993 (X:65) að trúnaðarmanni megi ekki segja upp störfum við fækkun starfsmanna nema vinnuveitandinn sýni fram á ríkar ástæður til þeirrar ráðabreytni.

Í Félagsdómi 5/1993 (X:65) voru málavextir þeir að trúnaðarmaður var meðal nokkurra starfsmanna sem fyrirtæki sagði upp þegar fækka þurfti starfsmönnum vegna verkefnaskorts. Í niðurstöðu dómsins sagði að uppsögnin hafi ekki átt rót sína að rekja til þess að trúnaðarmaðurinn væri látinn gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður, samanber 1. málslið 11. gr. laga nr. 80/1938. Á hinn bóginn njóti trúnaðarmaður þess réttar samanber 2. málslið sömu lagagreinar að hann skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni þegar atvinnurekandi þarf að fækka við sig starfsmönnum. Í þessu ákvæði felist sú meginregla að trúnaðarmanni á ekki að segja upp störfum við fækkun starfsmanna, nema vinnuveitandinn sýni fram á ríkar ástæður til þeirrar ráðabreytni. Í þeim efnum dugi ekki almennar staðhæfingar eins og stefndi beiti í þessu máli.

Í Félagsdómi 5/1955 (IV:113) voru málavextir þeir að atvinnurekandi sagði upp öllu starfsfólki sínu vegna fyrirsjáanlegs verkefnaskorts, einnig trúnaðarmanninum. Allir starfsmennirnir voru síðan látnir halda áfram störfum að undanskildum fimm verkamönnum, þar á meðal trúnaðarmanni. Trúnaðarmaðurinn fann þó hvorki að þessu við atvinnurekanda né bar sig upp við stéttarfélagið heldur réð sig strax til vinnu annars staðar. Stéttarfélagið höfðaði mál og krafðist þess að atvinnurekandi yrði dæmdur til refsingar fyrir brot á 11. gr. Félagsdómur sagði að maðurinn hefði átt rétt á því að vera endurráðinn samkvæmt reglu 2. málsliðar 11. gr. laga. 80/1938 en þar sem hann hafði hvorki borið fram kröfu um það við atvinnurekanda né heldur stjórn stéttarfélags síns yrði atvinnurekandi ekki dæmdur til refsingar fyrir brot á 11. gr. þótt hann byði manninum ekki vinnu á ný.

Var efnið hjálplegt?