Evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum (EWC)

Lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum nr. 61/1999 frá árinu 1999 sem lögfest voru hér á landi með vísan til tilskipunar Evrópusambandsins ná til fyrirtækja sem hafa a.m.k. 1000 starfsmenn samtals í ríkjum á EES-svæðinu, með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og með a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra.

Ef þessi skilyrði eru uppfyllt geta fulltrúar starfsmanna eða stéttarfélög fyrir þeirra hönd, í því landi sem telja má að aðalstjórn fyrirtækjasamsteypunnar er staðsett, óskað eftir því að hafnar verði viðræður um stofnun slíks samstarfsráðs. Evrópsk samstarfsráð eru skipuð fulltrúum aðalstjórnar annars vegar og fulltrúum starfsmanna hins vegar frá öllum (eða a.m.k. velflestum) fyrirtækjum samsteypunnar innan Evrópu.

Evrópsk samstarfsráð eru vettvangur fyrir fulltrúa starfsmanna til að hafa áhrif á það hvernig aðalstjórn beitir valdi sínu og áhrifum gagnvart einstökum fyrirtækjum innan samsteypunnar og starfsmönnum þeirra. Af hálfu evrópskrar verkalýðshreyfingar hafa evrópsk samstarfsráð verið skilgreind sem aðferð fyrir launafólk og þeirra samtök til að vinna með fjölþjóðlegum hætti líkt og alþjóðafyrirtækin gera sjálf. 

Um rétt og skyldu til stofnunar Evrópskra samstarfsráða í fyrirtækjum skv. lögum nr. 61/1999

Eftirfarandi byggir á sameiginlegri vinnu ASÍ og SA í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2007

Hvaða rétt á starfsfólk hjá alþjóðlegum fyrirtækjum til upplýsinga og samráðs um hag og horfur atvinnurekanda?

Starfsfólk í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum sem hefur a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og er með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum hefur a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra, hefur rétt á því að atvinnurekandi skapi skilyrði fyrir stofnun svokallaðs Evrópsks samstarfsráðs sem er ætlað að miðla upplýsingum til starfsmanna og eiga samráð um málefni fyrirtækisins.

Hvað er Evrópskt samstarfsráð í ofangreindum skilningi?

Evrópskt samstarfsráð er skipað fulltrúum starfsfólks annars vegar og fyrirtækis hins vegar. Samstarfsráðinu er ætlað að vera vettvangur fyrir fulltrúa starfsfólks til að fá upplýsingar og eiga samráð um málefni fyrirtækis sem starfar í fleiri en einu landi innan EES svæðisins. Samstarfsráð á rétt á fundi með atvinnurekanda a.m.k. einu sinni á ári og skal fyrir fundinn leggja fram skýrslu um rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar ef því er að skipta. Að öðru leyti skal samstarfsráðið eiga rétt á upplýsingum um eftirfarandi málefni fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu:

 • Uppbyggingu
 • Efnahags- og fjárhagslega stöðu
 • Líklega þróun hvað varðar rekstur
 • Framleiðslu og sölu
 • Ástand og horfur í atvinnumálum
 • Fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi
 • Tilkomu nýrra starfs- eða framleiðsluaðferða
 • Flutning framleiðslu
 • Samruna fyrirtækja
 • Annað sem verulegu máli skiptir um hag atvinnurekanda

Auk þess skal samstarfsráðið eiga rétt á því að fá upplýsingar um skyndilegar sérstakar aðstæður sem upp koma um framangreint.

Almenn trúnaðarskylda skal ríkja á milli fulltrúa í samstarfsráði og atvinnurekanda og er heimilt að leggja þagnarskyldu á meðlimi samstarfsráðs sem skulu á móti njóta sömu verndar í starfi og trúnaðarmenn stéttarfélaga skv. lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Hvernig skal standa að stofnun Evrópsks samstarfsráðs?

Samkvæmt lögum um Evrópsk samstarfsráð ber atvinnurekandi ábyrgð á því að nauðsynleg skilyrði fyrir stofnun samstarfsráðs séu fyrir hendi og skal í því ljósi eiga frumkvæði að því að samningaumleitanir um stofnun samstarfsráðs eða vinna við setningu reglna um upplýsingamiðlun hefjist. Í beinu framhaldi skal svo atvinnurekandi skipa sérstakt samningaráð sem skal vinna að framangreindu markmiði um að koma á formfestu í upplýsingamiðlun og samráðsmálum og greiðir atvinnurekandi kostnað við störf samningaráðsins.

Hvernig virkar þetta í framkvæmd?

Þegar Evrópskt samstarfsráð hefur verið stofnað eru tvær leiðir sem hægt er að fara í að marka upplýsingamiðluninni og samráðinu formlegt ferli.

 1. Upplýsingamiðlunin og samráðið fer fram samkvæmt efni samnings sem hið sérstaka samningaráð gerir. Samningur þessi skal skilgreina hlutverk, skyldur og réttindi allra viðkomandi aðila. Jafnframt skal hann kveða á um hvaða upplýsingar skal veita og hvernig þær eru veittar.
 2. Upplýsingamiðlunin og samráðið fer fram samkvæmt þeim reglum sem settar eru fram í IV. kafla laganna um Evrópsk samstarfsráð. Einungis skal notast við þennan kafla ef 1) hið sérstaka samningaráð og atvinnurekandi koma sér saman um það; 2) atvinnurekandi sinnir ekki beiðni um að samstarfsráð skuli stofnað; 3) ekki næst samkomulag um inntak samnings um verklag upplýsingamiðlunar og samráðs.

Fellur fyrirtækið sem ég starfa hjá undir gildissvið laganna um Evrópsk samstarfsráð?

Gildissvið laganna takmarkast við fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem hafa yfir 1.000 starfsmenn og a.m.k. 150 starfsmenn í tveimur EES löndum. Sértu í vafa um þinn atvinnurekanda skaltu leita til þíns stéttarfélags sem getur hlutast til að útvega nauðsynlegar upplýsingar.

 

Var efnið hjálplegt?