Almenn lög um upplýsingar og samráð

Samkvæmt lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum er atvinnurekendum uppálagt að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um þætti er varða nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækis þeirra, stöðu og horfur í atvinnumálum og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað. Hið sama gildir um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þ.m.t. ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir. Skulu þessar upplýsingar veittar á þeim tíma, á þann hátt og þess efnis sem heppilegast er svo að fulltrúar starfsmanna geti hafið viðeigandi athugun og undirbúið samráð ef þess gerist þörf.

Fulltrúum starfsmanna skal síðan gefast kostur á samráði með því að eiga fund með atvinnurekanda og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Jafnframt skal atvinnurekandi gera fulltrúum starfsmanna grein fyrir ástæðum viðbragða sinna.

Lögin gera ráð fyrir því að með kjarasamningum eða samningum milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna megi kveða nánar á um tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs innan fyrirtækja. 

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða takmarkaðist gildissvið laganna fram til 1. mars 2008 við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn. Eftir þann tíma miðast gildissvið laganna við fyrirtæki með að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn.

Upplýsingar og samráð í fyrirtækjum skv. lögum nr. 151/2006

Eftirfarandi byggir á sameiginlegri vinnu ASÍ og SA í kjölfar bókunar með kjarasamningum 2007

Hvaða rétt á starfsfólk til upplýsinga og samráðs um hag og horfur atvinnurekanda?

Samkvæmt lögum nr. 151/2006 um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, á starfsfólk í fyrirtækjum á Íslandi sem telja 50 starfsmenn eða fleiri, rétt á upplýsingum frá sínum atvinnurekanda um eftirfarandi:

  • Nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins
  • Stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað.
  • Ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, t.d. vegna hugsanlegum aðilaskiptum og/eða hópuppsagna.

Hvernig fer upplýsingagjöfin og samráðið fram?

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gert með sér samkomulag um hvernig fyrirkomulagi, forsvari og öðrum þáttum upplýsingagjafarinnar og samráðsins skuli háttað. Samkvæmt framangreindu skal upplýsingagjöfin og samráðið innan þeirra fyrirtækja sem falla undir gildissvið nefndra laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, fara fram í svokallaðri samstarfsnefnd fyrirtækis og starfsmanna.

Hvað er samstarfsnefnd í ofangreindum skilningi?

Samstarfsnefnd er skipuð tveimur fulltrúum frá atvinnurekanda og tveimur fulltrúum starfsfólks sem skulu valdir til tveggja ára úr hópi trúnaðarmanna og/eða kosnir úr hópi starfsfólks. Hlutverk hennar er eins og áður segir að taka við og miðla upplýsingum og vera vettvangur samráðs um ofangreind atriði.

Hvernig virkar þetta í framkvæmd?

Þegar starfsfólk hefur valið sér fulltrúa í samstarfsnefnd skal atvinnurekanda kynnt hverjir fulltrúarnir eru. Atvinnurekandi ber svo ábyrgð á því í gegnum sína fulltrúa í samstarfsnefndinni að hún sé kölluð saman þegar við á. Samstarfsnefndin skal þó kölluð saman að lágmarki tvisvar sinnum á ári.

Hvað ef upp kemur vandamál eða ágreiningur?

Samráðsnefnd skipuð fulltrúum ASÍ og SA er starfrækt og er henni ætlað að fjalla um framkvæmd og útfærslu framangreinds. Komi upp ágreiningur skal leita til nefndarinnar. Nánari upplýsingar um nefndina og meðlimi hennar fást á skrifstofum ASÍ og SA.


Var efnið hjálplegt?