Hlutverk trúnaðarmanna

Hlutverk trúnaðarmanns samkvæmt 9. gr. laga nr. 80/1938 er að gæta þess að gerðir samningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Með þessu er átt við öll réttindi samkvæmt lögum eða reglum sem varða persónuleg réttindi manna, en það eru þau réttindi sem eru svo nátengd andlegu eða líkamlegu lífi manna að þau verða ekki frá því greind. Einnig má atvinnurekandi að sjálfsögðu ekki hrófla við neins konar fjárréttindum starfsmanna. Fjárréttindi er réttur yfir eða til fémæta, það er gæða, sem hafa fjárgildi og er þannig háttað í eðli sínu að þau geta greinst frá eiganda þeirra og gengið manna á milli.

Ýmis réttindi opinbers réttarlegs eðlis eru einnig friðhelg svo sem kosningaréttur og kjörgengi og væri atvinnurekanda allskostar óheimilt að meina starfsmönnum að neyta kosningaréttar eða beita þá þrýstingi í þeim efnum.

Fjallað er um verkefni trúnaðarmanna í kjarasamningum og um tiltekin verkefni í lögum ( sjá m.a. undirkafla um Upplýsingar og samráð ) en einnig byggist hlutverk hans á þeim venjum sem skapast hafa um störf hans. Trúnaðarmönnum ber að vinna að bættum kjörum vinnufélaga sinna, jafnframt því sem þeir eru talsmenn atvinnuöryggis, félagslegs öryggis, skynsamlegra stjórnarhátta á vinnustöðum og eru samráðsaðilar vegna breytinga á vinnustöðum.

Verkamenn skulu snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar og trúnaðarmanni ber að sinna þeim þegar í stað. Honum er, í samráði við verkstjóra, heimilt að verja eftir því sem þörf krefur tíma til trúnaðarmannsstarfa og skulu laun ekki skerðast af þeim sökum. Trúnaðarmanni er heimilt í tengslum við ágreiningsefni að yfirfara gögn og vinnuskýrslur varðandi ágreiningsefnið og ber honum að fara með þau gögn sem trúnaðarmál. Hann skal á vinnustað hafa aðgang að læstri hirslu og síma í samráði við verkstjóra.

Þar sem trúnaðarmanni er einnig skylt að gæta þess að gerðir vinnusamningar séu haldnir og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt starfsmanna er eðlilegt að hann hafi fullt samráð og samvinnu við stéttarfélagið um ágreiningsefni sem upp koma til að leita leiða um lausn þeirra. Góð samskipti trúnaðarmanns og vinnufélaga eru grundvöllur árangursríks starfs. Nauðsynlegt er að trúnaðarmaður fræði nýliða á vinnustað um helstu reglur og venjur og um verkalýðsfélagið. 

Á tveimur stöðum í almennum kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ eru trúnaðarmönnum falin sérstaklega skilgreind hlutverk. Annars vegar undir fyrirtækjaþætti kjarasamninga en þar segir að trúnaðarmaður eða eftir atvikum trúnaðarmenn skuli vera í forsvari fyrir starfsmenn í viðræðum við atvinnurekanda um þær sérútfærslur gildandi kjarasamninga sem heimilt er að semja um úti á vinnustöðunum undir fyrirtækjaþætti kjarasamninga.  Hins vegar er um að ræða samkomulag ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði sem hefur frá árinu 2004 verið hluti af öllum almennum kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ. Þar er sérstaklega ítrekaður réttur trúnaðarmanna til aðgangs að gögnum um laun og önnur kjör útlendinga og er sá ferill til gagnaöflunar nauðsynlegur undanfari þess að samráðsnefnd ASÍ og SA fjalli um meint brot. Í samkomulaginu er svo sérstaklega tekið fram að á þeim vinnustöðum þar sem ekki fyrirfinnist trúnaðarmaður, yfirfærist upplýsingarétturinn til fulltrúa viðkomandi stéttarfélags.

Að jafnaði er einnig fjallað um hlutverk trúnaðarmanna í lögum stéttarfélaga og þeim falin ákveðin hlutverk innan stjórnskipunar þeirra. Ekki er óalgengt að þau myndi ásamt stjórn félaganna sérstök trúnaðar- eða trúnaðarmannaráð sem milli aðalfunda geta farið með æðsta vald innan félaganna. Slík ráð eru einnig stjórn félagsins til ráðgjafar og algengt að þau myndi samninganefndir félaganna. 

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?