Trúnaðarmenn stéttarfélaga

Ákvæði um trúnaðarmenn í kjarasamningum komu fyrst inn í samningum verktaka Sogsvirkjunar og Vinnuveitendafélagsins 1935, en fyrir þann tíma höfðu sum íslensku verkalýðsfélaganna átt sína eigin trúnaðarmenn á stærri vinnustöðum. Þeir voru nánast umboðsmenn félagsstjórnanna gagnvart félagsmönnum, oft stjórnarmenn eða hinir virkustu í félagsstarfinu.  Verkalýðshreyfingin í nágrannalöndunum var langt á undan íslensku verkalýðsfélögunum að þessu leyti.

Tildrög þess að samningur komst á um trúnaðarmenn við Sogsvirkjun 1936 voru þau að danskt verktakafyrirtæki hafði yfirstjórn á framkvæmdum við Sog og gerði samning við verkamenn, sem þar unnu. Áður en sá samningur komst á hafði fyrirtækið átt í deilum við verkamenn sem höfðu leitt til verkfalls. Því lauk síðan með fyrrgreindu samkomulagi. Ekki er ólíklegt, að þetta ákvæði sé komið inn í samninginn að mestu leyti fyrir tilstilli Dananna. Að minnsta kosti var það ekki hluti af kröfugerð verkamannanna. Áhugi íslensku stéttarfélaganna á hinu nýja fyrirkomulagi var þó ekki meiri en svo að trúnaðarmaður var ekki valinn fyrr en tæpu ári eftir að kjarasamningurinn var gerður.

Árið 1937 gerði Dagsbrún kjarasamning við Vinnuveitendafélag Íslands  þar sem kveðið var á um það að stjórn Dagsbrúnar hafi verið heimilt að velja sér trúnaðarmann úr hópi verkamanna á hverjum vinnustað.

Með lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 voru síðan lögfest ákvæði um trúnaðarmenn, sem enn eru í fullu gildi.

Á þeim áratugum sem liðnir eru frá setningu laganna hefur skilningur aukist mjög á því hvers virði traust og vel skipulagt trúnaðarmannakerfi er fyrir verkalýðshreyfinguna og launafólk allt. Í heildarkjarasamningum aðila vinnumarkaðarins 1977 var gert sérstakt samkomulag um trúnaðarmanninn, stöðu hans og starf, og er það samkomulag til fyllingar lagaákvæðunum frá 1938. Einnig eru ákvæði um trúnaðarmenn í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, svo og ákvæði um öryggistrúnaðarmenn í lögunum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?