Vinna annars staðar í verkfalli

Þann tíma sem maður er í verkfalli leggur hann niður störf til að leggja áherslu á kröfur stéttarfélags í verkfalli. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 80/1938 er þeim sem lögleg vinnustöðvun beinist gegn óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa. Þeim starfsmanni sem er í verkfalli er því óheimilt að vinna sín störf, svo og störf annarra sem eiga í verkfalli. Þetta þýðir væntanlega að maður í verkfalli getur ekki á meðan á því stendur unnið störf sem kjarasamningur hans nær til.

En hvað með önnur störf? Getur kennari, sem er í verkfalli, unnið í fiski á meðan á kennaraverkfalli stendur? Getur verkamaður sem er í verkfalli unnið í verslun á meðan á verkfalli stendur?

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) segir í 47. gr. að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum.

Framkvæmdastjórnin getur ákveðið að sama skuli gilda um verkbann eða verkfall erlendis. Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.

Hömlur á því að menn fari að vinna annars staðar er fyrst og fremst að finna í samþykkum SA. Leiti menn hins vegar út fyrir samtökin um vinnu verður að telja svo framarlega sem menn eru ekki að ganga inn í störf verkfallsmanna, sé ekkert sem komi í veg fyrir að þeir sem eru í verkfalli vinni annars staðar að því tilskyldu að unnið sé skv. öðrum kjarasamningi en þeim sem vinnudeila stendur um. Þetta þarf þó að skoða í hvert skipti og reglur einstakra félaga til dæmis um greiðslur úr verkfallssjóðum kunna að geyma einhver ákvæði í þessa veru.

Var efnið hjálplegt?