Viðræðuslit og atkvæðagreiðslur

Það er skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara sbr. 3. mgr. 15.gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr.80/1938. Með öðrum orðum, þá er ekki lögmætt að efna til atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar fyrr en sýnt þykir að samningar náist ekki. Í Félagsdómi 14/2001 var um túlkun þessa ákvæðis fjallað og þar segir:

„Það sé því formbundið sem skilyrði lögmætrar ákvörðunar vinnustöðvunar að kröfur hafi komið skýrt fram og að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar. Þá sé þess krafist að deiluaðili, sem leita vilji ákvörðunar um vinnustöðvun, hafi reynt til þrautar að ná samningi og í því skyni leitað milligöngu sáttasemjara. Sé við það miðað að sáttasemjara hafi gefist tækifæri til að kalla deiluaðila saman og freistað þess að ná sáttum áður en leitað sé eftir því við félagsmenn að boða til vinnustöðvunar. Vert sé að árétta að mat á því hvenær sáttatilraunir séu fullreyndar hljóti að vera hjá samninganefnd þess sem leitar eftir ákvörðun um vinnustöðvun.“

Mat á því hvort samningaviðræður eða viðræðutilraunir hafi reynst árangurslausar liggur hjá þeim sem slítur viðræðum og leitar eftir heimild til vinnustöðvunar sbr. m.a. ummæli í Félagsdómi 14/2001 sem vísað er til hér að framan.

Ekki gilda sérstakar eða formlegar reglur um hvernig árangursleysi viðræðna er staðfest og viðræðum slitið. Algengast er að það sé gert með bókun á samningafundi hjá sáttasemjara eða sérstakri yfirlýsingu sem komið er til hans og gagnaðila. Þessi ákvæði 15. gr. laga 80/1938 ber að túlka þröngt sbr. ummæli í fyrrgreindum Félagsdómi 14/2001 þar sem segir: 

"Samkvæmt framansögðu og með vísan til athugasemda með 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. gr. laga nr. 75/1996, sem að áliti dómsins ber að skýra þröngt í samræmi við markmið löggjafans með setningu ákvæðisins,..."

Félagsdómur hefur jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að taka beri upp viðræður að nýju eftir að félagsmenn hafna kjarasamningi sem undirritaður hefur verið í kjölfar þeirra viðræðna sem enduðu með undirritun hans. Fyrr verði viðræður verði ekki taldar árangurslausar í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga 80/1938. Um þetta var fjallað í Félagsdómi 5/1997 (XI:57). Þar var verkfall dæmt ólögmætt þar sem svo stóð á, að verkfallsboðun hafði verið samþykkt meðal félagsmanna skömmu áður en kjarasamningar voru undirritaðir af samninganefnd. Þeir sömu samningar voru hins vegar felldir í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna og taldist hin fyrri verkfallsheimild þar með niðurfallin.

Ákvörðun um vinnustöðvun    

 Í 1. mgr. 15. gr. l. nr. 80/1938 segir að þegar stéttarfélög eða félag atvinnurekenda ætlar að hefja vinnustöðvun, þá sé hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin:  

a. við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða eða 

b. með því að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku.

Ákvörðun um vinnustöðvun er í fyrsta lagi löglega tekin ef hún er tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu, enda hafi félagsstjórnin auglýst nægilega, hvar og hvenær atkvæðagreiðslan um vinnustöðvunina skuli fara fram. Engar skýringar er frekar að finna í lögunum sjálfum hvernig framkvæma skuli slíka atkvæðagreiðslu.

Í öðru lagi þarf hún að vera um það hvort eigi að boða vinnustöðvun eða ekki, til hverra henni er einkum ætlað að taka og einnig um það hvenær hún skuli hefjast, hversu lengi hún skuli standa og hvernig hún skuli framkvæmd. Sé ekki tekið fram hversu lengi verkfall skuli standa telst það boðað ótímabundið.

Félagsmönnum stéttarfélags er því samkvæmt ákvæðum 15. gr. óheimilt að framselja vald til verkfallsboðunar. Þessa niðurstöðu má lesa út úr Félagsdómi 4/1988 (IX:218), sem fjallaði um túlkun á 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en það ákvæði er sambærilegt a-lið 15. gr. laga nr. 80/1938. Í Félagsdóminum var verkfallsboðun dæmd ólögmæt þar sem hún var ekki tekin af félagsmönnum heldur veittu þeir umboð til verkfallsboðunar.

Skilyrði 15. gr. laga nr. 80/1938 eru tæmandi talin. Vinnustöðvun sem þessir aðilar ákveða með öðrum hætti er því ólögmæt. Félagsdómur hefur oft dæmt vinnustöðvun ólögmæta hafi ákvæði 15. gr. laga nr. 80/1938 ekki verið uppfyllt. Sjá Félagsdóma 15/1943 (II:19), 5/1943 (II:56), 9/1944 (II:66), 6/1943 (II:81), 7/1943 (II:88), 7/1944 (II:110), 1/1950 (III:90), 2/1950(III:95), 12/1949 (III:122) og 7/1994 (X:209).

Almenn leynileg atkvæðagreiðsla

Með almennri leynilegri atkvæðagreiðslu er átt við að hún skuli ná til allra félagsmanna. Það verður varla gert án þess að atkvæðagreiðslan sé skrifleg eða framkvæmd á rafrænan hátt þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Mikilvægt er að kjörfundur þar sem greidd skulu atkvæði sé nægilega auglýstur.

Til þess að almenn leynileg atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun sé lögmæt þarf fimmtungur (1/5, 20%) atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og jafnframt þarf tillagan hafi notið stuðnings meirihluta greiddra atkvæða.

Í athugasemdum Vinnulöggjafarnefndar með lögunum frá 1938 segir hvað varðar ákvörðun um vinnustöðvun, að ef almenn atkvæðagreiðsla í félagi fari fram um það hvort hefja skuli vinnustöðvun, skuli sú atkvæðagreiðsla vera skrifleg og leynileg og eigi standa skemur en 24 klukkustundir. Þannig eigi að tryggja að þátttaka verði almenn og eigi geti ráðið augnabliksákvörðun lítils hluta félagsmanna. Þetta skilyrði um að atkvæðagreiðsla skuli standa yfir eigi skemur en í 24 klukkustundir er ekki lengur tiltekið í 15. gr. eins og því ákvæði var breytt með lögum nr. 75/1996. Það er ábyrgð hlutaðeigandi stéttarfélags hve lengi atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar stendur yfir. Telja verður þó að atkvæðagreiðsla megi ekki standa í svo skamman tíma að þeim sem vinnustöðvun á að taka til gefist ekki tækifæri til þess að tjá vilja sinn.

Almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla

Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna (eða allra félagsmanna sem taka laun skv. tilteknum kjarasamningi ) um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku sbr. 1.mgr. 15.gr. laga nr. 80/1938. Þessi undantekning nær jöfnum höndum til ákvörðunar um vinnustöðvun sem tekur til allra félagsmanna og til ákvörðunar allra um að vinnustöðvun taki einungis til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilteknum vinnustað sbr. Féld. 2/2019

Taki verkfall hins vegar einungis til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilteknum vinnustað og ef stéttarfélag ákveður skv. heimild í  2. mgr. 15.gr. laga 80/1938 að þeir einir hafi atkvæðisrétt sem verkfallið tekur til, þarf ætíð fimmtungsþáttöku, óháð því hvernig atkvæðagreiðsla er framkvæmd.

Í athugasemdum með lögunum segir að með póstatkvæðagreiðslu sé átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim. Kjörgögn skulu vera atkvæðaseðill og ómerkt umslag ásamt umslagi sem unnt er að póstleggja ófrímerkt og sem áritað er með nafni og póstfangi viðtakanda. Lögmætur atkvæðaseðill skal fyrir fram áritaður skýrlega með "já" -reit og "nei" -reit við tillögu um samþykkt meðfylgjandi verkfallsboðunar þannig að unnt sé að auðkenna annan reitinn. Atkvæðaseðill skal síðan settur í ómerkta umslagið og það inn í hið áritaða sem auðvelt er að póstleggja. Með því eigi að vera tryggð leynileg atkvæðagreiðsla.

Almenn leynileg rafræn atkvæðagreiðsla

Lögin nr. 80/1938 fjalla ekki um almennar leynilegar rafrænar atkvæðagreiðslur. Af þeim ástæðum gengu ASÍ og SA frá sérstakri bókun hjá ríkissáttasemjara þar um þann 6.4 2017. Skv. henni er heimilt að viðhafa almenna leynilega rafræna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar sem hefur sömu réttarahrif og almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla eins og henni er í lýst í lögum 80/1938 og greinargerð með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim lögum 1996.

Reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur

Samkvæmt lögum ASÍ setur miðstjórn sambandsins "Reglugerð um leynilega allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ". Í henni er m.a. fjallað leynilega afgreiðslu tillagna um boðun vinnustöðvana og afgreiðslu kjarasamninga hvort heldur allsherjaratkvæðagreiðsla er framkvæmd á kjörfundi með kröfu um fimmtungs þátttöku eða póstatkvæðagreiðslu eða rafrænni atkvæðagreiðslu þar sem ekki er gerð krafa um lágmarksþátttöku.

Vinnustöðvun tekur til tiltekins hóps félagsmanna

Ef vinnustöðvun er einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað þá er heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun sbr. 2. mgr. 15. gr. laga 80/1938.

Var efnið hjálplegt?