Verkfallsstjórn

 

Stéttarfélög ákveða sjálf hvernig þau haga verkfallsstjórn. Þetta á sér stoð í 1. mgr. 3. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 en þar segir að stéttarfélög ráði sjálf málefnum sínum. Almennt er ekki að finna ákvæði í félagslögum um hvernig stjórn verkfalls skuli háttað. Kann það að byggjast á því að stjórn stéttarfélags fer almennt með framkvæmd mála, og telji hún mál vandasöm, svo sem hvernig skuli meðhöndla einstaka þætti varðandi framkvæmd verkfalls getur hún kallað til trúnaðarmannaráð.

Stjórn og trúnaðarmannaráð

Trúnaðarmannaráð getur hvenær sem er tekið ákvörðun um að boða til félagsfundar og bera mikilvæg mál undir hann á meðan vinnustöðvun stendur yfir. Í slíkum deilum er einnig nauðsynlegt að hinn almenni félagsmaður finni hinn félagslega styrk, fái stuðning frá félögum sínum og fái tækifæri til að tjá sig um einstök mál.

 

Sérstaklega skipuð verkfallsstjórn

Félag getur falið sérstakri nefnd eða hópi manna verkfallsstjórn. Stundum er skipuð sérstök kjaranefnd eða samninganefnd, sem getur þá hugsanlega einnig annast framkvæmd verkfalls, komi til þess. Slík verkfallsstjórn getur þó aldrei tekið ákvörðun svo gilt sé til að hefja verkfall, þar sem 15. gr. laga nr. 80/1938 veitir ekki heimild til framsals á því valdi. Umboð sérstakrar verkfallsstjórnar myndi því einungis ná til framkvæmdaatriða við verkfallið sjálft, svo sem skipulags verkfallsvörslu, veitingar á undanþágum og þess háttar atriða.

Tilvist sérstakrar verkfallsstjórnar getur bæði byggst á félagslögum og einnig á ákvörðun félagsfundar eða trúnaðarmannaráðsfundar. Félag getur tekið ákvörðun um það í eitt skipti að fela sérstakri verkfallsstjórn framkvæmd verkfalls, en í næsta skipti falið trúnaðarmannaráði þetta hlutverk.

Var efnið hjálplegt?