Réttarstaða manna í verkfalli

Laun og vinnuskylda


Meginskyldur ráðningarsamningsins falla niður á meðan verkfall varir en ráðningarsamband helst. Launagreiðslur falla niður og skyldur starfsmanns til að inna af hendi vinnu sömuleiðis. Starfsmaður fær ekki heldur veikindalaun, þótt hann hafi verið veikur, áður en til verkfalls kom. Skiptir ekki máli hvort veikindin stafa af sjúkdómi eða vinnuslysi. Hafi hann verið í orlofi, fellur orlofstaka hans niður þann tíma sem verkfall varir.

Þegar verkfalli lýkur rakna skyldurnar við og mönnum er skylt að koma þá strax til vinnu og atvinnurekanda er skylt að taka við starfsmönnum sínum í vinnu. Verkfall er félagsleg aðgerð, sem snertir stéttarfélagið fyrst og fremst, en raskar ekki ráðningarsambandi einstakra launamanna og atvinnurekenda þeirra.

Þessi regla er þó ekki undantekningarlaus, því í einstaka kjarasamningum finnast ákvæði þess efnis að fólki sé frjálst að hætta störfum í verkfalli og þurfi ekki að virða uppsagnarfrest. Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 19/1979 sem tryggja launafólki m.a. lágmarksrétt hvað varðar uppsagnir er eðlilegt að túlka þetta ákvæði þannig að launamanni sé frjálst í framhaldi af verkfalli að yfirgefa starf sitt, en atvinnurekandi verði að virða ákvæði laganna um uppsagnarfrest, hyggist hann segja starfsmanni upp í framhaldi af verkfalli.

 

Ávinnsla réttinda

Almennt hefur verið litið svo á að verkföll hafi ekki áhrif á ávinnslu réttinda. Sá tími sem fólk er í verkfalli teljist til vinnutíma þegar rétturinn er reiknaður út. Er þessi skilningur að hluta til staðfestur í lögum.

 

Uppsagnarréttur
Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla nr. 19/1979 fjalla eins og nafnið bendir til annars vegar um uppsagnarrétt og hins vegar um veikindarétt. Í 4. mgr. 1. gr. laganna, en greinin fjallar að öðru leyti um uppsagnarfrest, segir að verkafólk teljist hafa unnið innan atvinnugreinar eða verið ráðið hjá atvinnurekanda í eitt ár, ef það hefur unnið samtals að minnsta kosti 1550 stundir á síðustu 12 mánuðum, þar af að minnsta kosti 130 stundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögn. Jafngildar unnum klukkustundum teljast í þessu sambandi fjarvistir vegna veikinda, slysa, orlofs, verkfalla og verkbanna, allt að 8 klukkustundum fyrir hvern fjarvistardag. Samkvæmt þessu hafa verkföll ekki áhrif á ávinnslu réttinda til uppsagnarfrests. Verkföll teljast með öðrum orðum til vinnutíma þegar lengd uppsagnarfrests er metin.

Veikindaréttur 
Um veikindarétt gildir að því er telja verður sama reglan, þannig að verkföll hafa ekki áhrif á ávinnslu veikindaréttar. Verkföll teljast til vinnutíma þegar lengd veikindaréttar er metin. Í lögin frá 1979 vantar þó beina tilvísun úr veikindaréttarákvæðunum yfir í uppsagnargreinina, þannig að ekki er augljóst að hún eigi hér við. Í eldri lögum um veikindarétt nr. 16/1958, sem voru undanfari laga nr. 19/1979 var skýrt kveðið á um að þessi regla gilti einnig um útreikning veikindaréttar, samanber Hrd. 1975:145.

Orlofsréttur 
Í orlofslögum er ekki fjallað um það sérstaklega hvaða áhrif verkfall hefur á orlofsrétt. Í þriðju grein laganna er einungis fjallað um veikindi, slys og orlof, og tekið fram að fjarvistir þess vegna hafi almennt ekki áhrif á orlofsréttinn. Líta verður svo á að verkföll hafi ekki áhrif á rétt starfsmanna til orlofstöku. Hins vegar hafi verkfall áhrif á greiðslu orlofslauna. Starfsmaður, sem verið hefur í tveggja mánaða verkfalli á orlofsárinu eigi þannig rétt til 24 daga orlofs, en hann fái einungis greidd orlofslaun fyrir 20 daga. Byggist það sjónarmið að verkföll skerði ekki lengd orlofs á þeirri meginreglu að launafólk skuli alltaf eiga lágmarksrétt til orlofs samkvæmt orlofslögum. Skipti þá ekki máli þótt fólk hafi tekið þátt í verkfallsaðgerðum á vegum verkalýðsfélagsins á orlofsárinu. Greiðsla launa í orlofi er síðan í raun ákveðið hlutfall af launum innunnum á orlofsárinu. Sé hluti ársins launalaus skerðist orlofsgreiðslan sem því nemur.

Í lok sjö vikna verkfalls opinberra starfsmanna 1989 var sérstaklega samið um það að verkfallið skyldi ekki skerða greiðslur verkfallsmanna í orlofi. Það að um þetta var samið bendir til að skilningur aðila hafi verið sá að orlofsgreiðslur myndu að öðrum kosti falla niður.

Um orlof og verkföll sjá nánar hér.

Starfsaldursákvæði

Þegar starfsaldur er metinn er almennt miðað við það hvenær starfsmaður hóf störf. Ekki hefur verið úr því skorið hvaða áhrif verkföll hafi á starfsaldursákvæði, en almennt má telja að áhrif verkfalla séu þar engin. Verkföll vara yfirleitt í stuttan tíma, daga, vikur og í mesta lagi mánuði, en starfsaldursákvæði miðast við lengri tímabil, yfirleitt talin í árum.

Var efnið hjálplegt?