Ákvörðun um verkbann

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er stéttarfélagi eða félagi atvinnurekenda því aðeins heimilt að boða vinnustöðvun að ákvörðun um hana hafi verið tekin með þeim hætti sem þar er tilgreindur. Felur greinin í sér tæmandi upptalningu þeirra leiða sem nota má við boðun vinnustöðvunar.

Hver hefur ákvörðunarvaldið?

Ákvörðunarvald um verkbannsboðun liggur eftir því sem við á hjá viðkomandi félagi atvinnurekenda eða hjá einstökum atvinnurekanda. Eðli máls samkvæmt er engar reglur að finna um það með hvaða hætti einstakur atvinnurekandi tekur ákvörðun um verkbann. Sé verkbann boðað af atvinnurekendafélagi verður að gæta ákvæða 15. gr. laga nr. 80/1938 um ákvörðunartökuna.

Hvaða áhrif hefur þátttaka í atvinnurekendafélagi?

Sé atvinnurekandi þátttakandi í félagi atvinnurekenda er hann háður þeim reglum sem þar gilda um verkfallsboðun. Spyrja má hvort hann geti eftir sem áður á eigin spýtur boðað verkbann á grundvelli ákvæða laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Ekki verður séð að þau lög komi í veg fyrir slíka boðun, en skuldbindingar sem atvinnurekendur taka á sig við að ganga í félag atvinnurekenda myndu væntanlega í flestum tilvikum þrengja heimildir hans til þess.

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins segir í 45. gr. að um ákvörðun verkbanns fari samkvæmt 15. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Segir í 45. gr. að SA séu félag atvinnurekenda í skilningi laganna, enda eigi aðildarfyrirtækin beina aðild að samtökunum. Stjórn SA getur ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslu um verkbann meðal félagsmanna. Í tillögu stjórnar skal koma fram hversu víðtækt verkbannið skuli vera og hvenær því er ætlað að koma til framkvæmda. Heimilt er stjórn að einskorða atkvæðagreiðslu við þau fyrirtæki sem verkbanni er ætlað að taka til. Við atkvæðagreiðslu um verkbann ræður fjöldi atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá, sbr. 19. gr. samþykkta SA.

Stjórn SA getur heimilað aðildarfélögum samtakanna og atvinnurekendum innan þeirra að leggja á verkbann. Atkvæðaréttur fer skv. gildandi atkvæðaskrá samtakanna en stjórnin getur heimilað að atkvæðagreiðsla fari fram skv. félagslögum viðkomandi aðildarfélags, eða án atkvæðagreiðslu, ef einstök aðildarfyrirtæki eiga í hlut.

Framkvæmdastjórn SA ákveður hvort viðhafa skuli póstatkvæðagreiðslu eða greiða skuli atkvæði á kjörfundi og setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu. Þá er framkvæmdastjórn SA, eða þeim sem hún tilnefnir, heimilt að aflýsa eða fresta boðuðu eða yfirstandandi verkbanni.

Í 46. gr. samþykkta SA segir að framkvæmdastjórn SA geti veitt undanþágu frá þátttöku í verkbanni, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ef ekki fæst samþykki framkvæmdastjórnar til undanþágu má bera málið undir stjórn SA sem getur, ef 2/3 fundarmanna á stjórnarfundi eru því samþykkir, veitt hina umbeðnu undanþágu.

Umdeilt er hvort reglur þessar séu undantekningarlausar. Í dómi Félagsdóms 2/1998 (XI:224) var verkbannsboðun Landssambands íslenskra útvegsmanna dæmd ólögmæt.  Samkvæmt þágildandi samþykktum VSÍ þurftu félagsmenn sérstakt samþykki framkvæmdastjórnar VSÍ til þess að mega boða til verkbanns. Voru ákvæði samþykkta VSÍ (nú SA) ekki talin samrýmast 14. og 15.gr. laga 80/1938.  Umdeilt er hvort túlka beri niðurstöðuna með víðtækari hætti og þá þannig að þar sem einstök útgerðarmannafélög innan LÍU hafi ekki sjálf tekið ákvörðun um að efna til atkvæðagreiðslu um verkbannsboðun, heldur VSÍ (nú SA) og LÍU sameiginlega hafi boðunin verið ólögmæt.

Tilkynning um verkbann

Ákvæði 16. gr. laganna um stéttarfélög lúta að tilkynningu um vinnustöðvun. Ákvæðið tekur bæði til verkfallsboðunar og boðunar verkbanns. Tilgangur þessa ákvæðis er meðal annars að fyrirbyggja skaðlegar afleiðingar vinnustöðvunar með því að gefa aðilum ráðrúm til að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna vinnustöðvunar sem fyrirsjáanleg er.

Misfarist verkbannsboðun þarf að boða verkbannið að nýju með réttu lagi.

Hvenær telst tilkynning hafa borist viðtakanda?

Tilkynningu um vinnustöðvun, sem hefja á í þeim tilgangi að knýja fram breytingu á ákvörðun um kaup og kjör ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem hún beinist aðallega gegn sjö sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.

Tilkynning um vinnustöðvun er ákvöð, sem bindur viðtakanda, þegar hún er komin til hans. Viðtakandi þarf ekki að hafa kynnt sér innihald tilkynningarinnar og nægilegt er að tilkynningin sé afhent á heimili viðtakanda eða starfsstöð með sjö sólarhringa fyrirvara. Ef viðtakandi er félag, sem hefur opna skrifstofu á ákveðnum tímum dags verður að gera þann fyrirvara að tilkynningin berist félaginu á venjulegum skrifstofutíma, þannig að raunverulegt tækifæri gefist til að kynna sér efni tilkynningarinnar og gera nauðsynlegar ráðstafanir í framhaldi af því. 

Form

Þótt ekki sé krafist sérstaks forms á verkbannsboðun samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur þarf boðandi þess að geta sýnt fram á að boðunin hafi verið gerð nægjanlega tímanlega og tilkynnt réttum aðilum. Þess vegna er tilkynning um verkbann alltaf höfð skrifleg.

Fyrirvari

Lögin kveða á um sjö sólarhringa fyrirvara á verkbannsboðun. Það þurfa því að líða sjö sólarhringar frá því að verkbannsboðun er afhent þeim sem hún beinist gegn og sáttasemjara og þar til verkbann á að hefjast.

Í dómi Félagsdóms 9/1994 var sú regla sett um túlkun á 16. greininni að þegar upphafsdagur verkfalls er tilgreindur í verkfallsboðun án þess að getið sé um klukkustund eða önnur nánari tímamörk, verði að líta svo á að verkfallið eigi að hefjast þegar viðkomandi almanaksdagur gengur í garð án tillits til þess hvenær daglegur vinnutími á að hefjast hjá þeim starfsmönnum sem í hlut eiga. Þessi regla á væntanlega jafnt við um boðun verkbanns.

Hverjum á að tilkynna verkbann?

Verkbann á að tilkynna sáttasemjara og þeim sem það beinist aðallega gegn. Sé vinnustöðvun ekki tilkynnt sáttasemjara með 7 sólarhringa fyrirvara telst boðunin ólögmæt samanber Félagsdóm 4/1962 (V:61). Verkbann beinist fyrst og fremst gegn starfsmönnum þess aðila sem því beitir. Þar sem stéttarfélag er lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna virðist nóg að tilkynna verkbann því stéttarfélagi sem verkbannið beinist gegn. Rétt er að hafa í huga að boða vinnustöðvun þeim aðilum sem bundnir voru að þeim kjarasamningi sem deilt er um, og betra er að tilkynna verkbann fleiri aðilum en færri, þar sem tilkynning um vinnustöðvun er ávallt túlkuð þröngt.

Ákvörðun um vinnustöðvun bindur ekki aðeins þá, sem eru meðlimir félags eða sambands þegar ákvörðun er tekin, heldur einnig þá sem gerast félagsmenn síðar, eða fram til þess að vinnustöðvun hefst. Af þessu leiðir að ekki þarf að taka sérstaka ákvörðun um vinnustöðvun vegna þessara nýju félaga né tilkynna hana í samræmi við 16. gr. laga nr. 80/1938. Í  Félagsdómi6/1969 (VI:163) reyndi á þetta ágreiningsefni. VSÍ hafði fyrirskipað verkbann að beiðni Meistarafélags járniðnaðarmanna gagnvart félagsmönnum í Félagi járniðnaðarmanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Eftir að verkbann hafði verið boðað, gekk Stálvík hf. í Meistarafélagið. Félag járniðnaðarmanna mótmælti því að verkbannið gilti gagnvart starfsmönnum Stálvíkur hf., þar sem fyrirtækið hefði hvorki verið meðlimur í Meistarafélaginu né VSÍ þegar ákvörðun um verkbann var samþykkt og tilkynnt. Niðurstaða Félagsdóms varð sú að verkbannið næði einnig til Stálvíkur hf.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?