Stutt sögulegt ágrip

Upphaf verkalýðshreyfingar má rekja til iðnbyltingarinnar.  Hin nýja stétt verkafólks sem til varð á 19. öld varð að afla sér lífsnauðsynja með því að selja vinnuafl sitt á markaði þar sem hún var háð duttlungum framboðs og eftirspurnar.  Kjör verkafólks voru mjög slæm og vinnutíminn óheyrilega langur. Til þess að ná betri aðstöðu gagnvart kaupendum vinnuaflsins tóku verkamenn að stofna stéttarfélög, en í flestum löndum urðu verkamenn að heyja langvinna baráttu fyrir félagafrelsi.  Árið 1825 tókst bresku verkalýðshreyfingunni að fá afnumið bann við myndun verkalýðsfélaga.  Verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum hóf baráttu sína af alvöru upp úr 1870 og á síðustu tveimur áratugum 19. aldar var mikill fjöldi verkalýðsfélaga og landssambanda stofnaður á Norðurlöndum.  Samhliða þessari þróun voru stofnaðir verkamanna- og jafnaðarmannaflokkar, sem voru nátengdir verkalýðshreyfingunni.

Hér á landi var farið að stofna félög til hagsbóta almennings á seinni hluta 19. aldar.  Kaupfélag Þingeyinga var stofnað 1882 og fyrsta góðtemplarafélagið var stofnað á Akureyri árið 1884.  Bæði samvinnuhreyfingin og góðtemplarar áttu mikinn þátt í að efla félagshyggju með þjóðinni og veita mönnum reynslu í félagsstörfum. Prentarar stofnuðu síðan fyrsta stéttarfélagið á Íslandi 1887.  Félagið var ekki langlíft og hætti starfsemi þegar virkustu félagar þess fluttu til Vesturheims og Danmerkur þremur árum síðar.  Árið 1894 var Sjómannafélagið Báran stofnað.  Tildrög að stofnun þess voru þau að nýstofnað Útgerðarmannafélag hafði einhliða samþykkt ráðningarskilyrði háseta.  Hið nýja sjómannafélag krafðist þess að kaup yrði greitt í peningum, en áður hafði þeim verið greitt með vöruúttekt hjá kaupmönnum, sem í mörgum tilfellum voru vinnuveitendur þeirra.  Með samkomulaginu sem náðist viðurkenndi félag útgerðarmanna í raun Sjómannafélagið Báruna sem samningsaðila.

Fyrsta verkamannafélagið var stofnað árið 1896 á Seyðisfirði.  Markmið þess var að stytta hinn óhóflega langa vinnutíma og hækka vinnulaun.  Hærri kaupkröfur voru gerðar á hendur þeim atvinnurekendum sem ekki höfðu gengið til samninga um kauptaxta félagsins heldur en hinum sem það höfðu gert.  Félagið varð skammlíft.  Prentarar stofnuðu að nýju stéttarfélag 1897, Hið íslenska prentarafélag. Verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað árið 1906 og Verkakvennafélagið Framsókn 1914.  Á þessum árum tók atvinnulíf þjóðarinnar miklum breytingum.  Fyrsti botnvörpungurinn sem Íslendingar létu smíða, Jón forseti, kom til landsins í ársbyrjun 1907, bílar komu til landsins og dagblöð hófu útgáfu á fyrstu árum aldarinnar.               

Alþýðusamband Íslands var stofnað 12. mars 1916.  Nefnd til undirbúnings stofnunar heildarsamtaka verkamanna hafði verið starfandi frá haustinu áður.  Félögin, sem stofnuðu ASÍ voru Verkamannafélagið Dagsbrún, Hásetafélag Reykjavíkur, Hið íslenska prentarafélag, Verkakvennafélagið Framsókn, Bókbandssveinafélag Íslands, Verkamannafélagið Hlíð og Hásetafélag Hafnarfjarðar. Tilgangur sambandsins var að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna, sem reist er á grundvelli jafnaðarstefnu og miði að því að efla og bæta hag alþýðu. Alþýðuflokkurinn var stofnaður samhliða Alþýðusambandinu sem pólitískur armur þess og störfuðu þessi tvenn samtök í nánu samstarfi næstu tuttugu árin.

Með fjölgun verkalýðsfélaga innan ASÍ og auknum styrk þeirra fjölgaði þeim sem ekki töldu Alþýðuflokkinn vera sinn flokk og að Alþýðusambandið ætti einungis að vera faglegt samband stéttarfélaga, óháð öllum stjórnmálaflokkum.  Urðu þessi sjónarmið ofan á og á þingi ASÍ 1940 voru samþykkt ný lög fyrir sambandið þar sem kveðið var á um að ASÍ væri samband íslenskra stéttarfélaga án allra skipulagstengsla við stjórnmálaflokka.         

Mikil breyting varð á atvinnuháttum hér á landi í og eftir fyrri heimsstyrjöld.  Atvinnurekendur mynduðu  félög með svipuðum hætti og stéttarfélögin og gerð kjarasamninga tók á sig mynd.  Vinnuveitendafélag Íslands, sem nú heitir Vinnuveitendasamband Íslands, var stofnað 1934, en þá voru þegar starfandi ýmis félög atvinnurekenda einstakra atvinnugreina.  

Setning laganna um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1938 markaði tímamót á íslenskum vinnumarkaði.  Þá voru lögfestar þær reglur sem gilda  í samskiptum aðila, reglur um stofnun og aðild að stéttarfélögum, reglur um gerð kjarasamninga, trúnaðarmenn á vinnustöðum, sáttasemjara og sérstakan vinnumarkaðsdómstól, Félagsdóm.  Lögin eru enn í fullu gildi lítið breytt, ef frá er talinn kaflinn um sáttasemjara.  Lögin mynda þann grunn sem síðan hefur verið byggt á í samskiptum aðila og sem í raun er undirstaða skipulags verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi.               

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur ná ekki til allra launamanna í landinu.  Um opinbera starfsmenn og bankamenn gilda sérlög, lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, sem meðal annars kveða á um það hvernig félagsaðild opinberra starfsmanna sé háttað, svo og lög um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins nr. 34/1977. 

Var efnið hjálplegt?