Aðrir trúnaðarmenn og ábyrgðaraðilar

Auk stjórnarmanna og trúnaðarmannaráðs eru ýmsir aðrir sem teljast til trúnaðarmanna í stéttarfélagi eins og t.d. félagslegir trúnaðarmenn og skoðunarmenn reikninga.

Í 8. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög beri ábyrgð á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sínum fyrir félagið.  Á samningsrofum einstakra meðlima sinna beri félagið því aðeins ábyrgð að því verði gefin sök á samningsrofinu. Hugtakið trúnaðarmenn verður að skilja þannig að hér sé átt við alla þá sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, þar með þá sem kosnir hafa verið í stjórn og trúnaðarmannaráð, trúnaðarmenn á vinnustöðum og alla þá sem koma fram fyrir hönd félagsins út á við svo sem helstu starfsmenn.

Trúnaðarmenn á vinnustöðum sem skipaðir eru á grundvelli 9.-12. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur eða sambærilegra ákvæða annarra laga hafa ýmsum skyldum að gegna, ekki einungis gagnvart samstarfsmönnum sínum heldur einnig gagnvart stéttarfélaginu. Það sama á við um þá sem kosnir eru skoðunarmenn reikninga félags og geta þeir borið ábyrgð sem slíkir.  Vakni spurningar um hlutverk þeirra og ábyrgð verður að meta hvert og eitt tilvik fyrir sig. 

Var efnið hjálplegt?