Gerð kjarasamninga sé eitt af verkefnum félagsins

Ein þeirra krafna sem lögin um stéttarfélög og vinnudeilur gera til stéttarfélags til þess að um stéttarfélag í skilningi laganna geti verið að ræða er, að félagið þurfi í félagslögum sínum að hafa ákveðið að láta starfsemi sína taka til þess að gera kjarasamninga við atvinnurekendur um kaup og kjör félagsmanna sinna. Þetta kemur fram í 5. gr. laga nr. 80/1938.

Í Félagsdómi 6/1984 (IX:45) var deilt um það hvort Stéttarfélag sjúkraþjálfara gæti talist stéttarfélag í merkingu laganna, en félagið var stofnað af sjúkraþjálfurum sem unnu hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra til að ná fram kjarabótum. Félagsdómur taldi félagið ekki uppfylla skilyrði laganna og vísaði í forsendum sínum til þess að í 2. gr. laga nr. 80/1938 segði að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu, eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Við hinn munnlega málflutning hafi því verið lýst yfir af hálfu félagsins að stofnun þess hefði ekki verið auglýst opinberlega og sjúkraþjálfurum utan starfsstöðvar stefnanda sem rétt áttu á félagsaðild hefði ekki heldur verið gefinn kostur á með öðrum hætti að taka þátt í stofnun félagsins og mótun laga þess. Þegar þetta sé virt svo og það að lög Stéttarfélags sjúkraþjálfara þyki ekki hafa að geyma nægjanlega fastmótaðar reglur um innra skipulag félagsins, verði að fallast á það að Stéttarfélag sjúkraþjálfara hafi ekki eins og að málum hafi verið staðið verið löglega stofnað sem stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938 og geti því ekki verið lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna.

Stundum hafa komið upp deilur um það hvort félag geti talist stéttarfélag í merkingu laganna af fleiri orsökum en að framan greinir. Í Félagsdómi 2/1954 (IV:77) var deilt um það hvort Skipstjórafélag Íslands væri stéttarfélag í merkingu laga nr. 80/1938. VSÍ hélt því fram að Skipstjórafélagið væri ekki stéttarfélag í skilningi laganna þar sem inntökuskilyrði væri bundið við vissa menntun eða réttindi en ekki raunverulegt starf. Félagið gæti því bæði verið félag atvinnurekenda og manna sem væru í þjónustu annarra en slík aðstaða skyti loku fyrir að félagið yrði dæmt stéttarfélag. Félagsdómur féllst ekki á þetta sjónarmið og vísaði til þess að félagið væri í Farmanna- og fiskimannasambandinu, tilgangur þess væri meðal annars að efla hag stéttarinnar eftir mætti og hefði það markmið meðal annars komið fram í því að það hefði samið við útgerðarfélög um kaup og kjör félagsmanna sinna. Loks lægi fyrir að félagsmenn væru allir eða hefðu verið á meðan þeir gengu til starfa, launþegar í þjónustu annars aðila, vinnuveitanda. Þótt ýmsir þeirra væru taldir hátt launaðir miðað við launþega almennt og gegndu vandasömum trúnaðarstörfum fyrir vinnuveitendur sína, fengi það ekki breytt því að þeir væru launtakar í skilningi 1. gr. laga nr. 80/1938. Samkvæmt því komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ótvírætt yrði að telja að Skipstjórafélagið væri stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938.

Var efnið hjálplegt?