Skilgreining og skipulag

Í 74. og 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er fjallað um stéttarfélög og starfsemi þeirra. Í 1. mgr. 74. gr. segir að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Í 2. mgr. er réttur manna til þess að standa utan félaga síðan tryggður en þar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi en þó megi með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. 2. mgr. 75. gr. mælir síðan fyrir um að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Um verkalýðsfélög, hlutverk þeirra, starfsemi og stöðu er síðan fjallað í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. 

Í 1. gr. laga nr. 80/1938  um stéttarfélög og vinnudeilur segir: „Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt“. Hvað nákvæmlega felst í þessu ákvæði er ekki útskýrt en í greinargerð með lögunum segir, að um sé að ræða rétt til þess að „… gæta hagsmuna þeirra manna, sem hafa lífsviðurværi sitt af því að selja vinnu sína gegn ákveðnu kaupgjaldi.“

Af lögunum í heild er augljóst að þeir hagsmunir sem rætt er um í 1. gr. eru fólgnir í réttinum til þess að semja sameiginlega um kaup og kjör og beita í því ferli þeim þvingunarúrræðum, sem lögin geyma. Þessir hagsmunir eru þó ekki þeir einu sem lögin vernda. Af 1. mgr. 5. gr. laganna sést að kjarasamningsrétturinn er einungis eitt þeirra hlutverka sem verkalýðsfélögum er ætlað að sinna en þar segir: „Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna“.

Löng hefð er fyrir því að verkalýðsfélögin sinni margþættu félagslegu hlutverki öðru en því að semja um kaupið eitt eins og endurspeglast 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 sem áður er vitnað til. T.d. hafa verkalýðsfélögin frá upphafi talið lífeyrismál, húsnæðismál, almannatryggingamál, orlofsheimilamál, öryggis- og vinnuverndarmál, menningarmál, menntamál og sjúkratryggingar falla undir verksvið sitt. Þetta kemur m.a. fram í greinargerð með lögunum þar sem öryggi á vinnustöðum, hámarksvinnutími o.fl. er flokkað með réttindum verkafólks.

Til þess að sinna þessum hlutverkum er verkalýðsfélögum m.a. talið heimilt að safna sjóðum og ráðstafa þeim en í frumbernsku verkalýðshreyfingarinnar við lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar var sá réttur víða umdeildur. Hér á Íslandi hefur réttur til sjóðssöfnunar og ráðstöfunar þeirra til félagslegra málefna ekki verið umdeildur og ber starfsemi verkalýðshreyfingarinnar þess skýr merki. Nægir þar að vísa  til þjónustu verkalýðsfélaganna við einstaka félagsmenn hvað varðar ráðningarsamninga þeirra og einstaklingsbundin réttindi á vinnustað og til reksturs sjúkra- og orlofsheimilasjóða. Þetta birtist þó ekki síst í rekstri öflugra söfnunarlífeyrissjóða, sem jöfnum höndum greiða ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri og mynda órjúfanlegan hluta af félagslegu öryggiskerfi verkafólks og samfélagsins í heild.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?