Réttur til að standa utan stéttarfélags

Skv. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár, má engan skylda til aðildar að félagi þó kveða megi á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.


Samkvæmt íslenskum lögum er launafólk ekki skyldað til að vera í stéttarfélagi. Hvergi í lögum eru ákvæði um aðildarskyldu að stéttarfélagi og í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er beinlínis gert ráð fyrir að launamenn geti staðið utan stéttarfélaga. Kemur þetta meðal annars fram í 2. mgr. 3. gr. laganna, þar sem fjallað er um úrsögn úr stéttarfélagi og í 45. gr. þar sem segir að ófélagsbundnir aðiljar reki mál sín sjálfir fyrir Félagsdómi. Óski menn þess að standa utan stéttarfélags hafa þeir því almennt rétt til þess hér á landi. Samkvæmt lögum ASÍ má ekkert aðildarfélag sambandsins hafa ákvæði um félagsskyldu í samþykktum sínum. Hafi þau slík ákvæði í samþykktum sínum víkja þau fyrir ákvæðum laga ASÍ og hafa ekkert gildi. 

Ákvæði um greiðsluskyldu til félaga án félagsaðildar er að finna í lögum um starfskjör launafólks nr. 55/1980 svo oglögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 en greiðsluskyldu fylgir ekki aðildarskylda.  Að sjálfsögðu hlýtur þó að felast í slíkri skyldu hvatning til aðildar að félaginu. Auk þess valda forgangsréttarákvæði kjarasamninga því að vegna beinna hagsmuna einstaklinga af því að vera félagsmenn í verkalýðsfélögum er há almenn þátttaka launafólks í þeim hér á landi.

Ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu 

Mannréttindasáttmáli Evrópu sem tók gildi 1953 hefur lagagildi hér á landi sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Íslenskir dómstólar hafa ekki talið sér skylt að fara eftir ákvæðum sáttmálans en í dómaframkvæmd má sjá að dómar Evrópudómstólsins eru hafðir til hliðsjónar dómaúrlausnum hér á landi. Félagsdómur hefur tvisvar árið 1994  í úrskurðum um að dómari víki sæti, byggt niðurstöður sínar á sáttmálanum, Félagsdómar 1/1994 (X:149) og 11/1994 (X:228).

Það ákvæði sem hér kemur til skoðunar hvað félagsaðildina varðar er 11. grein sáttmálans sem fjallar um rétt manna til að stofna og vera í félögum og rétt manna til að standa utan félaga. Þar segir svo:

"1. Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti."

Inntak annarrar málsgreinar hefur lengi þótt nokkuð óljóst þegar um aðild að stéttarfélögum hefur verið að ræða og rétt manna til að standa utan stéttarfélaga. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í nokkrum dómum sínum skýrt inntakið, en því hefur aldrei verið slegið föstu í úrlausnum þaðan né frá Mannréttindanefnd Evrópu hvort 2. mgr. 11. gr. sáttmálans feli í sér almenna vernd á rétti manna til að standa utan stéttarfélags í sérhverju tilliti og hefur reyndar verið gengið út frá því að vernd ákvæðisins á þessum rétti sé háð verulegum takmörkunum.  

Í málinu Young, James og Webster gegn Bretlandi, sem dæmt var árið 1981 var ekki tekin afstaða til þess hvort skylda til aðildar að stéttarfélagi væri almennt andstæð 11. gr. mannréttindasáttmálans, þótt dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þvingun þeirra þriggja sem höfðuðu málið til aðildar að stéttarfélagi bryti í bága við ákvæðið eins og á stóð.

Mál Sigurðar Sigurjónssonar var dæmt í júní 1993. Þar hafði leigubílstjóri verið þvingaður með lögum til aðildar að Frama, félagi leigubílstjóra. Hann sætti sig ekki við það og höfðaði mál fyrir dómstólum hér heima. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri andstætt 73. gr. stjórnarskrárinnar að þvinga mann með lögum til aðildar að stéttarfélagi. Ákvæðinu væri ætlað að tryggja félagsstofnunina sem slíka, en ekki rétt manna til að standa utan félaga. Sjá Hrd. 1988:1532. Mannréttindadómstóllinn hnekkti þessum dómi Hæstaréttar og taldi lögþvingunina ekki standast 2. mgr. 11. gr. þar sem bílstjórinn var þvingaður með lögum til að vera félagsmaður í Frama, félagi leigubílstjóra, svo hann mætti halda vinnu sinni, en hann var ósáttur við þá stefnu sem rekin var af félaginu hvað varðaði fjölda bílstjóra.

Í máli Sibson gegn breska ríkinu sem dæmt var í apríl 1993 voru málsatvik þau að Sibson hafði verið sagt upp störfum þar sem hann neitaði að gerast félagi í tilteknu stéttarfélagi sem allir starfsmenn fyrirtækisins tilheyrðu án þess að um skylduaðild væri að ræða. Sibson hafði gengið úr félaginu þar sem hann hafði gegnt trúnaðarstörfum eftir að hafa lent í útistöðum við félaga sína þar. Starfsmenn fyrirtækisins neituðu að vinna með honum og hótuðu verkfalli. Fyrirtækið gaf honum tvo kosti, annað hvort að ganga í stéttarfélagið eða hefja störf hjá sama fyrirtæki í nálægum bæ. Sibson hafnaði þessu og var þá sagt upp. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að 11. greinin hefði ekki verið brotin. Ástæður mannsins fyrir þessari synjun lúti meðal annars ekki að andstöðu hans gegn því að vera í verkalýðsfélagi og voru þess vegna ekki þess eðlis að hann nyti verndar 11. gr. mannréttindasáttmálans. Ekki hefði heldur verið skylduaðild að stéttarfélaginu og manninum var gefinn kostur á að starfa áfram hjá fyrirtækinu án félagsaðildar í nálægum bæ.

Sjá einnig málið Gustafsson sem dæmt var í apríl 1996. Í málinu var fjallað um stöðu atvinnurekanda sem ekki var aðili að samtökum atvinnurekanda.

Í  Sörensen og Rasmussen gegn Danmörku sæm dæmt var í janúar 2006 fjallaði dómstóllinn um ákvæði í dönskum kjarasamningum sem gerðu það að verkum að réttur starfsmanna til að ráða sig í vinnu hjá tilteknum tveimur fyrirtækjum var bundinn því skilyrði að þeir gerðust aðilar að því stéttarfélagi sem gert hafði kjarasamning við viðkomandi fyrirtæki. Kjarasamningarnir kváðu m.ö.o. á um aðildarskyldu starfsmanna fyrirtækisins að ákveðnum stéttarfélögum (útilokunarákvæði eða closed shop).   Þessu vildu hlutaðeigandi starfsmenn ekki una en áttu þ.a.l. ekki kost á atvinnu hjá viðkomandi fyrirtækjum. Höfðuðu þeir í kjölfarið mál á hendur þessum fyrirtækjum á þeim grundvelli að um ólögmætar uppsagnir hefðu verið ræða. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins var í stuttu máli sú að skilyrði um aðildarskyldu líkt og um var að ræða í framangreindu máli færu í bága við 11. gr. Mannréttindasáttmálans.  Bent skal á að þessi dómur hefur takmarkað gildi hér á landi hvað varðar túlkun svokallaðra forgangsréttarákvæða kjarasamninga. Þau ákvæði halda því alveg opnu að atvinnurekendur ráði utanfélagsmenn til starfa. Ákvæði um aðildarskyldu starfsmanna að stéttarfélögum líkt og um var fjallað í framangreindu máli eru ekki fyrir hendi í kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambandsins enda slíkt ekki heimilt sbr. 12. gr. laga ASÍ (2006). Þar segir í 2. mgr. "Í samþykktum aðildarfélaga mega ekki vera ákvæði um félagsskyldu né ákvæði sem takmarka aðild að félögum með tilliti til búsetu og lögheimilisfesti."  

Aðildarskylda ekki til staðar

Í samþykktum stéttarfélaga voru hér áður fyrr ákvæði um það að allir sem unnu tiltekin störf á félagssvæðinu skyldu vera félagsmenn í stéttarfélaginu og teldust fullgildir félagsmenn, án sérstakrar inntökubeiðni, eftir að hafa greitt til félagsins félagsgjöld í tiltekinn tíma. Þessi ákvæði voru síðan tekin upp í kjarasamningi aðila. Frá þessu fyrirkomulagi hefur verið horfið m.a. vegna túlkana Mannréttindadómstóls Evrópu á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Var efnið hjálplegt?