Miðlunartillaga

Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt skv. 27. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.

Þar sem framlagning miðlunartillögu er eins konar neyðarráðstöfun þegar allar aðrar leiðir hafa verið reyndar hefur sú hefð myndast í kjaradeilum á síðustu áratugum að ríkissáttasemjari leggur fram svokallaða innanhússtillögu.  Er það tillaga sem samninganefndirnar svara annað hvort játandi eða neitandi. Sé innanhússtillaga samþykkt er kjarasamningur undirritaður með venjulegum fyrirvara, og síðan borinn upp af stéttarfélagi og félagi eða samtökum atvinnurekenda. Innanhússtillaga er þó ekki lögð fram gegn mótmælum annars hvors aðila og áður en hún  er borin upp hefur ríkissáttasemjari kannað vel hug samningsaðila. Stundum hefur ríkissáttasemjari einnig lagt fram eins konar hugmynd að viðræðugrundvelli og þannig reynt að koma viðræðum aðila áfram. 

Formleg miðlunartillaga er ekki lögð fram nema aðilar telji að aðrar leiðir hafi verið reyndar til þrautar.

Á undanförnum árum hefur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu í nokkur skipti, til dæmis í deilu verslunarmanna árið 1988, deilu starfsfólks í veitingahúsum og deilu starfsfólks við virkjunarframkvæmdir á Suðurlandi fyrir nokkrum árum.  Vorið 1992 náðust heildarkjarasamningar aðila vinnumarkaðarins með tilstilli miðlunartillögu, og var það í fyrsta skipti sem miðlunartillöguformið er notað við svo víðtæka kjarasamninga. Hafði þá náðst samkomulag milli aðila um alla þætti kjarasamnings aðra en launalið og samningstíma. Miðlunartillagan náði þá til kjarasamningsins í heild, en það sem ríkissáttasemjari lagði til málsins var tillaga um launabreytingar og samningstíma.

Skilyrði til framlagningar miðlunartillögu

Skilyrði þess að sáttasemjara sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu, eina eða fleiri, eru eftirfarandi:

  • að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun,
  • að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist,
  • að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli,
  • að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar,
  • að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.

Sáttasemjari getur borið fram miðlunartillögu eins oft og honum þurfa þykir.

Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu

Miðlunartillaga skal borin undir atkvæði við atkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra aðila eins og sáttasemjari gekk frá henni og henni svarað játandi eða neitandi.

Ef tvö eða fleiri félög eða félagasambönd eiga saman í deilu getur sáttasemjari í samráði við samninganefndir borið fram eina miðlunartillögu er taki til fleiri en eins deiluaðila eða þeirra allra. Atkvæðagreiðsla og talning atkvæða fer þá fram í sameiningu hjá öllum þeim félögum eða samböndum sem miðlunartillagan nær til þannig að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun. 

Sáttasemjara er einnig heimilt að efna til sameiginlegrar atkvæðagreiðslu þótt hann beri fram fleiri en eina miðlunartillögu, enda sé það gert samtímis. Gilda þá framangreindar reglur eftir því sem við á.

Ef ágreiningur snertir aðeins ákveðna félagsdeild eða starfsgrein innan félags eða félagasambands eða tiltekið fyrirtæki getur sáttasemjari ákveðið að atkvæðagreiðsla taki eingöngu til deildarinnar eða starfsgreinarinnar eða fyrirtækisins.

Atkvæðagreiðsla samningsaðila á almennum vinnumarkaði og þeirra sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til um sameiginlega miðlunartillögu skal fara fram með aðgreindum hætti. Niðurstaða hjá hvorum hópnum fyrir sig, óháð niðurstöðu hins, ræður úrslitum um samþykkt eða synjun.

Kynning miðlunartillögu

Aðilar skulu eftir því sem við verður komið sjá um að atkvæðisbærir félagsmenn geti kynnt sér miðlunartillögu í heild. Sáttasemjara er heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að draga fram meginatriði úr miðlunartillögu til þess að auðvelda félagsmönnum þeirra að kynna sér efni hennar og taka málefnalega afstöðu til tillögunnar og áhrifa hennar á hag þeirra og afkomu. Öðrum aðila vinnudeilu er heimilt að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína í samráði við sáttasemjara. Eigi má birta miðlunartillögu öðrum en þeim sem hlut eiga að máli án samþykkis sáttasemjara fyrr en greidd hafa verið atkvæði um hana.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu

Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skal fara fram á kjörfundi sem standi í fyrir fram ákveðinn tíma. Ríkissáttasemjari getur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu ákveðið að atkvæðagreiðsla fari jafnframt fram utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Í stað atkvæðagreiðslu innan og utan kjörfundar er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma.

Ríkissáttasemjari getur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu gefið nánari fyrirmæli um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, svo sem hvenær og hvernig hún skuli fara fram.

Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg og leynileg.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu hefur jafnan verið í höndum félaganna sjálfra, þar á meðal gerð kjörskrár, og hefur það verið gert til einföldunar málsins og til að hraða afgreiðslu.

Jafnskjótt og atkvæðagreiðslu er lokið skulu atkvæði og kjörgögn afhent sáttasemjara. Talning atkvæða fer fram undir stjórn sáttasemjara og er hverjum aðila heimilt að hafa umboðsmann viðstaddan talninguna.

Miðlunartillaga felld

Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá. Þetta gildir jafnt um atkvæðagreiðslu á kjörfundi og póstatkvæðagreiðslu.

Var efnið hjálplegt?