Hlutverk

Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 eru talin upp megin verkefni ríkissáttasemjara. Honum ber að fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land. Honum ber að fylgjast með þróun kjaramála og atriðum sem valdið gætu ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga.

Ríkissáttasemjari heldur skrá yfir gildandi kjarasamninga og er samtökum launafólks og atvinnurekenda, svo og ófélagsbundnum atvinnurekendum, skylt að senda honum samrit allra kjarasamninga sem þeir gera jafnskjótt og þeir hafa verið undirritaðir. Breytingar á áður gildandi kjarasamningum skulu sendar með sama hætti. Sömu aðilar skulu einnig senda sáttasemjara samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða sem út eru gefin á grundvelli gildandi kjarasamninga.

Samningsaðilar skulu enn fremur senda ríkissáttasemjara samrit af uppsögn kjarasamninga, svo og kröfugerð, jafnskjótt og hún er send gagnaðila.

Réttur til afskipta

Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laganna er ríkissáttasemjara ávallt heimilt að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt. Hann getur því allt frá því að honum er kunnugt um kjaraágreining tekið málin í sínar hendur. Þótt þessi heimild sé til staðar, hefur það þótt farsælla í kjaradeilum að aðilar reyndu fyrst sjálfir að ná sáttum sín í milli áður en ríkissáttasemjari hæfi afskipti af deilunni. Í framkvæmd hefur þetta lengstum verið þannig, að sáttasemjari hefur yfirleitt ekki tekið samningsumleitanir í sínar hendur fyrr en ósk hefur borist um það frá að minnsta kosti öðrum hvorum aðilanum. Þessi heimild kann þó í ákveðnum tilvikum að reynast nauðsynleg, en hún var nýmæli í lögunum frá 1978.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. ber samningsaðilum að gefa sáttasemjara kost á að fylgjast með vinnudeilu og samningaumleitunum hvenær sem hann óskar þess.

Skylda til afskipta

Ríkissáttasemjara ber að taka deilu í sínar hendur í ákveðnum tilvikum.

Að ósk samningsaðila

Samningsaðilar geta hvenær sem er eftir útgáfu viðræðuáætlunar óskað milligöngu sáttasemjara eða aðstoðar hans og skal hann þá þegar beita sér fyrir því að samningaumleitanir fari fram í samræmi við viðræðuáætlun.

Þegar deila er komin í þrot

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna er ríkissáttasemjara skylt að kveðja aðila eða umboðsmenn þeirra til fundar "svo skjótt sem kostur er", ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum, enda hafi hvor þeirra um sig eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara. Ber sáttasemjari síðan að halda áfram sáttaumleitunum meðan von er til þess að þær beri árangur.

Samkvæmt viðræðuáætlun

Lögin gera ráð fyrir þeim möguleika að í viðræðuáætlun sé beinlínis kveðið á um að sáttasemjari skuli taka við stjórn viðræðna eftir því sem nánar er kveðið á um í viðræðuáætluninni sjálfri.

Þegar vinnustöðvun hefur verið boðuð

Ef tilkynning berst um vinnustöðvun skv. 16. gr. er sáttasemjara skylt að annast sáttastörf með deiluaðilum og stýra viðræðum þeirra. 

Skylt að hlýða boði sáttasemjara

Samkvæmt  1. mgr. 25. gr. laganna er samningsaðilum skylt að sækja eða láta sækja samningafund sem sáttasemjari kveður þá til.

Sáttasemjari getur skv. 26. gr. laganna krafið aðila vinnudeilu um hverjar þær skýrslur og skýringar sem hann telur nauðsynlegar til að leysa vinnudeilur. Áður hefur verið rætt um skyldur þeirra sem gera kjarasamninga að senda ríkissáttasemjara samrit kjarasamninga og breytingar á þeim. Hann getur einnig krafið allar opinberar stofnanir um þær upplýsingar og skýrslur sem hann telur þörf á. Með öll slík gögn skal fara sem trúnaðarmál ef þess er óskað.

Til að starf ríkissáttasemjara verði sem árangursríkast þarf hann á því að halda að hafa aðgang að öllum upplýsingum sem völ er á, svo sem upplýsingum um þjóðhagsstærðir, afkomu atvinnufyrirtækja og horfur í verðlagsmálum.

Var efnið hjálplegt?