Ríkissáttasemjari

Kveðið er á um skipan ríkissáttasemjara í III. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Félagsmálaráðherra skipar ríkissáttasemjara til fimm ára í senn. Ríkissáttasemjari er Bryndís Hlöðversdóttir. Skrifstofa ríkissáttasemjara er í Reykjavík og ræður hann til hennar starfsfólk eftir þörfum og í samræmi við heimildir.

Hæfiskröfur

Ríkissáttasemjari skal vera íslenskur ríkisborgari, fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þess skal gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda. Þetta atriði er nauðsynlegt til þess að ríkissáttasemjari geti notið óskoraðs trausts aðila og til að hann geti sinnt starfi sínu við að miðla málum. Starf ríkissáttasemjara veltur oft á því að hann njóti trúnaðar og trausts þeirra aðila sem deila í kjaramálum.

Vararíkissáttasemjari

Ráðherra ræður einnig vararíkissáttasemjara og skal hann fullnægja sömu skilyrðum og ríkissáttasemjari. Vararíkissáttasemjari tekur við störfum ríkissáttasemjara þegar hann er forfallaður og er honum til aðstoðar þegar þörf krefur.

Ríkissáttasemjari getur tilnefnt aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu. Það er borgaraleg skylda að taka að sér aðstoðarsáttasemjarastarf. Vararíkissáttasemjari, aðstoðarsáttasemjari og sáttanefndarmenn hafa réttindi og bera skyldur ríkissáttasemjara þegar þeir eru að störfum.

Sáttanefnd

Ef sýnt þykir að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar getur ríkisstjórnin skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Skal samráð haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en sáttanefnd er skipuð.

Nánari upplýsingar á heimasíðu ríkissáttasemjara.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?