Undirritun og atkvæðagreiðsla

Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meirihluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun.

Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Hvað aðildarsamtök ASÍ og kjarasamninga þeirra við Samtök atvinnulífsins varðar er heimilt að slík póstatkvæðagreiðsla fari fram rafrænt sbr. síðar. 

Taki kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis er heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.

Undirritun

Eftir að samningsaðilar hafa náð samkomulagi er komið að undirskrift kjarasamnings. Kjarasamningur er undirritaður af aðilum með fyrirvara áður en hann er síðan formlega borinn upp í viðkomandi stéttarfélagi eða af atvinnurekendum. Áður en að undirskrift kemur hefur textinn verið vandlega yfirfarinn af báðum aðilum til að koma í veg fyrir villur og til að ígrunda vel hvað átt er við með textanum. Er mjög mikilvægt að reynt sé að eyða öllum vafa um túlkun á þessu stigi. Það er þó illmögulegt, meðal annars vegna þess að tilvikin sem upp koma síðar er ekki hægt að sjá fyrir.

Umboð til undirritunar

Í 2. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er tekið fram að samninganefnd eða fyrirsvarsmaður, sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, hafi umboð til þess að setja fram tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning fyrir hönd hlutaðeigandi félags eða samtaka. Samninganefnd er heimilt að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti.

Kjarasamningar eru venjulega undirritaðir af öllum þeim sem sæti eiga í samninganefnd. Undirritun heildarkjarasamninga getur því verið sérstök athöfn, þar sem nokkrir tugir einstaklinga rita nöfn sín á kjarasamninginn, sem gjarnan er útbúinn í eins mörgum eintökum og heildarsamtökin eru mörg.

Ekki er venja að starfsmenn verkalýðsfélaga eða heildarsamtaka undirriti kjarasamninga þar sem þeir eru ekki hluti af samninganefndinni. Stundum er þó eðlilegt að líta á starfsmennina sem hluta af samninganefndinni, sérstaklega þegar einstök félög eiga í hlut, og undirrita starfsmennirnir þá samninginn. Það, hverjir undirrita kjarasamninga, kann síðar að verða mikilvægt sönnunargagn, ef verið er að leita upplýsinga um atriði sem tengdust samningagerðinni. Þegar túlkunarágreiningur kemur upp getur verið gott að leita til þeirra sem gerðu kjarasamninginn og þá er fljótlegt að sjá hverjir það voru af undirskriftunum.

Litið hefur verið svo á að með undirskrift sinni undir kjarasamning séu samningamenn að mælast til þess við félagsmenn sína að samningarnir verði síðan staðfestir. Dæmi eru þó um að formenn stéttarfélaga hafi undirritað kjarasamning og mælt síðan gegn samþykkt hans en slíkt dregur mjög úr trúverðugleika samningaferilsins og samræmist ekki almennum viðhorfum í samningarétti. Með sama hætti hefur verið litið svo á að atvinnurekendur taki að sér að fylgja því eftir sín megin frá að kjarasamningar verði samþykktir.

Fyrirvarar

Kjarasamningar eru yfirleitt undirritaðir með fyrirvara. Nokkuð er misjafnt hvaða orðalag er notað á fyrirvara við undirskriftir kjarasamninga og hvað í fyrirvörum felst. Sé verið að gera kjarasamning fyrir einstakt félag er slíkur samningur yfirleitt einnig undirritaður með fyrirvara, og felst þá í slíkum fyrirvara að samninginn þurfi að bera upp í félaginu til að hann sé bindandi fyrir það. Þegar stéttarfélög gera viðbótarsamninga eða sérsamninga við einstaka vinnustaði eru slíkir samningar stundum án fyrirvara. Spyrja má hvort ekki sé nauðsynlegt að bera slíka samninga upp, að minnsta kosti innan þess vinnustaðar sem þeir eiga að gilda. Almenna reglan hlýtur að vera sú að sé verið að gera kjarasamning fyrir ákveðinn hóp innan félags sé eðlilegt að þeim sem samningurinn snertir sé gefinn kostur á að lýsa afstöðu sinni til samningsins.


Atkvæðagreiðsla um kjarasamning

Í 3. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 segir að þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildi hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meirihluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu. 

Í athugasemdum með þessu ákvæði laganna segir m.a. að löglega gerður kjarasamningur verði ekki felldur nema fyrir hendi sé raunveruleg andstaða félagsmanna. Félagsmenn megi almennt treysta því að kjarasamningar, sem fulltrúar launafólks gera fyrir þess hönd, endurspegli mat þeirra á því hvað sé besta möguleg niðurstaða samningaviðræðna. Til að hnekkja þessu mati kjörinna fulltrúa félaganna hljóti því að þurfa meira en örlítinn hluta félagsmanna. Á það hefur verið bent að ekki megi krefjast svo mikillar þátttöku að í reynd verði ómögulegt að fella kjarasamning sem samninganefnd hefur gert. Taka verður fullt tillit til þessara viðhorfa, enda er markmiðið ekki að torvelda starfsemi stéttarfélaga heldur að tryggja virkni og lágmarksþátttöku í mikilvægustu ákvörðunum. Þykir því ekki ósanngjarnt að áskilja að 20% félagsmanna þurfi til að fella gerðan kjarasamning.

Ágreiningur hefur á stundum risið um hvernig skilja beri hugtakið „greidd atkvæði“ í 3.mgr. 5.gr. og þá hvort telja beri auð atkvæði með greiddum atkvæðum. Í Félagsdómi nr. 5/1988 var fjallað um túlkun 15.gr. l. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem fjallar um boðun verkfalla, en sem er efnislega samhljóða 3.mgr. 5.gr. laga nr. 80/1938 hvað áskilnað um meirihluta varðar. Í niðurstöðu félagsdóms segir: „ Hefði ætlun löggjafans verið sú, að afl atkvæða réði úrslitum í slíkri atkvæðagreiðslu, að skilyrði um kosningaþátttöku uppfylltu, hefði legið beint við að orða lagatextann með þeim hætti. Ákvæði greinarinnar um samþykki meiri hluta þátttakenda til verkfallsboðunar áskilur því samþykki hreins meiri hluta allra, sem skila atkvæðaseðli í slíkri atkvæðagreiðslu.“  Niðurstaðan varð sú, að auð atkvæði teldust með greiddum atkvæðum. Í ljósi þessa dóms verður 3.mgr. 5.gr. laga nr. 80/1938 vart túlkuð öðruvísi en svo, að áskilnaður sé um að yfir 50% allra greiddra atkvæða, þ.e. atkvæða sem skilað hefur verið og ekki eru ógild, þurfi til að fella kjarasamning. Framangreint má í raun umorða á þann hátt að atkvæði sem felur í sér afstöðuleysi kjósanda um kjarasamning, jafngildi atkvæði sem styður gildistöku kjarasamnings. Til áréttingar er rétt að benda á, að þessi regla varð til fyrir tilstilli löggjafans og jafnvel þó stéttarfélög myndu vilja haga framkvæmd talningar í lögbundnum atkvæðagreiðslum um kjarasamninga og verkföll  öðruvísi, væri slíkt ekki mögulegt án breytinga af hálfu Alþingis.

Kjarasamningur tekur einungis til hluta félagsmanna

Ef kjarasamningur tekur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.

Ef tvö eða fleiri stéttarfélög standa að gerð kjarasamnings, vinnustaðasamnings, fyrir félagsmenn á sama vinnustað skal hann borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann tekur til og ræður meiri hluti niðurstöðu. Um gildistöku og afgreiðslu vinnustaðasamninga fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laganna.

Atkvæði greidd á félagsfundi

Áður fyrr var langalgengast að kjarasamningar væru bornir upp á félagsfundi, sem boðaður var með þeim hætti sem lög félagsins kveða á um. Víða í félagslögum er hægt að víkja frá þeim fresti sem þarf til að boða félagsfund, sé verið að boða fund vegna kjaradeilu.  Á síðari árum hefur stéttarfélögum fækkað og þau stækkað. Erfiðara hefur því reynst að tryggja nægilega fundarsókn þ.e. fimmtungs þátttöku til þess að afgreiða megi kjarasamninga. Af þeim ástæðum en einnig vegna aukinna krafna um meira lýðræði og tækifæri til þátttöku má segja að dregið hafi verulega úr afgreiðslu kjarasamninga á félagsfundum og almennar leynilegar allsherjaratkvæðagreiðslur orðið algengari. Í minni félögum og í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga sem taka til minni hópa er þó áfram brotaminnst að styðjast við afgreiðslur á félagsfundum. Það er þá gert þannig að þegar búið er að mæla fyrir samningum og kynna þá, eru þeir bornir undir atkvæði fundarmanna. Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg og skrifleg.

Allsherjaratkvæðagreiðsla

Sum félög hafa það fyrir reglu að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjarasamninga. Fer þá um þá atkvæðagreiðslu eftir reglum félagsins um allsherjaratkvæðagreiðslu, en á vettvangi ASÍ hefur verið sett sérstök reglugerð um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu sem framkvæma má bréflega með pósti eða rafrænt. Sú reglugerð gildir fyrir öll aðildarsamtök ASÍ og deildir þeirra. Reglugerðin gildir um kjör fulltrúa á ársfund ASÍ, kjör fulltrúa á þing landssambanda innan ASÍ og við stjórnar- og trúnaðarmannaráðskosningar í stéttarfélögum. Þá gilda ákvæði hennar einnig við framkvæmd á atkvæðagreiðslu vegna afgreiðslu kjarasamninga og um vinnustöðvanir skv. sérstakri bókun ASÍ og SA hjá ríkissáttasemjara.

Sjá nánar Reglugerð um leynilega allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ og bókun hjá ríkissáttasemjara 6.4 2017.

Fari fram skv. reglugerðinni almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla eða almenn leynileg rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku.

Kjarasamningur felldur

Ef kjarasamningur er felldur verður ekki byggður réttur á honum, hvorki fyrir þann tíma sem liðinn er né það sem á eftir fer.

 

Var efnið hjálplegt?