Umfang

 

Friðarskyldan nær til þeirra atriða sem um hefur verið samið í kjarasamningi.  Vinnustöðvanir vegna ágreinings út af slíkum atriðum eru óheimilar.  Friðarskyldan nær ekki bara til þeirra atriða sem um hefur verið samið, heldur bindur hún hendur samningsaðila hvors gagnvart öðrum um viðbætur og breytingar á kjarasamningi, ef telja má að kjarasamningurinn sem í gildi er nái yfir það samningssvið.  Félagsdómur hefur litið svo á í dómum sínum að almennir kjarasamningar skuli binda hendur aðila þannig að ekki sé hægt að knýja á um gerð viðbótarsamnings vegna nýrra starfa.  Sjá hér Félagsdóm 2/1989 (IX:269).

Túlkun kjarasamnings

Það fer eftir kjarasamningnum sjálfum hvert umfang hans er.  Friðarskyldan nær ekki einungis til þess sem í kjarasamningum stendur, heldur nær hún einnig til þeirrar venju, sem kann að hafa skapast um framkvæmd kjarasamningsins og  til þeirra atriða, sem um var deilt við gerð hans en náðu ekki fram að ganga.  

Við túlkun á kjarasamningum og umfangi friðarskyldunnar með vísan til samninganna ber að hafa í huga að friðarskyldan er meginregla.  Allar undantekningar þar frá eru túlkaðar þröngt.  Því þurfa ríkar ástæður að vera til staðar, ef samningsaðila er heimilt að hefja vinnustöðvun á samningstímabilinu vegna atriðis sem ekki er tekið á í kjarasamningi.  Skiptir hér ekki máli,  hvort um er að ræða réttarágreining eða hagsmunaágreining.

Á hverjum hvílir friðarskylda

Kjarasamningur er bindandi fyrir aðila hans og af honum leiðir að aðilar mega ekki á miðju samningstímabili knýja á um kröfur, sem samið hefur verið um.  Þeir eru bundnir friðarskyldu.  En hverjir eru þá aðilar kjarasamnings?  Annars vegar eru það stéttarfélög og hins vegar atvinnurekendur, einn eða fleiri, félög atvinnurekenda eða sambönd.  Þar sem friðarskyldan lýtur að banni við vinnustöðvun og rétti til vinnustöðvunar hvílir friðarskyldan  samkvæmt 14. gr. laga nr. 80/1938 á stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum.  Friðarskyldan hefur síðan þær afleiðingar að friður helst á samningstímanum.  Þannig nær friðarskyldan einnig til starfsmanna, þar sem þeir eru bundnir ráðningarsamningum, sem styðjast við kjarasamninga.

Stéttarfélög
Stéttarfélögin eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna.  Þau eru bundin friðarskyldu vegna þeirra kjarasamninga sem þau eru aðilar að. Geri félagasambönd samninga í umboði eða fyrir hönd stéttarfélaganna verða slíkir samningar ekki bindandi fyrir hin einstöku félög fyrr en samþykki þeirra er fengið.

Varðandi rétt einstakrar deildar innan stéttarfélags til að gera sjálfstæðan kjarasamning hefur Félagsdómur í máli 2/1952(III:197) talið að slíkur réttur væri til staðar. Í deildskiptu félagi hafði hver deild gert kjarasamninga við viðsemjendur. Tvær deildanna gerðu nýjan samning en þriðja deildin, bifreiðastjóradeild, hækkaði taxta sinn í samræmi við þá samninga.  Nokkrum mánuðum síðar sagði bifreiðastjóradeildin upp sínum samningum og boðaði verkfall. Töldu vinnuveitendur hana þá vera samningsbundna og höfðuðu mál.  Í forsendum dómsins sagði að enginn af félagsmönnum deildarinnar hefði tekið þátt í undirskrift samningsins og aðilar væru sammála um það að aðild deildarinnar að samningnum sem þá var undirritaður hafi ekki borið á góma.  Var verkfallsboðunin því dæmd lögmæt. Friðarskylda nær því ekki nauðsynlega til félagsins í heild, heldur þeirrar deildar félagsins, sem gert hefur kjarasamning.  

Atvinnurekendur
Friðarskyldan er gagnkvæm.  Hún hvílir ekki aðeins á stéttarfélaginu, heldur einnig á atvinnurekendum og félögum þeirra.  Einstaka atvinnurekandi er bundinn við samninga sem félag eða samband hans gerir. Hann getur ekki losnað undan slíkum samningi á miðju samningstímabili með því að ganga úr félagasambandinu sem gert hefur samninga fyrir hans hönd.  Atvinnurekandi, sem gengur á samningstímabili í félag atvinnurekenda verður við þá inngöngu bundinn af þeim kjarasamningum sem félagið hefur gert.  Sjá hér til hliðsjónar Félagsdóm 2/1989 (IX:269).

Verði aðilaskipti að atvinnurekstri á miðju kjarasamningstímabili hefur það engin áhrif á réttarstöðu starfsmanna og hinum nýja rekstraraðila er skylt að virða þá kjarasamninga sem gilda, samanber lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Var efnið hjálplegt?