Friðarskylda og verkfallsheimild

Friðarskyldan  skerðir rétt stéttarfélaga og atvinnurekenda til vinnustöðvunar.  Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 heimila aðilum undir vissum kringumstæðum að stöðva vinnu.  Byggist þessi heimild á 14. gr. laganna þar sem segir að stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstaka atvinnurekendum sé heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett eru í lögum.  Heimildin nær fyrst og fremst til að útkljá deilu um kaup og kjör eða hagsmunaágreining og er til þess að knýja aðila til samningsgerðar. Sambærileg ákvæði er að finna í 14. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.


Ósamningsbundið ástand

Heimild til vinnustöðvunar samkvæmt 14. gr. laga nr. 80/1938 nær til ósamningsbundins ástands. Hafi aðilar ekki gert með sér samning, geta þeir knúið á um gerð hans með boðun vinnustöðvunar. Séu kjarasamningar lausir er ennfremur hægt að knýja á um gerð nýs samnings með boðun vinnustöðvunar.

Verkfall sem miðar að því að knýja fram endurnýjun samnings eða samning við ákveðinn atvinnurekanda sem félagið hefur ekki áður haft samning við brýtur ekki í bága við neina friðarskyldu. Friðarskylda verður ekki til fyrr en samningar hafa náðst milli aðila.

Samningsbundið ástand

Þegar gildandi kjarasamningur er fyrir hendi milli aðila er vinnustöðvun í flestum tilfellum óheimil. Deilur út af gildandi kjarasamningi, túlkun eða brotum á honum, teljast til réttarágreinings og falla undir Félagsdóm. Réttarágreining á ekki að leysa með sjálftökuúrræðum heldur með aðstoð dómstóla. Almennan réttarágreining vegna réttinda og skyldna einstakra launamanna með vísan til laga, ráðningarsamnings, kjarasamnings eða venju er ekki hægt að leysa með vinnustöðvun heldur á slíkur ágreiningur undir hina almennu dómstóla.  

Fjallað var um þetta álitaefni í Félagsdómi 7/1988 (IX:253). Málsatvik voru þau að Flugfreyjufélag Íslands hafði í kjarasamningi við viðsemjendur gert bókun um undirbúning og framkvæmd á fyrirhugaðri sölu um borð í flugvélum. Sala um borð í vélum var hafin, þótt ekki hefði náðst samkomulag svo sem vísað var til í bókuninni. Félagið lýsti því þess vegna yfir að sölu yrði hætt, þar sem samkomulag um framkvæmd hennar væri ekki til staðar. VSÍ höfðaði mál og krafðist þess að niðurfelling á sölu um borð yrði dæmt ólögmætt verkfall af hálfu félagsins. Félagsdómur komast að þeirri niðurstöðu að Flugleiðir hf. hefðu vanefnt loforð um að endurskoða allt fyrirkomulag sölunnar í samráði við Flugfreyjufélagið. Í stað þess að leita réttar síns fyrir Félagsdómi út af vanefndunum tók félagið það til bragðs að fyrirskipa félagsmönnum sínum að hætta sölu um borð. Ljóst væri að aðgerðin grundvallaðist ekki einvörðungu á auknu vinnuálagi við sölu varnings, heldur væri henni jafnframt ætlað að knýja á um samninga, en þá var kjarasamningur aðila lögbundinn og óheimilt að þvinga fram breytingar á honum. Flugfreyjufélagið hafi með þessu rofið friðarskyldu, sem sé forsenda fyrir gildandi kjarasamningi milli aðila.

Hagsmunaágreiningur á samningstímabili

Þau tilvik geta átt sér stað að hagsmunaágreiningur sem upp kemur á gildistíma kjarasamnings má leysa með vinnustöðvun.  

Verði á gildistíma kjarasamnings til ný ósamningsbundin starfsgrein eða ný tækni tekin í notkun sem krefst breyttrar vinnutilhögunar eða vinnutíma frá því sem um er samið í kjarasamningi getur stéttarfélag sett fram kröfu um að gerður verði kjarasamningur þar um. Enginn umsaminn taxti er til um þau störf sem hér um ræðir og ekki hægt að ætlast til þess að launþegar vinni slíka vinnu án þess að þeir viti hvaða laun þeir fá eða hvaða starfskjara þeir njóti. Ekki er heldur hægt að ætlast til þess að atvinnurekandinn ákvarði einhliða laun fyrir slíka vinnu. Í slíkum tilfellum er oft reynt að færa þessi atriði undir lík ákvæði í samningnum. 

En hvernig á að standa að málum? Í kjarasamningum kann að vera samið um það hvernig bregðast skuli við komi til nýjar starfsgreinar á samningstímanum.  Þannig eru ákvæði í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands við viðsemjendur (2008) í grein 1.13 um að komi á samningstímanum til nýjar starfsgreinar, sem ekki er gert ráð fyrir í gildandi samningi eða ekki eiga sér greinilega hliðstæðu í gildandi kauptöxtum, skuli teknar upp samningaviðræður um kaup og kjör starfsmanna í starfsgreininni.  Hvort sem sérstaklega er um það samið að aðilar skuli taka upp viðræður um ný atriði eða ekki, er eðlilegt að stéttarfélag óski eftir viðræðum um viðbót á kjarasamningi þegar slík breyting verður.

Ef það er alveg ljóst að hin nýja starfsgrein eða hið nýja atriði hefur ekki verið haft í huga við gerð síðasta kjarasamnings þá er um hagsmunaágreining að ræða, atriði sem ósamið er um og aðilar ekki bundnir friðarskyldu hvað það varðar.  Þeir mega því grípa til verkfallsvopnsins samanber 19. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur.  Launþegum er heimilt að neita að vinna slík störf og þarf ekki að boða slíka vinnustöðvun með venjulegum fyrirvara.  Það er þó skilyrði að vinna hafi ekki verið hafin við hina nýju starfsgrein. Ef vinna aftur á móti hefur verið hafin verður að boða slíka vinnustöðvun með venjulegum fyrirvara.  Einungis þeir sem eiga að vinna hin nýju störf hafa verkfallsheimild.

En þetta vandamál er ekki ætíð svona augljóst. Aðila getur greint á um hvort samningurinn nái til þessa atriðis. Knud Illum heldur því fram að þótt slíkur ágreiningur sé fyrir hendi, þá sé ekki hægt að ætlast til þess að launþegar fari með slíkt fyrir dómstólana. Ekki sé hægt að krefjast þess að launþegi vinni án þess að vita hvað hann ber úr býtum. Per Jacobsen telur hins vegar að slík mál eigi undir dómstóla, þar sem hér sé um réttarágreining sé að ræða auk þess sem það sé meginregla að vinnufriður eigi að ríkja á samningstímabilinu. 

Eitt mál þessa efnis hefur farið fyrir Félagsdóm, sbr. mál 2/1989 (IX:269). Málsatvik voru þau að Verkalýðsfélag Vestmannaeyja óskaði eftir samningaviðræðum við viðsemjendur um starfsmenn í laxeldis- og hafbeitarstöðvum vegna fiskeldisfyrirtækisins ÍSNÓ í Vestmannaeyjum vorið 1988. ÍSNÓ var þá ekki aðili að VSÍ. Fiskeldi var tiltölulega ný grein hér á landi og hin almennu ákvæði kjarasamninga um vinnutíma og önnur kjör hentuðu ekki því vinnufyrirkomulagi sem tíðkaðist í fiskeldi. Viðræður við ÍSNÓ höfðu ekki skilað árangri um áramótin ´88-´89, en um það leyti gekk fyrirtækið í VSÍ. Óskað var formlega eftir viðræðum við ÍSNÓ í janúar ´89 og kom  VSÍ þá að þeim  viðræðum, en í gildi var á þessum tíma almennur samningur aðila. Þegar þessar viðræður skiluðu ekki neinum árangri var þeim hætt og í mars 1989 boðaði Verkalýðsfélagið verkfall. VSÍ höfðaði þá mál og krafðist ógildingar verkfallsins. Taldi VSÍ meðal annars að ákvæði í grein 1.14. í kjarasamningi um  að aðilar tækju upp samningaviðræður  um nýjar starfsgreinar geti eingöngu veitt samningsaðilum rétt til viðræðna en ekki rétt til uppsagnar á kjarasamningi. Verkalýðsfélagið vísaði því á bug að hinn almenni kjarasamningur málsaðila hefði gilt eða gilti um þessi atriði. Til grundvallar ráðningu starfsmanna ÍSNÓ hefði legið sérstakur munnlegur samningur um vinnufyrirkomulag og laun, sem ætti sér enga hliðstæðu í aðalkjarasamningi að öðru leyti en viðmiðun um yfirvinnu. Aðalkjarasamningur aðila tæki ekki til starfa við fiskeldisstöðvar, hvorki að formi til né efni. Því hefði verkalýðsfélagið fullan rétt á að boða vinnustöðvun með stoð í meginreglu 14. gr. laga nr. 80/1938.  Ákvæði í grein 1.14 í aðalkjarasamningi gæti ekki takmarkað verkfallsréttinn samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Um slíkt afsal yrði að semja berum orðum. Án verkfallsréttar væri gr. 1.14 í samningnum marklaus. Félagsdómur leit svo á að í gildi væri kjarasamningur milli málsaðila, sem tæki til þeirra starfa við fiskeldi sem unnin væru hjá ÍSNO hf. Var verkfallið því dæmt ólöglegt.

Þótt verkfallið hefði verið dæmt ólögmætt má þó af þessum dómi ráða að hefði kjarasamningurinn ekki tekið til þeirra starfa við fiskeldi sem unnin voru hjá ÍSNO hf. hefði verkfallsheimild verið til staðar. Dómurinn staðfestir því að í íslenskum vinnurétti gildi sömu sjónarmið og lýst var hér að framan hjá Knud Illum. Verkfallsréttur sé til staðar vegna hagsmunaágreinings sem rís á miðjum samningstíma vegna nýrra starfsgreina eða starfa. 

Rétt er að benda á að sé ágreiningur um skilning á kjarasamningi er eðlilegt að leita dóms Félagsdóms á ágreiningnum áður en gripið er til aðgerða.

Var efnið hjálplegt?