Aðild að kjarasamningi

Aðild að kjarasamningi er lögbundin. Ákvæði um hana er að finna í 5. og 6. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Aðilar kjarasamninga

Í 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Í 6. gr. laganna segir síðan að allir samningar milli stéttarfélaga og atvinnurekenda um kaup og kjör verkafólks skuli vera skriflegir. Því eru það stéttarfélögin sem eru samningsaðilinn fyrir hönd launþega. Það hefur verið skýrt þannig að það sé alltaf félagið, sem hafi samningsréttinn, en hvorki samband stéttarfélaga né einstakar deildir félagsins. Hins vegar getur félagið tekið ákvörðun um að fela sambandi, landssambandi, svæðasambandi eða heildarsamtökum svo sem ASÍ, umboð til samningsgerðar. Það umboð er venjulega gefið þannig að sambandið gerir samninginn fyrir hönd viðkomandi félagsins og með fyrirvara um samþykki þess. Samningurinn verður ekki bindandi fyrir félagið fyrr en hann hefur verið samþykktur af félaginu.

Einstakir hópar innan félags geta heldur ekki verið aðilar að kjarasamningi svo gilt sé, heldur verður samningur alltaf að vera í nafni félagins sjálfs. Sé félag deildarskipt er sá háttur oft hafður á að samningur, sem einungis nær til einnar deildar er borinn upp á fundi í félaginu, þar sem félagar deildarinnar eru sérstaklega boðaðir. Er þetta eðlilegt út frá því sjónarmiði að aðrir eiga ekki að vinna eftir þeim samningi og því eiga þeir ekki að hafa áhrif á niðurstöður samningsins. Samningurinn verður þó alltaf gerður í nafni félagsins.

Atvinnurekendur setja ekki skilyrði um að einungis félög atvinnurekenda eða sambönd geti verið aðilar að kjarasamningi. Þar er aðeins talað um atvinnurekendur ótilgreint í 6. grein, en í 14. gr., sem fjallar um heimild til verkfallsboðunar og verkbannsboðunar segir að félög atvinnurekenda og einstakir atvinnurekendur geti boðað til verkbanns. Af þessu er ljóst að einstakur atvinnurekandi getur verið aðili að kjarasamningi, svo og félag atvinnurekenda eða samband atvinnurekenda.

Hverja bindur kjarasamningur?

Kjarasamningur bindur ekki aðeins félagsmenn þess stéttarfélags sem hann gera, heldur einnig alla þá sem vinna þau störf sem samningur tekur til á félagssvæðinu. Samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.

Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.

Því skiptir ekki máli hvort launamaður er félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki, né hvort atvinnurekandi er aðili að samtökum atvinnurekenda eða ekki. Kjarasamningurinn kveður á um lágmarkskjör þessara aðila. Tilgangur þessa ákvæðis er sá að tryggja launafólki ákveðin lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum og koma í veg fyrir að menn séu þvingaðir til að standa utan stéttarfélaga í sparnaðartilgangi. Þetta ákvæði gerir það jafnframt að verkum að þau sjónarmið heyrast að ekki sé þörf á félagsaðild að stéttarfélagi, menn njóti kjaranna eftir sem áður.

Ný stéttarfélög krefjast samningsaðildar 

Meginregla laga 80/1938, sbr. 1. mgr. 5. gr. sbr. og 2. mgr. 3. gr. er sú, að atvinnurekandi er ekki bundinn við að semja við sama stéttarfélag nema út samningstímann við það félag. Eftir það geta önnur stéttarfélög sem gæta hagsmuna launafólks í starfi hjá honum krafist þess að við þau verði gerður kjarasamningur. Um þetta hefur Félagsdómur fjallað í nokkrum dóma sinna.

Í Félagsdómi 9/1999 ( XI-484) var deilt um það hvort Vélstjórafélag Íslands gæti farið með samningsaðild fyrir nokkra tilgreinda félagsmenn félagsins sem störfuðu sem vélstjórar og vélfræðingar hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg hafði ætíð samið við Starfsmannafélag Reykjavíkur um hin tilgreindu störf en nokkrir vélstjórar höfðu formlega sagt sig úr því félagi og gengið í Vélstjórafélagið. Niðurstaða Félagsdóms varð sú að Vélstjórafélag Íslands færi með samningsaðild fyrir hina tilgreindu félagsmenn þegar þágildandi kjarasamningur við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar félli úr gildi.

Fleiri Félagsdómar um svipað eða sama efni:  18/19982/200412/2005 og 1/2006.

Mismunandi tegundir kjarasamninga

Kjarasamningar geta verið mismunandi eftir eðli sínu. Kjarasamningur getur náð til allra félagsmanna í viðkomandi stéttarfélagi og tekið á margs konar almennum atriðum. Kjarasamningar geta einnig verið gerðir fyrir tiltekinn vinnustað, eða afmarkaðan hóp félagsmanna, tekið á fáum atriðum og vísa síðan í almenna samninginn með önnur atriði. Landssambönd ASÍ hafa gert heildarkjarasamninga fyrir aðildarfélög sín, og algengt er að einstök félög hafi einhver sérákvæði fyrir sig, en að öðru leyti gildi ákvæði heildarkjarasamningsins.

Tengsl kjarasamnings og ráðningarsamnings

Ráðningarsamningur er sá persónulegi samningur sem launamaður gerir við atvinnurekanda þegar hann ræður sig í starf. Launamaðurinn skuldbindur sig til að starfa hjá atvinnurekandanum undir hans stjórn og á hans ábyrgð, gegn greiðslu launa. Ráðningarsamningur er ekki formbundinn og er ýmist munnlegur eða skriflegur. Við ráðningu er almennt vísað til kjarasamningsins sem gildir á því sviði sem um er samið. Oftast eru náin efnisleg tengsl milli hins persónubundna ráðningarsamnings og kjarasamningsins sem unnið er eftir, og óheimilt er að semja um lakari kjör í ráðningarsamningi en í kjarasamningi. Slík ákvæði eru ógild. Það eru því einungis þeir þættir sem lúta að betri starfskjörum starfsmanns sem skipta máli í ráðningarsamningi. Að öðru leyti gildir kjarasamningurinn samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Var efnið hjálplegt?