Kjarasamningar

Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er ekki að finna neina skilgreiningu á því hvað sé kjarasamningur fremur en öðrum hugtökum sem notuð eru í lögunum. Í raun er það hugtak alls ekki notað í lögunum, heldur er þar talað um vinnusamninga. Það orð hafði þó hlotið aðra merkingu hér á landi, sem ráðningarsamningur, og var því ekki heppilegt að taka þetta heiti upp sem nafn á samningum um kaup og kjör milli stéttarfélaga og vinnuveitenda. Í áliti vinnulöggjafarnefndar kemur fram að með orðinu vinnusamningur sé átt við það sem á ensku nefnist collective agreement eða á sænsku kollektivavtal. Orðið kjarasamningur var síðan notað um þessa samninga og var það fyrst notað af Félagsdómi 16. janúar 1940 í Félagsdómi 4/1939 (I:42). Hugtakið kjarasamningur kemur fyrst fyrir í lögum frá 1962, en er nú almennt notað um samninga um kaup og kjör. 

Hugtakið kjarasamning má skilgreina með eftirfarandi hætti:

„Kjarasamningur er skriflegur samningur sem gerður er milli stéttarfélags annars vegar og atvinnurekanda, félags atvinnurekanda eða sambands atvinnurekenda hins vegar um kaup og kjör og nær til allra þeirra launamanna sem vinna á félagssviði stéttarfélagsins.“ Kjarasamningur kveður á um laun, vinnutíma, yfirvinnu, orlof, veikindarétt, uppsagnarrétt og fleiri atriði sem snerta kjör fólks. Samningar sem gerðir eru undir fyrirtækjaþætti kjarasamninga hafa að lögum ekki stöðu kjarasamninga sbr. m.a. Hrd. 792/2017

Gildi bókana með kjarasamningi

Við kjarasamningsgerð eru tiltekin ágreiningsefni stundum leyst með sérstökum bókunum. Er þá oft um að ræða afmörkuð mál, sem ætlað er að leysa fljótlega. Einnig getur verið um að ræða bókun á sameiginlegum skilningi aðila á efni sem deilt hefur verið um. Vegna efnis ágreiningsins þykir heppilegra að hafa þessi atriði ekki inni í kjarasamningstextanum sjálfum, heldur taka sérstaklega á honum í bókun.

Bókanir með kjarasamningi hafa sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur. Skiptir almennt ekki máli hvort samningsatriði er komið fyrir í sérstakri bókun, sem er ekki hluti meginmáls kjarasamnings eða í samningi sjálfum. Aðilar eru bundnir af þessum atriðum, enda hafa þeir samið um þau með sama hætti og kjarasamningsákvæðin. Þetta má sjá af dómum Félagsdóms, sem byggja á bókunum, til dæmis Félagsdómar 1/1989 (IX:280) og 12/1992 (IX:567).

Gildi fylgiskjala með kjarasamningi

Um fylgiskjöl með kjarasamningi gilda svipuð sjónarmið og bókanir. Fylgiskjöl eru eins og bókanir um tiltekin afmörkuð efni, stundum áætlun í nokkrum liðum um hvernig vinna skuli sameiginlega að tilteknum málum. Með sama hætti og bókanir þykir heppilegra að fella efni þeirra ekki inn í meginmál samningsins, heldur hafa þau sérstaklega aðgreind. Sé efni fylgiskjala með kjarasamningi samningur aðila um tiltekin efni, hafa þau sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur.

Ígildi kjarasamninga

Kjaradómur, miðlunartillaga og lög, sem skipa málum með ákveðnum hætti á vinnumarkaði hafa sömu áhrif og frjáls kjarasamningur og eru því eins konar kjarasamningsígildi. Aðilar eru bundnir af friðarskyldu og um túlkun fer eftir sömu reglum og túlkun kjarasamninga. Í Bæjarþingi Reykjavíkur 12. nóvember 1981 var deilt um aðgerðir sjúkrahússlækna í kjölfar kjaradóms, sem þeir vildu ekki una. Í dómsniðurstöðu sagði meðal annars að með dómi Kjaradóms 26. febrúar 1981 hafi komist á kjarasamningur milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra. Þótt samningurinn hafi verið gerður með dómi hafi hann að lögum öll sömu áhrif og frjáls kjarasamningur.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?