Aðilar æskja dóms

 

Samkvæmt 3. tl. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er það einnig verkefni Félagsdóms að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti þrír af dómendunum því meðmæltir. Í lögunum segir ekkert frekar um það, í hvaða tilvikum slíkur málflutningur skuli leyfður fyrir Félagsdómi, og ekki er hægt að sjá það af dómum Félagsdóms hvenær þessi grein gæti átt við nema að litlu leyti. Í þau fáu skipti sem aðilar máls hafa verið samþykkir því að ber mál undir Félagsdóm þótt það ætti ekki undir hann samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. hefur málinu verið vísað frá.  

Í Félagsdómi 2/1943 (II:5) var máli vísað frá þar sem gögn þótti skorta og í Félagsdómi 1/1959 (IV:193) voru dómendur á einu máli um að ekki hafi verið ástæða til að beita 3. tl. 1. mgr. 44. gr. og var frávísun dæmt. Í Félagsdómi 4/1951 (III:136) var dæmt að mál ætti ekki undir Félagsdóm samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. og jafnframt tekið fram að þar sem stefndu hefðu mótmælt því að málið væri lagt fyrir dóminn væru skilyrði 3. tl. nefndrar greinar þegar af þeirri ástæðu ekki fyrir hendi. Bæri því að vísa málinu frá. Af orðalaginu mætti ætla að dómendur Félagsdóms hefðu álitið í þessu máli að til greina hefði komið að nota 3. töluliðinn ef aðilar hefði verið því sammála. Í málinu var deilt um starfsskyldur stýrimanna, og taldi dómurinn að þar sem þær færu fyrst og fremst eftir landslögum og ráðningarsamningi hvers manns, ætti málið ekki undir Félagsdóm.

Um það hvenær mál geti mögulega átt undir dómssögu Félagsdóms með stoð í 3. tl. 44. gr. er ekki miklar upplýsingar að fá í dómum aðrar en að framan greinir en með hliðsjón af þeim og þegar litið er á tilgang Félagsdóms hlýtur að mega gera ráð fyrir að leyfi fengist til málflutnings á grundvelli ákvæðisins ef úrlausn máls hefði mikla þýðingu fyrir aðila vinnumarkaðarins og málið þannig vaxið að sérþekkingu á vinnumarkaðsmálum þyrfti til.

Var efnið hjálplegt?