Hlutverk

Félagsdómi er ætlað skýrt og afmarkað verkefni innan dómskerfisins. Hlutverk hans er að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins og eru dómar hans endanlegir og óáfrýjanlegir hvað varðar efnisniðurstöðu máls sbr. Hrd. nr. 265/2003 ogHrd. nr. 266/2003. Í báðum Hæstaréttardómunum segir orðrétt: „Með því að dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður ekki áfrýjað var áðurgreind niðurstaða Félagsdóms lögð til grundvallar dómsúrlausn.

Samkvæmt 44. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur er verkefni Félagsdóms að fjalla um:

  1. mál sem rísa út af kærum um brot á lögum nr. 80/1938 og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana,   
  2. mál sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans, 
  3. önnur mál milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta  kosti þrír af dómendum því meðfylgjandi.

Mál sem höfða má fyrir Félagsdómi skal ekki flytja fyrir almennum dómstólum nema Félagsdómur hafi neitað að taka það til meðferðar samkvæmt 47. gr. laga nr. 80/1938.

Samkvæmt þessu ber hinum almennu dómstólum að vísa öllum málum frá, sem eiga undir Félagsdóm. Þetta kann að virðast afdráttarlaust, en er þó ekki eins afdráttarlaust og það virðist við fyrstu sýn. Form máls getur ráðið úrslitum um það hvort mál verður dæmt af Félagsdómi eða almennum dómstólum. Ef mál er höfðað til viðurkenningar á ákveðnum skilningi kjarasamnings á það undir Félagsdóm, en sé dómkrafan aftur á móti tiltekin fjárhæð vegna vangoldinna launa á málið undir almenna dómstóla.

Þeir sem undirbúa mál til flutnings hafa það því oft í hendi sér hvort mál er flutt fyrir Félagsdómi eða almennum dómstólum. Sjá hér til skýringar Hrd. 1969:916 en í dóminum voru málsatvik þau að sóknaraðili sótti mál í héraði vegna kaupkröfu, sem reist var á kjarasamningi ýmissa stéttarfélaga yfirmanna á fiskiskipum og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þessari kröfu var vísað frá héraðsdómi, þar sem talið var að um slíkt grundvallarágreiningsefni væri að ræða varðandi gerð kjarasamninga að úrlausn þess ætti undir Félagsdóm. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu og sagði að almennum dómstólum væri rétt að meta öll atriði er kaupkröfuna varðaði og skýra að því leyti ákvæði greindra samninga.

Segja má að öll mál sem varða ráðningarsamninga starfsmanna og atvinnurekendur þeirra geti átt undir almenna dómstóla, séu þeir sjálfir aðilar máls, en ekki stéttarfélögin. Sjá hér t.d. Hrd. nr. 270/1999.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?