Uppsagnarfrestur

Almennur vinnumarkaður

Á almennum vinnumarkaði tekur uppsagnarfrestur mið af tímalengd í starfi. Í lögum nr. 19/1979 er kveðið á um lágmarksuppsagnarfrest en heimilt er að semja um betri rétt í kjarasamningum. Ákvæði laganna gilda um það starfsfólk sem verið hefur í starfi í eitt ár eða lengur en í kjarasamningum hefur uppsagnarrétturinn verið nánar útfærður og samið um betri rétt launafólki til handa en uppsagnarfresturinn er þó ekki fyllilega sambærilegur milli starfsgreina.

Í kjarasamningi SGS og SA (2008) kemur fram að uppsagnarfrestur er enginn fyrstu tvær vikurnar í starfi. Eftir tveggja vikna samfellt starf hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 12 almanaksdagar. Eftir 3 mánuði samfellt í starfi hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 1 mánuður og eftir þriggja ára samfellt starf hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 3 mánuðir. Ákvæðið kemur að fullu í stað ákvæða 1. gr. laga nr. 19/1979. Sé starfsmanni sagt upp eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki er uppsagnarfrestur fjórir mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir þegar hann er orðinn 63 ára. Starfsmaðurinn getur aftur á móti sagt starfi sínu upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Reglur um uppsagnarfrest í kjarasamningi VR við Samtök atvinnulífsins (2008) er með þeim hætti að á fyrstu þremur mánuðum sem er reynslutími er uppsagnarfrestur 1 vika. Á næstu þremur mánuðum á eftir er uppsagnarfrestur 1 mánuður en eftir 6 mánaða starf er uppsagnarfrestur 3 mánuðir. Þá gilda sambærilegar reglur um uppsagnarfrest eftir 10 ára starf hjá fyrirtæki.

Opinber vinnumarkaður

Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 70/1996 er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Á reynslutíma er almenna reglan sú að gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður. Þá er í einstökum kjarasamningum ríkisstarfsmanna kveðið á um að uppsagnarfrestur lengist eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sömu stofnun og er þá 4 mánuðir ef starfsmaður er 55 ára, 5 mánuðir ef starfsmaður er 60 ára og 6 mánuðir ef starfsmaður er 63 ára. Starfsmaður getur í þessum tilvikum hins vegar sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara.

Hjá sveitarfélögunum er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir og á reynslutíma einn mánuður og gilda sömu reglur um tímabundnar ráðningar. Þá eru í vissum kjarasamningum sveitarfélaga sambærileg ákvæði og hjá ríkisstarfsmönnum um að uppsagnarfrestur lengist eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sömu stofnun.

• Hjá starfsmönnum hins opinbera er meginreglan sú að uppsagnarfrestur er þrír mánuðir en kann að lengjast samkvæmt einstökum kjarasamningum hafi launafólk náð 10 ára starfsaldri.
• Uppsagnarfrestur á almennum vinnumarkaði tekur mið af tímalengd í starfi og er lengst þrír mánuðir en kann að lengjast frekar hafi launafólk starfað 10 ára hjá sama fyrirtæki.

Var efnið hjálplegt?