Slysatryggingar launafólks

Í kjarasamningum hefur verið samið um að atvinnurekendum beri að kaupa atvinnuslysatryggingu fyrir starfsmenn sína. Tryggingin gildir almennt vegna slysa í starfi og á leið til og frá vinnu fyrir starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum (skv. sumum kjarasamningum allan sólarhringinn) en starfsmenn hins opinbera eru aftur á móti slysatryggðir allan sólarhringinn.

Samkvæmt tryggingaskilmálum eru greiddar bætur vegna andláts launamanns og örorkubætur vegna varanlegrar örorku. Fjárhæðir bóta eru þó nokkuð mismunandi eftir kjarasamningum og eins kunna bótafjárhæðir að vera ólíkar eftir því hvort starfsmaður verður fyrir slysi í starfi eða utan starfs hjá starfsmönnum hins opinbera.

Þá er starfsmönnum á almennum vinnumarkaði veittur réttur til bóta vegna tímabundinnar örorku en ekki er um sambærilegan rétt að ræða til opinberra starfsmanna enda veikindaréttur þeirra lengri en hinna.

Starfsmenn hins opinbera hafa að jafnaði farangurstryggingar að auki á ferðalögum og fá tjón sitt bætt á persónulegum munum vegna óhappa á vinnustað.

Var efnið hjálplegt?