Orlofsréttur

Allir launamenn eiga rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987. Í lögunum eru settar fram lágmarksreglur um lengd orlofs, útreikning orlofslauna og réttindaávinnslu en víðtækari réttur kann að vera veittur með kjarasamningum.

Orlofsréttur er í meginatriðum sá sami hjá starfsmönnum hvort heldur á almenna eða opinbera vinnumarkaðnum. Aftur á móti er mismunandi hvort miðað er við starfsaldur eða lífaldur til að öðlast aukinn orlofsrétt auk þess sem mismunandi reglur kunna að gilda um lengingu orlofs sé það tekið utan sumarorlofstímabils og skiptir þá máli hvort slíkt sé gert að ósk atvinnurekanda eða ekki.

Í kjarasamningnum ríkisstarfsmanna er orlofsrétturinn 192 vinnuskyldustundir (24 dagar) miðað við fullt ársstarf og  lengist orlof miðað við lífaldur þannig að starfsmaður sem er 30 ára fær að auki 24 vinnuskyldustundir til viðbótar við 192 vinnuskyldustundir (24 daga) og starfsmaður sem nær 38 ára aldri á almanaksárinu sem tímabil sumarorlofs tilheyrir fær að auki orlof sem svarar til 24 vinnuskyldustunda í dagvinnu.

Á hinum almenna vinnumarkaði er lágmarksorlof 24 virkir dagar og öðlast starfsmaður sem hefur unnið 5 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein rétt á orlofi í 25 daga. Starfsmaður sem hefur unnið í 10 ár hjá sama fyrirtæki öðlast 30 daga orlofsrétt.

Veikindi í orlofi

Veikist opinber starfsmaður í orlofi telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofsins.

Veikist starfsmaður á almennum vinnumarkaði í orlofi innanlands, í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal hann á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda t.d. með símskeyti, rafpósti eða á annan sannanlegan hátt nema force major aðstæður hindri en þá um leið og því ástandi léttir. Fullnægi starfsmaðurinn tilkynningarskyldunni, standi veikindin lengur en í 3 sólarhringa og tilkynni hann atvinnurekanda innan þess frests hvaða læknir annist hann eða muni gefa út læknisvottorð, á hann rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vöruðu. Undir framangreindum ástæðum skal starfsmaður ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Atvinnurekandi á rétt á að láta lækni vitja starfsmanns er veikst hefur í orlofi. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfsmaður óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á. Sömu reglur og að ofangreinir gilda um slys í orlofi.

Orlofssjóður

Greiðsluhlutfall launa í orlofssjóði er nokkuð sambærilegt hjá starfsmönnum á almenna vinnumarkaðnum og ríkinu eða á bilinu 0,25%-0,30%. Aftur á móti greiða sveitarfélögin hærra hlutfall fyrir starfsmenn sína í orlofssjóði félaga þeirra eða 1% af heildarlaunum félagsmanna.

• Orlofsréttur er í meginatriðum sá sami á almenna og opinbera vinnumarkaðnum.
• Hjá hinu opinbera lengist orlof miðað við lífaldur. Þá telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, veikist starfsmaður í orlofi.
• Orlof á almenna vinnumarkaðnum lengist miðast við starfsaldur. Veikist starfsmaður og veikindin standi lengur en í 3 sólarhringa innanlands á hann rétt á uppbótarorlofi í jafnlangan tíma og veikindin vöruðu.

Var efnið hjálplegt?