Fræðslusjóðir og starfsmenntamál

Ríki, sveitarfélög og aðrir atvinnurekendur borga hlutfall af heildarlaunum starfsmanna sinna í starfsmenntasjóði. Hlutfallið er nokkuð mismunandi eftir starfsmannahópum en það getur verið á bilinu 0,2% til 1,5% ef greiðslur til vísindasjóða falla hér undir.

Almennt rennur hærra hlutfall af greiðslum opinberra starfsmanna til sjóðanna en þar getur þó skipt máli hvort um háskólamenntaða eða ófaglærða starfsmenn er að ræða. Þannig er samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga við Samflot bæjarstarfsmannafélaga (2009) greitt 0,3% af heildarlaunum til starfsmenntunarsjóðs en að auki er greitt 1,5% af föstum dagvinnulaunum til viðbótar vegna háskólamenntaðra starfsmanna í vísindasjóð. Aftur á móti er í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og Launanefndar sveitarfélaga (2008) greitt 0,72% af heildarlaunum í starfsmenntunarsjóð og í kjarasamningi við ríkið (2008) er hlutfallið 0,57%. Vegna félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem starfa á almenna vinnumarkaðnum er aftur á móti greitt 0,2% af launum (2008).

Réttur starfsmanna til að sækja námskeið vegna starfsmenntunar og fara í námsleyfi er ólíkur eftir því hvort starfsmenn vinna hjá hinu opinbera eða ekki. Starfsmenn hins opinbera hafa almennt miklu víðtækari rétt til endur- og símenntunar en starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Kjarasamningur Starfsgreinasambandsins og ríkisins (2008) veitir starfsmanni sem sækir fræðslunámskeið samkvæmt heimild stofnunar rétt til að halda reglubundnum launum á meðan. Þá getur starfsmaður sem með samþykki stofnunar sinnar stundar viðurkennt sérnám varðandi starf sitt  haldið föstum launum með fullu vaktaálagi meðan slíkt nám varir allt að þremur mánuðum á hverjum 5 starfsárum svo dæmi sé tekið. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins (2008) er starfsmanni einungis veittur réttur til 4 dagvinnustunda á ári til setu á námskeiðum án skerðingar á dagvinnulaunum þó þannig að a.m.k. helmingur námskeiðsstunda sé samtals í þeirra eigin tíma. 

Var efnið hjálplegt?