Samningsaðild

Í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar segir að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu. Í athugasemdum með greininni segir að verið sé að festa í sessi það samningsfrelsi sem hér hafi lengi ríkt meðal þorra launafólks. Þetta samningsfrelsi er þó hægt að skerða með lögum og þá að uppfylltum sambærilegum skilyrðum og koma fram í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. m.a. dóm Hrd. nr. 167/2002. Þau skilyrði eru t.d. vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi.

Frelsi stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna hefur þannig margoft verið staðfest í dómum Félagsdóms og Hæstaréttar. Þannig segir t.d. í framangreindum hæstaréttardómi:

Með vísan til viðtekinnar túlkunar á 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans verður að túlka 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur verndi það einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi félaganna er leið að slíku marki og nýtur því sérstakrar verndar. Líta verður svo á að verkfallsrétturinn sé í þeim skilningi hluti af samningsfrelsi þeirra þegar litið er til þess eðlis hans að hann er lögbundin leið til að knýja gagnaðila til að ganga til samninga.

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 tiltaka stéttarfélögin sem lögformlegan samningsaðila um kaup og kjör meðlima sinna enda hafi félag í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Lögin veita þannig öllum stéttarfélögum heimild til að semja við atvinnurekendur um kjör félagsmanna sinna. Þá veita lögin um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 þeim samningum sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins gera almennt gildi fyrir launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningarnir taka til.

Þá er rétt að geta þess að þó ekki sé gert ráð fyrir því berum orðum í lögum nr. 94/1986 að fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, geri kjarasamninga við stéttarfélög samkvæmt lögum nr. 80/1938 að slík samningsgerð er reist á ríkri hefð, líkt og kemur t.d. fram í Félagsdómi nr. 9/2001.

Formkröfur laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna

Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 segir hvaða stéttarfélög hafa rétt til að semja við ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra. Ríkar formkröfur eru gerðar til þess hvaða stéttarfélög hafa heimild til að gera kjarasamninga við hið opinbera. Samkvæmt 1. gr. laganna gilda þau um alla starfsmenn sem eru ráðnir hjá hinu opinbera í aðalstarf og sem eru félagar í stéttarfélögum, sem skv. 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim.

Í 4. og 5. gr. laga nr. 94/1986 er fjallað nánar um hvaða stéttarfélög geta átt aðild að kjarasamningum samkvæmt þeim lögum. Stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga fara með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt 4. gr. laganna, auk þeirra stéttarfélaga sem höfðu sérkjarasamninga við fjármálaráðherra og sveitarfélög við gildistöku laganna og óskuðu eftir því sérstaklega. Í 5. gr. eru síðan sett almenn skilyrði fyrir því að önnur stéttarfélög eða félagasamtök geti gert kjarasamninga á grundvelli laganna. Í ákvæðinu segir:

Önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningsaðili samkvæmt lögum þessum sé a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða uppfyllt, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.:
1. Að félag taki til meiri hluta opinberra starfsmanna hjá ríki eða sveitarfélagi annarra en þeirra sem eru í stéttarfélögum sem eiga rétt til samninga skv. 2. og 3. tölul. þessarar greinar.
2. Að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra hjá tiltekinni stofnun og að þeir félagar séu 100 eða fleiri.
3. Að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkrar starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri.

Í 1. mgr. 6. gr. laganna er síðan kveðið á um að einungis skuli eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama atvinnurekanda fyrir sömu starfsstétt.

Uppfylla þarf þannig eitt þriggja skilyrða, þ.e. að vera fagfélag af tiltekinni lágmarksstærð, að vera félag starfsmanna við stofnun af tiltekinni lágmarksstærð eða að vera eina almenna stéttarfélag starfsmanna hjá ákveðnum atvinnurekanda.

Í 1. tölulið felst þannig að almennt starfsmannafélag hjá ríki eða sveitarfélagi skuli taka til meirihluta þeirra starfsmanna sem ekki eru í félagsbundnir í stofnana-eða starfsstéttarfélögum sem samningsrétt eiga.

Í 3. tölul. er gert ráð fyrir samningsumboði fagfélaga, þ.e. félaga sem taka til a.m.k. tveggja þriðju hluta heillar starfsstéttar sem er með lögformleg starfsréttindi eða uppfyllir skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda. Hér eru skilyrðin ekki bundin við einstakan atvinnurekanda heldur alla þá sem undir lögin geta heyrt. Þannig getur eitt og sama fagfélagið tekið til starfsmanna hjá mörgum opinberum atvinnurekendum og annast gerð kjarasamninga við þá alla, hvern í sínu lagi eða sameiginlega. Greinin tekur ennfremur til starfsstétta þar sem sérstök ákvæði í lögum eða reglugerð kveða á um starfsréttindi og rétt til notkunar á starfsheitum og ennfremur fagfélaga starfsmanna sem lokið hafa hliðstæðu námi og sérhæfingu og framangreindar stéttir, fyrst og fremst háskólamenntaðir starfsmenn.

Takmörkun á samningsfrelsi

Ljóst er að ákvæði 5. gr. setja ríkar skorður við því hvaða stéttarfélög hafa heimild til að semja við hið opinbera og má raunar halda því fram að sú takmörkun gangi gegn samningsfrelsi stéttarfélaganna. Í Félagsdómi hafa gengið dómar þar sem gefið er sterklega til kynna að sú takmörkun sem í ákvæðinu felst sé þannig brot á stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaganna.

Í dómi Félagsdóms nr. 9/1999 var fjallað um kröfu þess efnis að Vélstjórafélag Íslands færi með samningsaðild fyrir nokkra vélfræðinga við gerð kjarasamnings við Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra sem vélfræðingar hjá stofnunum Reykjavíkurborgar. Vélfræðingarnir höfðu áður verið félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkur. Vélstjórafélagið taldi sig hafa samningsrétt m.a. á grundvelli 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 en Reykjavíkurborg andmælti því þar sem Vélstjórafélagið væri stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938 og ríki og sveitarfélögum væri ekki skylt að gera kjarasamninga við slík félög. Þá vísuðu þeir ennfremur til meginreglu 6. gr. laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna að einungis eitt stéttarfélög skuli semja við sama atvinnurekanda fyrir sömu starfsstétt. Í dómnum kom fram að Vélstjórafélagið væri landsfélag þeirrar starfsstéttar sem hefði lögformleg starfsréttindi. Aftur á móti var fjöldatakmörkunum 3. tl. 5. gr. vikið til hliðar. Þannig sagði í dóminum:

Reglan um samningsfrelsið er ein af meginstoðum samningaréttarins, enda þótt hún sæti ýmsum undantekningum. Við mat á frávikum frá reglunni verður að hafa í huga að samningsfrelsið er meginregla og frávikin frá henni ber að skýra þröngt. Augljóst er að það er undantekning frá þeirri reglu að þvinga félagsmenn eins stéttarfélags til að fá öðru stéttarfélagi, sem þeir hafa sagt sig úr og vilja ekki vera í, umboð sitt til kjarasamninga, en til þess kemur ef kröfur stefndu í máli þessu verða teknar til greina. Þetta verður að hafa í huga við túlkun á tilgreindu ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986.

Samkvæmt tilvitnuðu stjórnarskrárákvæði [74. gr.] og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eiga menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Sá réttur nær ekki aðeins til þess að vera félagsmaður heldur einnig til þess að láta til sín taka starfsemi félagsins, þar með að fela stéttarfélagi sínu umboð til að gera kjarasamning.

Þegar allt framangreint er virt verður að telja að víkja beri fjöldatakmörkunum 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 til hliðar í því tilviki sem hér er til úrlausnar og viðurkenna rétt stefnanda til að fara með samningsaðild tilgreindra félagsmanna sinna hjá Reykjavíkurborg þegar núgildandi kjarasamningar stefndu, Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar falla úr gildi.

Samkvæmt dóminum geta takmarkanir laganna nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna gengið of langt í að undanskilja ákveðin stéttarfélög samningsrétti við hið opinbera. Þó dómurinn víki fjöldatakmörkunum ákvæðisins til hliðar kemur þó fram að slíkt sé gert einungis í því tilviki sem hér er til úrlausnar og varpar dómurinn þannig ekki ljósi á að hvaða leyti ákvæðið gangi of langt. Þó hefur í öðru máli, dómi Félagsdóms nr. 1/2008, komið fram að með hliðsjón af meginreglu um samningsfrelsi og ofangreindum dómi sé ekki unnt að fara strangt í sakirnar við túlkun á skilyrðum 3. tl. 5. gr. og allan vafa verði að skýra til samræmis við stjórnarskrárvarinn og lögverndaðan rétt mann til að stofna og starfa í stéttarfélögum. Þá er athyglisvert að í niðurstöðunni í máli Vélstjórafélagsins felst í reynd, án þess að dómurinn fjalli sérstaklega um það, að ákvæði 6. gr. laganna um að einungis einu stéttarfélagi skuli veittur samningsréttur við sama atvinnurekanda fyrir sömu starfsstétt er vikið til hliðar.

Í öðrum málum hefur þó verið vikið með beinum hætti að samningstakmörkun þeirri sem felst í 6. gr. Þannig hefurFélagsdómur í máli nr. 1/2006 mótað þá reglu að sé staðan sú að sami atvinnurekandi hafi gert kjarasamning við tvö stéttarfélög þar sem sömu störfunum kann að vera til að dreifa standi 6. gr. því ekki í vegi að bæði félögin fari með samningsfyrirsvar vegna starfanna. Í dóminum segir að kanna þurfi eðli starfsins og kjarasamninga og sé um sambærilega launaflokka og launafjárhæðir að ræða og fyrir liggi að starfsmenn séu ýmist í almennum stéttarfélögum eða stéttarfélögum opinberra starfsmanna geti samningsfyrirsvar verið hjá hvoru stéttarfélaginu sem er. Skírskotun til starfsmats eða tilgreining í auglýsingu að um starfið gilti ákveðinn kjarasamningur var ekki álitið skipta máli.

Þá hefur komið fram hjá Félagsdómi að grunnregla 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um skuldbindingargildi samninga gildi ennfremur fyrir fyrrum félagsmenn stéttarfélaga sem starfa á grundvelli laga nr. 94/1986. Meðlimir stéttarfélaga sem starfa á grundvelli laga nr. 94/1986, sem segja sig úr því og ganga í annað stéttarfélag eru því eftir sem áður bundnir af kjarasamningi þess félags sem þeir voru áður í út samningstímabilið. Slík niðurstaða á sér stoð í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 sem fjallar um tímafrest til að tilkynna stofnun nýs stéttarfélags sem fer með samningsumboð fyrir lok samningstímabils.

Meginreglan er því sú að hin almennu stéttarfélög gera kjarasamninga við viðsemjendur sína á grundvelli laga nr. 80/1938. Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna gera ríkari formkröfur til þess hvaða stéttarfélög hafa rétt til að semja á grundvelli þeirra laga við hið opinbera. Þó hafa gengið dómar þar sem sú takmörkun sem felst í formkröfum laganna telst brot á samningsfrelsi stéttarfélaganna.

Var efnið hjálplegt?