Almennur og opinber vinnumarkaður-samanburður

Í þessum hluta er ætlunin að bera saman helstu reglur og réttindi starfsmanna á annars vegar opinberum vinnumarkaði og hins vegar á almennum vinnumarkaði. Þá verður ennfremur horft til þess munar sem kann að vera á réttindum eftir því hvort launafólk er í almennu eða opinberu stéttarfélögunum.

Umfjölluninni er skipt í tvo hluta; lagaumhverfi stéttarfélaga annars vegar og réttindi launafólks hins vegar.

Tvískipting vinnumarkaðar

Í megindráttum er hægt að skipta íslenskum vinnumarkaði í tvennt: hinn opinbera vinnumarkað og hinn almenna vinnumarkað. Á opinbera vinnumarkaðnum er launafólk sem starfar hjá ríki og sveitarfélögum en annað launafólk á hinum almenna. Í umfjölluninni er vísað til þessarar almennu orðnotkunar en ennfremur þegar talað er um opinbera starfsmenn er átt við þá starfsmenn sem starfa hjá hinu opinbera á grundvelli framangreindrar skiptingar en almennir starfsmenn eru þá aðrir starfsmenn. Stéttarfélög opinberra starfsmanna, opinberu stéttarfélögin, gera kjarasamninga við hið opinbera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og kjarasamninga við aðra atvinnurekendur á grundvelli laga nr. 80/1938. Almennu stéttarfélögin gera kjarasamninga samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem eru almenn lög um starfsemi stéttarfélaga hvort heldur um er að ræða opinbera eða almenna atvinnurekendur.

Samkvæmt framangreindu geta starfsmenn hjá stofnunum í eigu ríkis eða sveitarfélags starfað hvort heldur er á grundvelli kjarasamninga sem stéttarfélög gera samkvæmt lögum nr. 80/1938 eða á grundvelli kjarasamninga samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Nú hafa nokkur almenn stéttarfélög samið með þeim hætti að um ákvörðun og framkvæmd verkfalla vegna starfa hjá hinu opinbera gilda ákvæði III. kafla laga nr. 94/1986 og er það gert í því skyni að færa starfsumhverfi þeirra félagsmanna nær því sem gildir um aðra starfsmenn ríkis og sveitarfélaga.

Þá hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja leitt til þess að starfsmenn sem voru áður fyrr opinberir starfsmenn með þeim réttindum sem því fylgdu eru nú starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Stéttarfélög þeirra semja því nú á grundvelli laga nr. 80/1938 en réttindi þeirra eru í megindráttum þau sömu og opinberra starfsmanna.

Tengt efni

Var efnið hjálplegt?