Tengsl uppsagnar og slysaréttar

Samkvæmt 4.gr. laga nr. 19/1979, á allt verkafólk, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnuna, á beinni leið til eða frá vinnu, eða vegna atvinnusjúkdóma, sem orsakast af henni, rétt til launa fyrir dagvinnu í allt að 3 mánuði samkvæmt þeim taxta, sem viðkomandi tók laun eftir. Í kjarasamningum hefur auk þess verið samið um að þessi lögbundni slysaréttur komi til viðbótar áunnum rétti til greiðslu launa í veikindum og jafnframt að þessi réttur sé sjálfstæður og gangi ekki á veikindarétt starfsmannsins. Slysarétturinn er því bæði óháður fyrri notkun áunnins veikindaréttar vegna veikinda og notkun hans vegna annarra slysa. Það greiðist með öðrum orðum alltaf fullur veikindaréttur og 3 mánuðir að auki vegna slysa við vinnuna og slysa á beinni leið til eða frá vinnu, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Á sama hátt og við á um tengsl uppsagnar og veikindaréttar, verður þessi réttur vegna slysa heldur ekki skertur með uppsögn. 

Tekist var á umtúlkun þessara ákvæða í HRD 464/2014. Þar voru málsatvik þau að 
J höfðaði mál gegn I ehf. og krafðist greiðslu launa í fjóra mánuði (einn vegna áunnins veikindaréttar og þrír vegna slysaréttar) á grundvelli 4.gr. laga nr. 19/1979 og kjarasamnings vegna slyss sem hann varð fyrir á síðasta degi sínum í starfi hjá I ehf. í desember 2011. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ráðningarsamningur J við I ehf. hefði verið enn í gildi þegar slysið varð og því gæti hann að öðrum skilyrðum uppfylltum krafist launa samkvæmt ákvæðum kjarasamnings vegna óvinnufærni af völdum slyssins þótt tímabil hennar félli utan ráðningartíma hans hjá I ehf. 

Þessi réttur er háður því að launamaður sé óvinnufær á bótatímanum. Í fyrrgreindum HRD 464/2014 lágu fyrir læknisvottorð um þá óvinnufærni hans og var það talið nægjanlegt til þess að sýna fram á bótarétt, jafnvel þó J hefði ekki verið búin að ráða sig í aðra vinnu eftir að störfum hans hjá I ehf. lyki. Liggi hins vegar sannanlega fyrir að hinn slasaði hafi ekki ætlað sér að vera á vinnumarkaði eftir lok ráðningarsamnings geta bætur fallið niður. Fjallað var um þá stöðu í HRD 130/2012. Málsatvik voru þau að S krafði H ehf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir á síðasti degi í starfi sínu hjá fyrirtækinu. Byggði S kröfu sína á ákvæði kjarasamnings um rétt starfsmanna til launa forfallist þeir frá vinnu vegna vinnuslyss og vísaði einnig til 4. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í báðum þessum heimildum væri það skilyrði fyrir rétti starfsmanna að þeir forfallist frá vinnu vegna slyss. Í málinu kom fram að S var á leið í 5 vikna ferðalag þegar við lok uppsagnarfrests og síðan í beinu framhaldi þess í nám við Háskóla Íslands. Því skilyrði að S hefði vegna slyssins forfallast frá vinnu var því ekki  fullnægt og var H ehf. sýknaður. Niðurstaðan hefði orðið önnur ef S hefði þurft að fara í atvinnuleit við lok uppsagnar eða ef hann hefði þegar verið kominn með aðra vinnu. Þá hefði hann sannarlega forfallast frá vinnu og orðið fyrir tjóni sem bótaskylt væri skv. 4.gr. laganna. Eins ber að hafa í huga, að í því tilviki sem dómur þessi fjallaði um var upplýst, í héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti, að "Slysið breytti ekki þessum áformum hans og er ekki annað framkomið en að þau hafi í einu og öllu gengið eftir." Réttarstaðan hefði með öðrum orðum verið önnur ef viðkomandi hefði ekki getað farið í hið áformaða frí eða getað hafið nám og bótaréttur þá verið til staðar. 

Var efnið hjálplegt?