Skaðabótaskyld slys við vinnu

Vinnuslys sem rekja má til sakar atvinnurekanda eða annarra aðila sem hann ber ábyrgð á eru skaðabótaskyld samkvæmt almennum reglum. Það þýðir að allt fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón (miski) er greitt, hvort heldur það er tímabundið tjón (launatap í forföllum) eða varanlegt (örorka). 


Atvinnurekandi ber allan sjúkra- og flutningskostnað, annan en þann sem Tryggingastofnun greiðir. Beri launamaður að hluta til ábyrgð á tjóni sínu getur það leitt til þess að sök verði skipt milli hans og atvinnurekanda.

Margir atvinnurekendur baktryggja sig með því að kaupa ábyrgðatryggingar vegna þeirra tjóna sem þeir bera bótaábyrgð á og ganga þá tryggingafélögin inn í réttarstöðu þeirra. 

Atvinnurekendum ber að kaupa atvinnuslysatryggingu fyrir starfsmenn sína samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Tryggingin gildir að jafnaði vegna slysa á vinnustað og á beinni leið til eða frá vinnu. Örorkubætur eru greiddar vegna varanlegrar örorku sem reiknuð er í prósentustigum. Dagpeningar eru greiddir vegna tímabundinnar örorku og dánarbætur vegna andláts launamanns. 

Öll slys á vinnustað ber að tilkynna. Rannsókn lögreglu og Vinnueftirlits er nauðsynleg ef líkamstjón hefur orðið og er oft frumgagn við sönnun orsaka og skaðabótaskyldu og raunar einnig til úrlausnar ágreiningi um hvort slys hafi í raun átt sér stað eða hvort orsakir tjóns séu aðrar sbr. t.d. Hrd. 560/2017. Frumskylda til þess að tilkynna vinnuslys liggur á atvinnurekanda og getur trassaskapur hans í því efni fellt sönnunarbyrði um atvik á hann þ.e. snúið sönnunarbyrði við sbr. t.d. Hrd. 151/2017. Nauðsynlegt er einnig að halda saman öllum kvittunum vegna útlagðs kostnaðar og eignatjóns. 

Flest slys valda tjóni á líkama og heilsu. Sumar afleiðingar eru lengi að koma fram og ungt fólk telur sig oft verða fyrir minna tjóni en síðar kemur í ljós. 

Í flestum tilvikum er nauðsynlegt að njóta leiðsagnar verkalýðsfélaganna, starfsmanna þeirra og lögfræðinga til þess að tryggja sönnun og að öllum réttindum samkvæmt viðeigandi kjarasamningum, tryggingum og lögum sé til haga haldið.

Fjölmargir dómar hafa fallið um skaðabótaskyldu atvinnurekenda vegna slysa við vinnu. Þeir dómar sem vísað er hér til gefa mynd af þeim margbreytilegu atvikum sem valdið geta bótaskyldu atvinnurekenda vegna slysa við vinnu og þá jafnframt með hvaða hætti atvik geta orðið til að sök verði skipt milli atvinnurekanda og starfsmanns. Mikilvægt er að hafa í huga að skyldur atvinnurekenda til þess að halda starfsumhverfi starfsmanna sinna öruggu og leiðbeina þeim um framkvæmd vinnu eru miklar. Í dómi Landsréttar í málinu nr. 402/2018 segir um þetta efni: „Starfsmenn eiga almennt að geta treyst því að ef ekki er af hálfu vinnuveitanda farið eftir fyrirmælum vinnuverndarreglna fái þeir bætt tjón sem af því hlýst ef ekki er um stórfellt gáleysi þeirra sjálfra að ræða, svo sem ef þeir brjóta gegn fyrirmælum og leiðbeiningum sem þeir fá frá vinnuveitanda.“ (Sjá reifun hér fyrir neðan)


Dómar

Lrd. 402/2018. A vann á lyftara í frystigeymslu O hf.  Þegar hann var að sækja vörur í rafknúinn hillurekka fór hann sjálfkrafa af stað og klemmdist fótur hans milli lyftarans og rekkans. Ekki hafði verið gert sérstakt áhættumat vegna notkunar rekkakerfisins þótt hættueiginleikar þess hefðu verið viðurkenndir og leiðbeiningum til starfsmanna um notkun rekkakerfisins og öryggisráðstafanir vegna þeirrar notkunar var ábótavant. O hf. hefði því vanrækt skyldur sínar samkvæmt 2. mgr. 65. gr. a laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 7. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Jafnframt segir í dóminum að „Þá yrði O hf. að bera hallann af því að ósannað væri að ekki hefði mátt koma í veg fyrir slysið með því að framfylgja fyrrgreindum vinnuverndarákvæðum.“  

Í Hrd. 605/2016 voru atvik þau að A varð fyrir vinnuslysi er hann festi söðul á færibandi fiskflökunarvélar í fatnaði sínum með þeim afleiðingum að hægri hönd hans dróst með færibandinu inn í hnífa vélarinnar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að orsök slyssins mætti rekja til þess að hlífðarfatnaður á slysdegi hefði ekki veitt fullnægjandi vörn gegn þeirri vá sem stafað hefði af vélinni. Vísað var til þess að engu hefði breytt hvort ermahlífar hefðu verið bornar undir hönskum eða yfir þeim eins og fyrirmæli  samkvæmt gæðahandbók fyrirtækisins hefði kveðið á um. Var því talið að atvinnurekandi bæri ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð á tjóninu vegna þeirrar saknæmu vanrækslu að A hefði ekki klæðst viðeigandi persónuhlífum. Um slys við færiband sjá einnig 527/2017 (ungur aldur, skortur á öryggisnámskeiði).

Í Hrd. 37/2016 var deilt um hvort máli geti skipti að tilkynning til Vinnueftirlits um vinnuslys sé gerð þegar í stað eða síðar, í þessu máli nokkrum dögum síðar. Meginreglan er sú að tilkynna beri strax til þess einfaldlega að hægt sé að rannsaka vettvang og orsakir slyss og vanhöld á því geta fellt sönnunarbyrði á atvinnurekanda ef ágreiningur er um atvik. Í dómi Hæstaréttar í þessu máli kom hins vegar fram að þar sem ekki væri ágreiningur um aðdraganda slyssins auk þess sem málsatvik væru upplýst skipti ekki máli fyrir sönnunarfærslu í málinu hvenær tilkynningin var afhent. 

Í Hrd. nr. 639/2015 er fjallað um slys er varð við hífingu á þungum hlut. Upplýst var að einfalt hefði verið að haga umbúnaði og tryggingum betur en gert var. Í dóminum eru meginskyldur atvinnurekanda rammaðar inn og þar segir: "Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og sér um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hefur umsjón með. Þá segir í 37. gr. laganna að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta og samkvæmt 42. gr. skal vinnustaður þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Með því að ganga ekki tryggilega frá því að umrædd kerskel væri stöðug fór stefndi [... ] ekki eftir framangreindum lagaákvæðum. Vegna þeirrar saknæmu vanrækslu sinnar ber hann skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda." Hinn slasaði starfsmaður var talinn hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þar sem hann hefði m.a. ekki notað tiltæk verkfæri og ekki gætt þess sem skyldi að koma hönd sinni ekki í klemmu hættu en sérstök viðvörum þar um var augsýnileg. Af þessum sökum var hann látinn bera 1/3 hluta tjóns síns. 

Í Hrd. nr. 395/2014 var alvarlegt flugatvik ekki tilkynnt til Flugmálastjórnar en flugfreyja féll og slasaðist við skyndilega hraðabreytingu. Því hefði ekki farið fram rannsókn á því hvort rekja mætti slys hennar til saknæmrar háttsemi flugstjórnenda flugvélarinnar umrætt sinn eða óhappatilviks. Í ljósi þeirrar vanrækslu á tilkynningarskyldu sinni yrði áfrýjandi að bera hallann af sönnunarskorti um orsakir slyssins. Í þessu máli kom jafnframt fram að ekki hefði verið orðið við áskorun um framlagningu gagna sem sérfróðir menn hefðu getað lagt mat á. 

Í Hrd. nr. 101/2009 krafði starfsmaðurinn B fyrirtækið S hf. um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir við vinnu sína er hann féll af röraverkpalli í eigu S hf. með þeim afleiðingum að hann hælbrotnaði illa á hægra fæti. Hafði B verið að vinna í húsnæði S hf. í Helguvík hjá undirverktakanum E ehf. Deilt var um atvik að slysinu, m.a. um hæð vinnupallsins þegar B féll af honum. Talið var að annmarki hefði verið á tilkynningu til Vinnueftirlits ríkisins sem olli því að eftirlitið skoðaði ekki vettvang slyssins fyrr en þremur mánuðum síðar. Bæri S hf. ábyrgð á þessu í lögskiptum málsaðila og leiddi þetta til þess að sönnunarbyrði um umdeild atvik og bótaskylda var lögð á S hf. B var látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur.

Þá var í Hrd. nr. 65/2009 komist að þeirri niðurstöðu að slys væri að rekja til óaðgæslu af hálfu starfsmannsins en ekki til atvika er vörðuðu atvinnurekandann. Í því máli krafði B S hf. um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir er hann vann sem umsjónarmaður á bílaþvottastöð S hf. Var B við vinnu sína er dæla, sem sá um að dæla olíuhreinsivökva úr tanki fyrir utan þvottastöðina og inn á þvottavél, stóð á sér. Til þess að koma dælunni af stað og tæma loft sem þar myndaðist tók B slönguna í sundur og tók að sjúga vökvann upp til að koma henni í gang aftur. Er dælan tók við sér hætti B að sjúga en var ekki nægilega fljótur að skrúfa slönguna saman aftur og spýttist olíuhreinsivökvinn yfir hann og fór talsvert magn ofan í B sem varð fyrir varanlegum skaða vegna þessa. Talið var að B hefði að eigin frumkvæði tekið ákvörðun um að taka slönguna í sundur og sjúga vökvann upp. Yrði slysið ekki rekið til skyndilegrar bilunar í dælunni heldur til vinnulags hans. Hefði B, sem áður hafði unnið á vélaverkstæði S hf. í um 6 ár, mátt gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem hann tók í umrætt sinn. Slysið varð því rakið til óaðgæslu af hans hálfu og var S hf. því sýknað af kröfu B.

Hrd. nr. 481/2008 varðaði slys er póstburðarmaður varð fyrir í störfum sínum fyrir Í en starfsmaðurinn var að fara út úr húsakynnum Í með póstburðarkerru er hann féll af rampi við dyrnar. Handrið sem rampinn var girtur af með hafði verið fjarlægt vegna viðgerðar. Talið var að Í þyrfti að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið fyrr en of seint og það hafi þar með ekki verið rannsakað. Var framburður starfsmannsins um slysið því lagður til grundvallar. Talið var að ástæða slyssins hafi verið sú að handrið vantaði á rampinn. Bæri Í ábyrgð á því sem fasteignareigandi. Væru ástæður ekki forsvaranlegar án handriðs og til þess fallnar að skapa hættu, en ekki væru efni til að fella sök vegna slyssins að hluta á starfsmanninn. Var fallist á kröfu starfsmannsins um viðurkenningu á því að Í bæri skaðabótaábyrgð á líkamstjóninu. Sjá til samanburðar Hr. 583/2017 þar sem atvinnurekandi hafði sett upp hálkuvarnir og var sýknaður. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar viðarpallur blotni í rigningu gæti myndast hálka og var lagt til grundvallar að starfsmaðurinn hefði dottið af þeim sökum. Þá var tekið fram að atvinnurekandinn hefði látið fræsa rákir í pallinn og að hann hefði verið þveginn reglulega en það tvennt drægi úr hálkumyndun. Var því talið að hann hefði gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja öruggara umhverfi og því ekki talið að slysið yrði rakið til vanbúnaðar fasteignarinnar eða annarra atvika sem hann bæri ábyrgð á. Af þessum ástæðum var sýknað. 

Í Hrd. nr. 272/2008 krafðist P þess að viðurkennd yrði bótaskylda S á tjóni sem hann varð fyrir í starfi sínu á svokölluðum steinalager á vinnusvæði fyrir utan steinsmiðju S. Óumdeilt var að slysið varð eftir að P hafði komið steini fyrir í grjóthrúgu á lagersvæðinu. Féll P er hann var að fara niður af steininum eftir að hafa leyst krók af keðjum sem slegið hafði verið um steininn. P var einn til frásagnar um slysið. Fallist var á það með héraðsdómi að þar sem engin rannsókn hafði farið fram af hálfu Vinnueftirlits ríkisins, sökum þess að S lét hjá líða að tilkynna eftirlitinu um slysið, yrði frásögn P af atvikum lögð til grundvallar sem og þær upplýsingar sem lágu fyrir í málinu og ollu ekki ágreiningi. Talið var að S hefði ekki sinnt nægilega skyldu sinni til að tryggja öryggi á vinnustað sínum eins og mátti krefjast af honum og að sú vanræksla hans hefði átt þátt í að P varð fyrir umræddu slysi. Bar S því fébótaábyrgð á tjóni P. P var látinn bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur, þar sem hann þekkti aðstæður vel og hafði margsinnis áður tekið á móti stórgrýti. Honum hafi því borið að gæta að sér við vinnu sína eins og sanngjarnt og eðlilegt mætti telja.

Í Hrd. nr. 428/1991 var deilt um hvort tjón vegna bakmeiðsla (brjóskloss) T, sem hún varð fyrir við að lyfta þungu kefli á vinnustað sínum (P), væri bótaskylt eða ekki. P hélt því fram að "bakveiki" T væri ekki að rekja til neinna aðstæðna á vinnustað en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að skort hafi á að starfsskipulag tryggði öryggi starfsmanna. Til þess að lyfta hinum þungu keflum hafði upphaflega verið lagt til sérstakt tæki. Það hefði verið ónothæft án þess að annað kæmi í þess stað auk þess sem P hefði verið ljóst að fyrir hefði komið áður að starfsfólk hefði ofreynt sig í baki við þetta verk.  T var látin ber 1/4 hluta tjóns síns sjálf.

Aðrir dómar er varða bótaskyldu atvinnurekenda eru m.a.:  

Hrd. nr. 529/2008 Ósannað talið að slys hefði verið tilkynningarskylt, sýkna. 

Hrd. nr. 363/2008 Atvinnurekandi ber ábyrgð á ófullnægjandi rannsókn. 

Var efnið hjálplegt?