Tilkynningar um veikindi

Skylda atvinnurekanda til greiðslu launa í veikindum vegna sjúkdóma og slysa er háð því að launþegi hafi tilkynnt um veikindin með réttum hætti eins og lög og kjarasamningar kveða á um. Í lögum nr. 19/1979 er þó ekkert fjallað um tilkynningar veikinda. Það breytir því ekki að þegar forföll ber að höndum vegna sjúkdóma er nauðsynlegt að launamaður tilkynni atvinnurekanda það svo fljótt sem við verður komið, svo hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir á vinnustað. 

Þannig var í Hrd. nr. 40/2004 atvinnurekandi sýknaður af greiðslu launa í veikindaforföllum þar sem ekki þótti sannað að forsvarsmenn hans hafi haft vitneskju um veikindi starfsmannsins. 
 
Í kjarasamningum eru oft ákvæði um tilkynningar veikinda. Jafnvel þótt engin ákvæði sé að finna um tilkynningar veikinda í lögum eða kjarasamningum verður að tilkynna veikindi. Það er eðlilegur þáttur í vinnuréttarsambandi að launamaður gefi skýringar á því hvers vegna hann uppfylli ekki meginskyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningnum, að mæta til vinnunnar. Að öðrum kosti á starfsmaður það á hættu að vera vikið úr starfi fyrirvaralaust vegna vanefnda á samningi. Oft er það tekið fram við ráðningu starfsmanns með hvaða hætti hann skuli tilkynna veikindi. Eðlilegt er að þau séu tilkynnt yfirboðara, verkstjóra eða skrifstofustjóra eða þeim sem annast starfsmannahald. Ef ekki eru um þetta skýrar reglur verður starfsmanni ekki gert að sök þótt skilaboð komist ekki í réttar hendur. 

Óeðlilegt er að gera þær kröfur til sjúkra starfsmanna að þeir tilkynni veikindi á fleiri en einn stað. Atvinnurekandinn á að geta sinnt frekara tilkynningarhlutverki og upplýsingahlutverki innan vinnustaðar. Atvinnurekandi á ekki að setja svo stífar reglur um tilkynningar um veikindi að fólki sé gert óþarflega erfitt fyrir. Hér verður að sýna sanngirni. Til dæmis er ekki hægt að svipta mann veikindarétti vegna þess að honum var ókleift að tilkynna veikindi fyrir hádegi fyrsta dag veikinda. Hins vegar mætti  atvinnurekandi ef til vill líta svo á að starfsmaður hafi hlaupist á brott úr starfi ef ekkert heyrist frá honum í þrjá til fjóra daga.

Það er jafnframt álit ASÍ að atvinnurekendum sé ekki heimilt að skilyrða greiðslu launa í veikindaforföllum við tilkynningu veikinda til sérstakra fyrirtækja á sviði heilsuverndar. Slíkar reglur ganga ekki framar ákvæðum kjarasamninga sem að jafnaði mæla fyrir um tilkynningu til næsta yfirmanns.

Var efnið hjálplegt?