Tengsl uppsagnar og veikindaréttar

Veikindaréttur fellur niður við starfslok manns. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður hefur sjálfur sagt starfi sínu lausu eða hvort honum hefur verið sagt upp starfi. Hafi til dæmis starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en eftir það verður hann veikur á hann ekki rétt til launagreiðslna lengur en til loka ráðningartímans. Hafi hins vegar veikindi borið að höndum áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindarétturinn tæmdur. Þetta byggist á því sjónarmiði að atvinnurekandanum á ekki að vera mögulegt að skerða veikindaréttindi starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi.

Spurning hefur verið um það hvort atvinnurekanda sé heimilt að segja upp starfsmanni sem er í veikindafríi. Almennt er litið svo á að svo framarlega sem veikindaréttur manns sé ekki skertur með uppsögn komi veikindin ekki í veg fyrir uppsögnina. Oft er þó höfðað til þess að siðlaust sé að segja upp veiku fólki.

Í Hrd. nr. 297/2015 var tekist á um hvort segja mætti starfsmanni upp í veikindum. Uppsögnin var talin ólögmæt skv. sérákvæði í kjarasamningi og laun í veikindum dæmd. 

Í Hrd. nr. 40/2004 var meðal annars tekist á um hvort skipverji haldi rétti til launa í veikindum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga er skip ferst. Fram kemur í dóminum að í athugasemdum með sambærilegu ákvæði í eldri lögum hafi verið sagt að skylda útgerðarmanns til launagreiðslu skyldi haldast "jafnt fyrir það, þó að ráðningartími sé fyrr á enda samkvæmt ákvæðum skiprúmssamnings eða vegna uppsagnar hans". Þannig tekur dómurinn fram að ljóst sé að réttur samkvæmt 36. gr. sjómannalaga til greiðslu launa í veikindaforföllum sé ekki takmarkaður við ráðningartíma skipverja. Verði því að telja að sá réttur haldist einnig þótt ráðningarsamningi sé slitið samkvæmt 26. gr. laganna við það að skip ferst. 

Hrd. 1994:1109. Í hinum áfrýjaða dómi Bæjarþings Reykjavíkur var komist að þeirri niðurstöðu að eins og veikindum mannsins hafi verið háttað ætti hann ótvíræðan rétt til fullra launa í sex mánuði og hálfra launa í aðra sex samkvæmt kjarasamningi. Þótt því verði að sönnu játað með atvinnurekanda að honum hafi verið heimilt að slíta ráðningarsamningi við manninn, hvort sem var sökum þess að hann var orðinn ófær til að gegna starfi sínu eða af öðrum ástæðum, þá gat hann ekki bundið enda á samningssambandið þannig að maðurinn glataði réttindum sem hann hafði öðlast fyrir uppsögnina. Þannig var fallist á það með manninum að hann ætti rétt til bóta sem svaraði til verðmæta veikindaorlofsins auk orlofsfjár af þeim launum. Þessu máli var áfrýjað til Hæstaréttar sem aftur á móti sýknaði atvinnurekandann. Þar var litið til þess fyrst og fremst, að starfsmaðurinn hafði sjálfur óskað launalauss leyfis án þess að geta veikinda sinna. Honum hafi verið sagt upp störfum við svo búið en hvorki mætt til starfa eða boðað forföll. Þannig hefði hann vanefnt vinnuskyldu sína á uppsagnarfresti og fyrirgert rétti sínum til launa. Í dómi Hæstaréttar er sérstaklega tekið fram að ekki hafi tekist að sanna að uppsögnin hafi komið fram til þess að losa atvinnurekandann við starfsmanninn vegna veikinda hans og jafnframt að heimilt hafi verið að segja starfsmanninum upp án þess að tilgreina orsakir. Ekki er allskostar ljóst hvað Hæstiréttur á við með þessu orðalagi en ætla verður að réttarstaða starfsmannsins hefði orðið önnur ef tekist hefði að sanna að atvinnurekandinn hefði af ásetningi ætlað að hafa réttindi af starfsmanninum.

Í dómi aukadómþings Rangárvallasýslu 15. maí 1990 var deilt um það hvort vinnuveitandi geti með uppsögn skert áunnin réttindi launþega til launa í veikindatilfelli þannig að við slit ráðningarsamningsins glati launþeginn þessum rétti. Í dóminum var deilt um rétt atvinnurekanda til að segja upp manni í veikindafríi, sem hafði þriggja mánaða uppsagnarfrest frá störfum. Í dóminum segir meðal annars að ef launþegi veikist og er síðar sagt upp þá er hann, þegar hann veikist, ennþá ráðinn í vinnu og nýtur réttinda sem slíkur og verður að telja að þau réttindi sem hann þannig á rétt til og hefur áunnið sér verði ekki af honum tekin með uppsögn. Síðan segir að svo verði að telja að stefnandi hafi átt rétt til launa úr hendi stefnda í samtals tvo mánuði vegna veikinda sinna enda var hann þegar veikur er stefndi sagði honum upp og var það enn tveim mánuðum eftir að hann veiktist fyrst. Uppsögn stefnda gat því ekki tekið gildi fyrr en þremur mánuðum eftir að tveggja mánaða veikindaleyfi stefnanda lauk.

Var efnið hjálplegt?