Talning veikindadaga

Ekki segir í lögum um veikindarétt nr. 19/1979 við hvaða tímabil réttindi miðist. Sú regla er þó almennt viðurkennd að finna veikindadaga þannig að líta til 12 síðustu mánaða frá upphafsdegi veikinda og reikna út hve mikinn veikindarétt starfsmaður hefur áunnið sér og hve mikinn veikindarétt starfsmaður hefur nýtt sér. Fram að kjarasamningum á árinu 2000 var skv. flestum kjarasamningum í gildi svokölluð endurtekningarregla þ.e. að hverjum nýjum veikindum fylgdi sjálfstæður veikindaréttur. Í kjarasamningunum á árinu 2000 var regla þessi afnumin og heildar veikindaréttur lengdur. Veikindarétturinn er nú heildarréttur á hverju 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar sjúkdóms. Við þessar breytingar á kjarasamningum á árinu 2000 var sérstaklega bókað að þessi breyting hefði engin áhrif á slysarétt launafólks. Þannig skapar hvert slys á leið til vinnu, á leið frá vinnu og við vinnu sjálfstæðan rétt hvert um sig.

Eins og fram kemur í kaflanum um greiðslurétt í veikindum er meginreglan er sú að starfsmaður á að vera eins settur fjárhagslega eins og ef forföll hefðu ekki borið að höndum. Starfsmaður á þannig ekki að hagnast á eigin veikindum, til dæmis vegna þess að veikindin urðu til þess að aðrir starfsmenn þurftu sannanlega að vinna yfirvinnu, eða kalla þurfti út aukavakt sem greidd er með aukavaktarálagi. Hann á heldur ekki að tapa á þeim. Þetta þýðir þá einnig að áunnir veikindadagar eru hvorki almanaksdagar eða virkir dagar heldur vinnudagar, tapaðir vinnudagar. 

Fæst veikindi eru þannig að um samfelld forföll sé að ræða þar til veikindaréttur er tæmdur. Þvert á móti eru flest veikindi skammtímaveikindi. Af þeim ástæðum þarf að halda saman fjölda þeirra veikindadaga sem greiddir eru.

Hlutavinnufólk ávinnur sér veikindarétt með sama hætti og fullvinnandi. Starfsmaður í 50% starfi sem unnið er 5 daga í viku, ávinnur sér veikindarétt með sama hætti og sá sem vinnur 100% starf þessa sömu daga. Á sama hátt ávinnur sá sem vinnur alltaf fasta yfirvinnu og vinnur því t.d. 120% starf, sama fjölda veikindadaga og sá sem vinnur 100% eða 50%. Greiðslur í veikindum verða hins vegar mismunandi þar sem greiðsluréttur miðast við að viðkomandi sé skaðlaus af veikindum sínum og að hann eigi hvorki að tapa á þeim eða hagnast.  

Fræðilega geta vandamál við túlkun skapast þegar hlutavinna er t.d. unnin 2,5 daga í viku (50% starf). Sá starfsmaður ávinnur sé veikindarétt með sama hætti og aðrir. Eftir 4 mánaða starf á hann rétt til greiðslu 8 tapaðra vinnudaga þ.e. daga sem hann hefði átt á vinna. Skv. því gæti hann verið í 4 vikur (einn mánuð) að taka þennan veikindarétt út lendi hann í langtímaveikindum. Ákvæði kjarasamninga eru ekki skýr hér um en fræðilega gæti starfsmaður í svona hlutastarfi, eftir 5 -12 mánaða starf, átt „lengri“ veikindarétt eða meira svigrúm til úttöku veikindaréttar, talið í mánuðum en hann ætti eftir eins árs starf. Þetta vandamál hefur verið þekkt allt frá setningu laga nr. 19/1979. Upphafleg túlkun Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtaka atvinnulífsins) var sú að túlka bæri lögin í samræmi við túlkun laga nr. 16/1958 og að telja bæri „greiðsludaga“ en ekki almanaksdaga („Vinnumál I“ frá 1978). Uppúr 1990 breytti SA um afstöðu og hélt því fram að á fyrsta ári beri að telja almanaksdaga en ekki greiðsludaga þegar svona háttar til en engir dómar hafa fallið sem staðfesta það. Ef fallist yrði á túlkun SA gæti starfsmaður með 4 daga veikindarétt og sem vinnur einungis mánudaga og þriðjudaga, glatað öllum veikindarétti sínum veikist hann t.d. frá miðvikudegi til miðvikudags. Fyrstu 4 dagar veikindanna þ.e. frá miðvikudegi til laugardags myndu þá tæma veikindarétt hans (dagar sem hann hefði ekki átt að vinna og hann verið launalaus hvort sem er) og hann launalaus þá daga sem hann hefði átt að vinna. Ef fallast ætti á túlkun SA yrði henni að fylgja greiðsluréttur á þeim almanaksdögum sem taldir væru en til þess hafa þau ekki verið reiðubúin. Bókun var gerð með kjarasamningum SA og aðildarsamtaka ASÍ á almennum vinnumarkaði 2015 um skýringu veikindaréttar sem heildarréttar. Þar segir: „Veikindaréttur miðast við greidda veikindadaga á 12 mánaða launatímabili. Þegar starfsmaður verður óvinnufær er við upphaf veikinda litið til þess hversu margir dagar hafa verið greiddir á síðustu 12 launamánuðum og dragast þeir frá áunnum veikindarétti. Hafi starfsmaður verið launalaus á tímabili telst það tímabil ekki með við útreikning.“ Þessi bókun sem skýrt mælir fyrir um að litið skuli framhjá launalausum tímabilum, styrkir túlkun ASÍ. Í ljósi upphaflegrar afstöðu atvinnurekenda, þessarar bókunar og á meðan skipulagsvald vinnunnar er á hendi atvinnurekenda verður að telja að túlkunarhallinn í þessu efni falli á atvinnurekendur.

Var efnið hjálplegt?