Sök starfsmanns

Oft er ruglað saman reglum skaðabótaréttar um sakarskiptingu og ákvæðum laga nr. 19/1979 og sjómannalaga nr. 35/1985 þegar fjallað er um áhrif ásetnings eða stórkostlegs gáleysis á veikindarétt launafólks. Nauðsynlegt er að taka fram að þær reglur sem gilda í skaðabótarétti koma reglum vinnuréttarins um greiðslu launa í veikindum ekkert við og þar er ekki að finna heimild til að lækka veikindagreiðslur vegna sakarstigs. Þeir dómar, sem fallið hafa um skaðabótakröfur launafólks á hendur atvinnurekenda vegna vinnuslysa, skipta hér engu máli. Veikindarétturinn er sjálfstæður tryggingaréttur sem byggist á ákvæðum laga og kjarasamninga og greiðist óháð reglum skaðabótaréttarins.

Sök starfsmanns, ásetningur eða stórkostlegt gáleysi geta þó orðið til þess að veikindaréttur glatast. Þótt ekki sé kveðið á um þetta í lögum nr. 19/1979 er í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins sagt að allar greiðslur skuli atvinnurekandi inna af hendi þótt veikindi séu óviðkomandi þeirri vinnu, sem launþeginn stundar svo fremi að ekki sé til að dreifa ásetningi eða gáleysi launþegans sjálfs. Þar sem þetta eru ummæli í athugasemdum með frumvarpi en ekki lagatextinn sjálfur ber einungis að hafa þetta til hliðsjónar við skýringar á lagatextanum. Með eigin athöfnum getur starfsmaður þannig glatað veikindarétti, svo sem ef hann framkallar veikindin til þess eins að koma sér hjá vinnu. Einnig getur hann með gáleysi sínu glatað rétti en til þess verður gáleysið að vera stórfellt, eins og dómstólar hafa túlkað þetta ákvæði.

Var efnið hjálplegt?