Greiðslur í veikindum

Meginreglan er sú að starfsmaður á að vera eins settur fjárhagslega eins og ef forföll hefðu ekki borið að höndum. Starfsmaður á þannig ekki að hagnast á eigin veikindum, til dæmis vegna þess að veikindin urðu til þess að aðrir starfsmenn þurftu sannanlega að vinna yfirvinnu, eða kalla þurfti út aukavakt sem greidd er með aukavaktarálagi. Hann á heldur ekki að tapa á þeim. Þetta þýðir þá einnig að áunnir veikindadagar eru hvorki almanaksdagar eða virkir dagar heldur vinnudagar, tapaðir vinnudagar. 

Nokkuð er misjafnt hvernig launagreiðslum í veikindum er háttað eftir lögum og kjarasamningum. Almennt eru þó reglurnar þannig að fyrsta tímabil veikinda ber að greiða fólki óskert þau laun sem það hefði haft ef það hefði unnið vinnuna en að því tímabili loknu tekur við tímabil þar sem einungis er greitt dagvinnukaup. 

Í 5 og 6.gr. laga nr. 19/1979 segir að "verkafólk skuli eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd", eftir eitt ár í starfi í einn mánuð, og á fyrsta ári tvo daga fyrir hvern unninn mánuð.

Í sjómannalögum nr. 35/1985 segir að skipverji "skuli eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær" vegna sjúkdóms eða meiðsla, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sama útreikningsreglan gildir því samkvæmt báðum þessum lögum, reglan um staðgengilslaun. Sjómenn geta þó átt lengri rétt undir ákveðnum kringumstæðum samanber Hrd. 1993:365

Í lögum og kjarasamningum eru notuð ýmis hugtök til þess að lýsa því hvaða laun beri að greiða í veikindum. Þau helstu sem um ræðir eru:

Staðgengilslaun 

Með hugtakinu staðgengilslaun er átt við að starfsmaður skuli fá greidd þau laun, sem hann hefði haft, ef forföll hefði ekki borið að höndum. Þetta gildir bæði um grunnlaun, yfirvinnukaup og ýmsar álagsgreiðslur, svo sem námskeiðsálag, flokksstjóraálag, viðgerðar- og þungaálag o.s.frv.

Í Hrd. 1968:67 var ákvæði l. 16/1958 "eigi missa neins í af launum sínum" skýrt þannig að greiða bæri manni laun fyrir þær vinnustundir, sem unnar voru í veikindaforföllum hans, þar á meðal eftirvinnu- og næturvinnu, enda verði að ætla að maðurinn hefði sjálfur unnið þær vinnustundir, ef hann hefði eigi veikst. Sjá ennfremur Hrd. 1972:138 og Hrd. 1975:145.

Við útreikning á staðgengilslaunum ber að miða við þau laun sem viðkomandi starfsmaður hefði sjálfur haft í tekjur að óbreyttu, en ekki hvað staðgengill hans hafði, eða hefði fengið. Einnig ná staðgengilslaun til launagreiðslna en ekki til greiðslu kostnaðarliða eins og bifreiðastyrks og dagpeninga eða annarra greiðslna sem eru einungis endurgreiðsla á útlögðum kostnaði.

Dagvinnulaun 

Dagvinnulaun starfsmanns eru þau laun sem starfsmaður fær greidd fyrir vinnu sína á dagvinnutímabili, án bónusa og hvers konar álagsgreiðslna fyrir 8 klukkustundir á dag eða 40 stundir á viku miðað við fullt starf. 

Full dagvinnulaun  

Full dagvinnulaun eru föst laun fyrir dagvinnu auk vaktaálags, bónus og annarra afkastahvetjandi eða sambærilegra álagsgreiðslna fyrir 8 klukkustundir á dag eða 40 stundir á viku miðað við fullt starf.

Meðaltalslaun 

Í nokkrum kjarasamningum eru ákvæði þess efnis að í stað staðgengilslauna skuli greiða dagvinnukaup auk meðaltals yfirvinnu ákveðið tímabil. Þessi aðferð tryggir að starfsmaður fær að minnsta kosti meðaltal yfirvinnu í veikindum sínum, en með staðgengilsreglu myndi yfirvinna greiðast aðeins ef hún hefði verið unnin þá daga sem veikindi vöruðu. 

Launalaus leyfi 

Veikindaréttur fellur niður í launalausu leyfi og ávinnst ekki á meðan á því stendur. Sé maður veikur þegar að launalausu leyfi kemur falla launagreiðslur niður. Þetta á ekki við um vinnuslys sem verða í aðdraganda launalauss leyfis. Sé maður veikur þegar hann hyggst snúa til baka úr launalausu leyfi á hann rétt á veikindagreiðslum hafi hann áunnið sér slíkan rétt áður en hann fór í leyfið.

Sérreglur gilda um sjómenn og í 1.mgr. 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er sérstaklega fjallað um launalaus leyfi sjómanna og veikindi og slys. Þar segir: “Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju.“ Á túlkun þessa ákvæðis hefur ítrekað reynt fyrir dómi en niðurstaða Hæstaréttar er sú, að ákvæðið beri að túlka þröngt og nákvæmlega eftir orðanna hljóðan. Hugtakið „launalaust leyfi“ beri að skilja þannig að það taki ekki til þeirra tímabila þar sem sjómaður kann að hafa verið í „frítúr“ sem til er kominn vegna skipulags vinnu um borð. Sigli menn t.d. annan hvern túr og njóti 100% launa fyrir þá sem farnir eru eða 50% launa allt árið af sömu ástæðu, telst túrinn sem verið er í landi ekki launalaust leyfi í skilningi laganna. Ágreining hvað þessa túlkun varðar hefur Hæstiréttur útkljáð m.a. með dómum í málunum nr. 412/2014 og 400/2012. Annað kann að gilda um „innbyrðis greiðslumiðlun“ milli sjómanna sjálfra sem ekki er hluti af skipulagi því sem útgerðin hefur sett á sbr. Hrd. nr. 385/2012, 288/2007 og 289/2007.

Í Hrd. nr. 138/1984 var tekin afstaða til kröfu sjómanns á fiskiskipi, sem veiktist í veiðiferð en hafði áður sammælst við útgerðarmann um að taka launalaust leyfi eftir lok hennar, um laun í veikindaforföllum vegna næstu veiðiferðar á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laga nr. 67/1963. Þar var fallist á þá kröfu með því að lagaákvæði þetta yrði ekki skýrt þannig að réttur skipverja, sem veiktist við vinnu sína, til launa yrði skertur sökum þess að hann hefði á veikindatímabilinu átt að vera í launalausu leyfi. Til stuðnings þessu var vísað til skýringa í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 49/1980, en þar sagði meðal annars: „Hins vegar er gert ráð fyrir að skipverji, sem forfallast við vinnu sína, haldi launum þótt hann hafi átt að fara í launalaust frí síðar.“

 

Verkföll 
Greiðslur veikindalauna falla niður í verkfalli eins og aðrar launagreiðslur. Á sama hátt ávinnst ekki veikindaréttur meðan á verkfalli stendur.  

Sérákvæði í kjarasamningum 
Í kjarasamningum er sums staðar að finna reglur sem eru ekki í samræmi við ofangreindar reglur eða frekari útfærsla á þeim. Einnig getur framkvæmd kjarasamninga verið með öðrum hætti en að ofan greinir. Nauðsynlegt er því að kanna hverju sinni þann kjarasamning sem unnið er eftir. Tekið skal fram að l. 19/1979 kveða á um lágmarksrétt samkvæmt 10. gr., og því er einungis hægt að semja í ráðningarsamningi eða kjarasamningi um ákvæði sem eru launafólki hagstæðari en ákvæði laganna.

Var efnið hjálplegt?