Er hægt að semja af sér veikindarétt

Lög um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 kveða á um lágmarksrétt. Samkvæmt 10. gr. þeirra eru ákvæði samnings milli atvinnurekanda og launamanns, sem brjóta í bága við lögin, ógild ef þau rýra rétt launamannsins. Þar segir ennfremur að haldast skuli þau réttindi sem veitt eru með sérstökum lögum, samningum eða leiða af venju í einstökum starfsgreinum, ef þau eru launamanninum hagstæðari en ákvæði laganna.

 
Launafólk getur því ekki samið þennan rétt af sér. Í Hrd. 1981:1559 var tekist á um túlkun á þessu ákvæði. Þótt dómurinn fjalli um uppsögn var  deilt um túlkun á því ákvæði laganna sem bæði nær til uppsagnarþáttar laganna og veikindaþáttar. Í málinu var deilt um það hvort heimilt hefði verið að semja um styttri uppsagnarfrest þar sem starfsmaður hafði áður gerst brotlegur vegna áfengisnotkunar á vinnustað. Starfsmanninum hafði verið gerð grein fyrir því að ef hann stæði sig ekki og neytti áfengis í vinnutíma eða gæti ekki mætt í vinnu sakir áfengisneyslu yrði litið svo á að hann væri hættur störfum. Hann gekkst við þessum skilmálum fyrir áframhaldandi vinnu. Honum var vikið úr starfi stuttu síðar vegna meintrar áfengisneyslu er hann mætti ekki í vinnu fyrr en eftir hádegi einn laugardag, en starfsmaðurinn bar fyrir sig bráða tannrótarbólgu sem ástæðu fráveru. Dómstólar sýknuðu atvinnurekanda af kröfu um greiðslu launa á uppsagnarfresti og segir í dómi Hæstaréttar að heimilt hafi verið að gera slíkan samning þrátt fyrir ákvæði 7. gr. l. nr. 16/1958 (Nú 10. gr. l. 19/1979) þar sem telja verði að samningurinn í heild hafi ekki rýrt rétt starfsmannsins. 

Var efnið hjálplegt?