Lágmarksreglur

Lágmarksreglur um veikinda- og slysarétt launafólks er að jafnaði að finna í lögum. Við þann rétt er aukið með ákvæðum kjarasamninga.

Í ráðningarsamningum er einnig að finna reglur um veikinda- og slysarétt en þar ekki hægt að víkja frá lágmarksreglum laga og kjarasamninga. Slíkir samningar eru ógildir sbr. m.a. 7.gr. laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, 24.gr. laga 94/1986  og 10. gr. laga nr. 19/1979. Í ráðningarsamningum er því einungis hægt að semja um betri rétt en lög og kjarasamningar kveða á um.

Landverkafólk 

Lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla fjalla um lágmarksréttindi almenns landverkafólks.  Í öllum aðalkjarasamningum á almennum vinnumarkaði eru síðan ákvæði um veikinda- og slysarétt sem eru oft í grunninn efnislega samhljóða ákvæðum laga nr. 19/1979. Í kjarasamningunum hefur síðan verið samið um betri veikindarétt en lögin kveða á um. Ekki skiptir máli varðandi þessi réttindi hvort starfsmenn eru félagar í stéttarfélagi eða atvinnurekendur í samtökum atvinnurekenda því samkvæmt ákvæðum starfskjaralaga nr. 55/1980 ákvarða kjarasamningar lágmarkskjör allra þeirra sem vinna tiltekin störf á því svæði sem kjarasamningur nær til.

Sjómenn

Í 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er fjallað um réttindi sjómanna.

Opinberir starfsmenn 

Um veikinda- og slysarétt félagsmanna þeirra stéttarfélaga starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem semja skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna (opinberu félögin) fer skv. viðkomandi kjarasamningum. Um starfsmenn ríkisins sérstaklega segir í 12. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að starfsmenn ríkisins eigi rétt til launa í veikindaforföllum eftir því sem fyrir er mælt í lögum og eftir atvikum, ákveðið eða um samið er um með sama hætti og laun.

Var efnið hjálplegt?